Tupy: Því fleira fólk, því betra

Sumarið 2022 kom út bókin Superabundance; the Story of Population Growth, Innovation, and Human Flourishing on an Infinitely Bountiful Planet, sem þýða mætti sem Ofurallsnægtir: Sagan um fólksfjölgun, nýsköpun og mannlegan þroska á sígjöfulli reikistjörnu. Er hún eftir þá dr. Marian Tupy, sérfræðing í Cato-stofnuninni í Washington-borg og hagfræðiprófessorinn Gale Pooley. Þar setja þeir fram tvær meginkenningar: 1) Fólksfjölgun þarf ekki að vera áhyggjuefni, því að við frjálst atvinnulíf skapar hver nýr einstaklingur meiri verðmæti en hann neytir. Auðlindir eru síður en svo að ganga til þurrðar. 2) Framfarir hafa orðið miklu meiri og örari en kemur fram í venjulegum mælingum á hagvexti. Miða á við tímaverð gæða, ekki peningaverð þeirra, en með tímaverði eiga höfundar við þann tíma, sem það tekur að vinna fyrir gæðunum.

Fyrri kenninguna staðfestir reynslan. Hrakspár í Endimörkum vaxtarins (The Limits to Growth) og Heimi á helvegi (A Blueprint for Survival), sem báðar komu út á Íslandi árið 1973, hafa ekki ræst. Framleiðsla matvæla hefur vaxið hraðar en fólki hefur fjölgað. Auðlindir hafa ekki heldur gengið til þurrðar, því að hvort tveggja er, að nýjar auðlindir hafa fundist og að hinar gömlu eru nýttar miklu betur en áður. Ef til dæmis er smíðuð ný vél, sem eyðir helmingi minna eldsneyti en hin gamla, sem notuð var í sama tilgangi, þá jafngildir það því, að eldsneytisbirgðir í þessar þarfir hafa tvöfaldast. Seinni kenninguna er auðvelt að skilja. Ef brauðhleifur kostar 200 krónur, en neytandi hans fær 2.000 krónur á tímann, þá er tímaverð hans sex mínútur. En ef hleifurinn hækkar í 220 krónur og tímakaup neytandans í 2.400 krónur, þá hefur tímaverð hans lækkað í fimm mínútur og 24 sekúndur. Eitt besta dæmið um feikilegar framfarir, sem komast ekki alltaf til skila í venjulegum hagmælingum, er verðið á ljósi. Árið 1800 kostaði 5,37 vinnustundir venjulegs verkamanns að kaupa sér ljós í einn klukkutíma. Nú kostar það innan við 0,18 sekúndur.

Marian Tupy kom til Íslands í júlí 2024 og talaði á fjölsóttum fundi í Háskóla Íslands 24. júlí. Að ræðu hans lokinni stjórnaði Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, umræðum, sem voru hinar fjörugustu. Meðal annars var Tupy spurður, hvort orðið hefðu framfarir í siðferðilegum efnum, eins og þeir Pooley héldu fram í bók sinni, þegar höfð væri í huga hin hræðilega saga tuttugustu aldar, útrýmingarbúðar nasista í Auschwitz og þrælkunarbúðir kommúnista í Karaganda. Tupy svaraði því til, að líklega hefði mannsskepnan lítt skánað, en þó yrði að meta illvirki hlutfallslega, taka tillit til fólksfjölgunar. Miklu minna væri um grimmd hlutfallslega en á fyrri öldum.

Daginn fyrir fundinn birti Hannes grein í Morgunblaðinu um boðskap þeirra Tupys og Pooleys:

Comments Off

Ridley: Líklega lak veiran af rannsóknarstofu í Wuhan

Líklega lak kórónuveiran, sem olli heimsfaraldri árin 2020–2021, út af rannsóknarstofu í Wuhan, þótt erfitt sé eða ókleift að sanna það, sagði breski vísindarithöfundurinn dr. Matt Ridley á rabbfundi í Háskóla Íslands 17. júlí 2024, sem RSE, Rannsóknarmiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum stóð að. Hann kvaðst í upphafi hafa talið sennilegast, að veiran hafi stokkið úr dýrum í menn, eins og áður hefur gerst. En engin slík leið hafi fundist, og sífellt fleiri vísbendingar hafi komið fram um leka af rannsóknarstofu þeirri í Wuhan, sem fæst við veirurannsóknir. Vandinn sé hins vegar sá, að kínversk stjórnvöld neiti að veita upplýsingar og reyni að torvelda rannsóknir óháðra aðila á upptökum veirunnar. Ridley er dýrafræðingur að menntun og gaf ásamt sameindalíffræðingnum Alinu Chan út bókina Viral, Veirufaraldurinn, árið 2021, þar sem þau velta fyrir sér upptökum faraldursins. Notaði hann tækifærið í heimsókn sinni á Íslandi til að færa forseta Íslands, dr. Guðna Th. Jóhannessyni, bókina á Bessastöðum.

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, stjórnaði fundinum. Eftir framsögu sína var Ridley spurður, hvað gæti hugsanlega afsannað lekakenninguna. „