The Public Book Club, Almenna bokafelagid, AB, held its annual general meeting on 4 May 2023. AB was founded on 17 June 1955 in order to counter the disproportionate influence of the communist-dominated book club Language and Culture, Mal og menning, supported by Soviet money, the notorious ‘Russian Gold’. AB is now a publishing company rather than a book club, however. AB’s Director, Jonas Sigurgeirsson, gave a report about last year for the other shareholders, Kjartan Gunnarsson, Baldur Gudlaugsson, and Armann Thorvaldsson. Also present was the Academic Adviser to AB, Professor Hannes H. Gissurarson. The books published in 2023 included a book on the investigation by officials of the Central Bank of Iceland of the fishing firm Samherji, characterised by the abuse of discretionary power and organised leaks from the investigators to the media.

Comments Off

David Friedman: Jákvæðar og neikvæðar loftslagsbreytingar

Eðlisfræðingurinn og hagfræðingurinn David D. Friedman sótti rabbfund á vegum RSE, Rannsóknamiðstöðvar í efnahagsmálum og stjórnmálum, í Sjálfstæðishúsinu gamla miðvikudaginn 1. maí 2024 klukkan fjögur. Húsfyllir var á fundinum, sem Halldór Benjamín Þorgeirsson, stjórnarformaður RSE, setti. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus, stjórnaði fundinum. Hann rifjaði upp, að fyrir fjörutíu og fimm árum hefði Friedman verið fyrsti fyrirlesari Félags frjálshyggjumanna, sem starfaði í tíu ár, 1979–1989. Væru jafnvel nokkrir nú staddir á þessum fundi, sem hefði verið á fundinum forðum. Var umræðuefnið þá lagasetning og réttarvarsla í íslenska Þjóðveldinu 930–1262.

Í stuttri framsöguræðu fór Friedman yfir nokkrar breytingar á þessum fjörutíu og fimm árum. Bæri hæst, að enginn tryði lengur á miðstýrðan áætlunarbúskap, enda hefði hann aðallega verið fólginn í skilningsskorti á nauðsynlegri dreifstýringu í atvinnulífinu. Nú hefði umhverfisöfgastefna tekið við af sósíalisma í gömlu merkingunni og jafnvel breyst í ný trúarbrögð. Friedman vék að hlýnun jarðar. Hann kvað ljóst, að eitthvað hefði hlýnað á síðustu áratugum og líklega væri eitthvað af þeirri hlýnun af manna völdum, vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloft, sérstaklega koltvísýrings. En alls væri óvíst, að þessi hlýnun hefði meiri neikvæðar afleiðingar en jákvæðar. Neikvæðu afleiðingarnar væru hækkun sjávarmáls og röskun á högum þeirra, sem gert hefðu áætlanir um líf sitt með hliðsjón af núverandi loftslagi. Jafnfram gætu einhver dýr eða plöntur, sem hefðu lagað sig að núverandi loftslagi, lent í í erfiðleikum. Jákvæðu afleiðingarnar væru hins vegar stóraukið gróðurlendi. Það hlýnaði jafnframt meira í köldum löndum en heitum og meira á vetrum en sumrum.

Friedman svaraði mörgum fyrirspurnum um ýmis efni. Hann sagðist vera hlynntur afskiptaleysisstefnu Bandaríkjanna í utanríkismálum, en þó ekki alveg strax. Evrópuríkin yrðu að koma sér upp eigin vörnum, en ekki treysta á, að bandarískir skattgreiðendur kostuðu varnir Evrópu. Þau ættu að hafa í fullu tré við Rússaveldi, ef þau beittu sér. Hann rifjaði upp, að í bók sinni Frelsinu í framkvæmd (The Machinery of Freedom), sem kom fyrst út 1971, hefði hann mælt fyrir frjálsum innflutningi fólks, en með því skilyrði, að það gæti ekki þegið opinberar bætur fyrstu tíu ár dvalar sinnar. Sú hugmynd ætti enn við. Innflytjendur, sem vildu vinna, væru eftirsóknarverðir, en ekki innflytjendur, sem leituðust aðeins við að komast á bætur. Hann sagðist lítið þekkja til Íslands nútímans, en þeim mun meira til íslenska þjóðveldisins. Hann hefði lesið margar Íslendinga sögur sér til skemmtunar, en eftirlætisverk hans væri Sneglu-Halla þáttur.

Koma Friedmans til Íslands vakti mikla athygli. Hannes H. Gissurarson skrifaði grein í Morgunblaðið um ýmsar hugmyndir hans. Fréttamennirnir Snorri Másson og Baldur Arnarsson tóku við hann viðtöl, og Gísli Freyr Valdórsson helgaði honum hlaðvarpsþátt í Þjóðmálum. Á heimasíðu Davids er að finna margvíslegt forvitnilegt efni um hin fjölmörgu áhugamál hans.

 

Comments Off

Hannes: Margvíslegar hagnýtar lausnir

Dr. Hannesi H. Gissurarsyni, prófessor emeritus, var falið að ræða um hagnýtar lausnir frjálshyggjunnar á ráðstefnu Bandaríska háskólans í Blagoevgrad í Búlgaríu 26. apríl 2024. Í upphafi benti hann á, að frjálshyggja snerist ekki um neitt draumríki, heldur væru hinar góðu afleiðingar af viðskiptafrelsi, valddreifingu og einkaeignarrétti augljósar og áþreifanlegar: Bandaríkin á seinni hluta nítjándu aldar, Hong Kong á seinni hluta tuttugustu aldar og Sviss á okkar dögum.

Fræðimenn hafa talið sum gæði þess eðlis, að þau yrðu ekki verðlögð í frjálsum viðskiptum, svo að ríkið yrði að framleiða þau. Þau væru „samgæði“. Kennslubókardæmi var sú þjónusta, sem vitar veita skipum. En þegar að var gáð, kom í ljós, að þjónusta vita hafði einmitt verið verðlögð sem hluti af þjónustu, sem vitar og hafnir veita í sameiningu. Gjaldið fyrir þjónustu vitanna var innheimt í hafnargjöldum. Hannes vakti síðan athygli á, að ríkið þyrfti ekki sjálft að framleiða ýmis gæði, þótt það gæti kostað þau. Svo væri um skólagöngu. Ríkið gæti sent foreldrum og nemendum ávísanir, sem þeir gætu notað til að greiða fyrir skólagöngu (jafnframt því sem þeir gætu bætt við úr eigin vasa). Þannig gætu skólar verið einkareknir, en notendur þjónustunnar ættu kost á að velja um þá.

Hannes rifjaði upp, að á Íslandi var ríkiseinokun á útvarpsrekstri allt til 1986. Hún var afnumin, eftir að Hannes og félagar hans ráku í mótmælaskyni útvarpsstöð í átta daga í október 1984, uns síminn miðaði hana út og lögreglan lokaði henni. Fyrir það hlaut Hannes sinn fyrsta dóm, eins og hann komst að orði.

Comments Off

Hannes: Pútín fékk röng skilaboð

Á ráðstefnu í laga- og hagfræðideild Háskólans í Skopje í Norður-Makedoníu 25. apríl 2024 var dr. Hannesi H. Gissurarsyni, prófessor emeritus og rannsóknastjóra RNH, falið að ræða um hið frjálsa hagkerfi að lokinni fjölþáttakreppu (polycrisis), en það hugtak er notað um kreppur, sem raða sér saman og hver þáttur styrkir annan, eitt rekur annað, allt tvinnast saman.

Um heimsfaraldurinn 2020–2022 sagði Hannes, að engu yrði um hann breytt úr þessu. En vita þyrfti upptökin til að koma í veg fyrir, að eitthvað svipað gerðist aftur. Kínversk stjórnvöld vildu engar upplýsingar veita, sem benti til þess, að kórónaveiran hefði sloppið út af rannsóknarstofu í Wuhan.

Um Úkraínustríðið sagði Hannes, að Pútín hefði tvisvar fengið röng skilaboð. Hann hefði ráðist átölulaust á Georgíu árið 2008 og Úkraínu árið 2014. Þess vegna hefði hann talið sér óhætt að ráðast aftur á Úkraínu árið 2022.

Um lausafjárkreppuna 2007–2009 sagði Hannes, að aðrar þjóðir mættu læra af Íslendingum, sem hefðu takmarkað skuldbindingar ríkisins, en þess í stað gert innstæður að forgangskröfum í bú banka og þannig róað almenning. Um banka ætti að gilda eins og önnur fyrirtæki, að þeim yrði ekki alltaf bjargað, þegar þeim gengi illa.

Um aðförina að málfrelsi í háskólum og á netmiðlum sagði Hannes, að líklega væri þetta bylgja, sem ætti eftir að hjaðna, svipað og róttæknibylgjan í kringum 1968, sem lítið skildi eftir sig annað en nokkra síðhærða fíkniefnaneytendur.

Comments Off

Hannes: Einkaeignarréttur öllum í hag

Dr. Hannesi H. Gissurarsyni, prófessor emeritus og rannsóknastjóra RNH, var falið að ræða um siðferði markaðsviðskipta í Hagfræði- og viðskiptaháskólanum í Zagreb í Króatíu 24. apríl 2024. Hann kvað auðvelt að mæla fyrir frjálsum viðskiptum. Ef einn á epli, en vantar appelsínu, og annar á appelsínu, en vantar epli, þá skiptast þeir á eplinu og appelsínunni, og báðir græða. Erfiðara virtist hins vegar vera að rökstyðja einkaeignarrétt á gæðum eins og eplum og appelsínum. John Locke hefði haldið því fram, að eignarréttur gæti myndast á gæðum, væri því skilyrði fullnægt, að hagur annarra versnaði ekki. David Hume hefði hins vegar talið nægja til að réttlæta einkaeignarrétt á gæðum, að enginn annar gæti sýnt fram á frekari rétt sinn til þeirra.

Hvernig svo sem réttmætur einkaeignarréttur hefði myndast, væru hin almennu rök fyrir honum tvíþætt, sagði Hannes. Hann stuðlaði í fyrsta lagi að friði, því að garður væri granna sættir. Með því að skipta gæðum jarðar með sér minnkuðu menn líkur á átökum. Í annan stað auðveldaði einkaeignarréttur verðmætasköpun, því að menn færu betur með eigið fé en annarra. Menn ræktuðu eigin garð af meiri natni en annarra, enda greri sjaldnast gras í almennings götu.

Hannes sagði stuðning við frjálst skipulag ýmist hafa verið sóttan í náttúrurétt eða nytsemi, en sjálfur teldi hann breska heimspekinginn Michael Oakeshott hafa sett fram gleggstu rökin fyrir því skipulagi. Þau væru, að í hinum vestræna nútímamanni hefði smám saman orðið til í langri sögu í senn vilji og geta til að velja og hafna. Hann hefði stigið út úr ættbálknum og orðið einstaklingur. Rómeo og Júlía hefði ekki sætt sig við að vera aðeins Montagú og Kapúlett. Frelsið til að velja væri annað eðli nútímamannsins, og þeir, sem því höfnuðu, neituðu að gangast við sjálfum sér

Comments Off

Hannes: Friður í krafti frjálsra viðskipta

Hannes og Peterle, fyrrv. forsætisráðherra Slóveníu.

Dr. Hannesi H. Gissurarsyni, prófessor emeritus og rannsóknastjóra RNH, var falið að ræða um frið á ráðstefnu í kaþólska háskólanum í Ljubljana í Slóveníu 23. apríl 2024.  Á meðal áheyrenda var Lojze Peterle, fyrsti forsætisráðherra Slóvena eftir fall kommúnismans. Hannes benti á, að til eru þrjú ráð til að fá það frá öðrum, sem maður girnist, að biðja um það, greiða fyrir það og taka það. Fyrsta ráðið á aðallega við um fjölskyldu og vini. Þriðja ráðið er að sögn Hannesar ekki vel fallið til friðsamlegra samskipta. Annað ráðið er hins vegar ákjósanlegt í samskiptum ókunnugra, taldi hann. Maður greiðir í frjálsum viðskiptum fyrir það, sem hann þarfnast frá öðrum, og hann selur þeim það, sem þeir þarfnast. Verð er betra en sverð. Hannes rifjaði upp orð eins fríverslunarsinna nítjándu aldar: Ef þú sérð í náunga þínum væntanlegan viðskiptavin, þá minnkar tilhneiging þín til að skjóta á hann.

Enn fremur fór Hannes með fræg ummæli, sem kennd eru ýmsum, þar á meðal (ranglega) Frédéric Bastiat: Ef varningur fær ekki að fara yfir landamæri, þá munu hermenn gera það. Japan á fjórða áratug hefði verið skýrt dæmi. Markaðir hefðu í heimskreppunni lokast fyrir japönskum afurðum, jafnframt því sem erfitt hefði reynst að útvega hráefni til landsins. Þá jókst stuðningur í Japan við að taka það með valdi, sem ekki væri hægt að fá í viðskiptum, og því fór sem fór.

Hannes benti á fordæmi Norðurlandaþjóða í alþjóðamálum. Noregur hefði skilið friðsamlega við Svíþjóð 1905, Finnland við Rússaveldi 1917 og Ísland við Danmörku 1918. Landamæri Danmerkur og Þýskalands hefðu verið færð friðsamlega suður á við 1920 eftir atkvæðagreiðslur í Slésvík. Svíþjóð og Finnland hefðu bæði sætt sig við úrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag um Álandseyjar og Noregur og Danmörk síðar um Grænland. Samstarfið í Norðurlandaráði fæli ekki heldur í sér algert afsal fullveldis eins og virtist vera krafist í Evrópusambandinu.

Comments Off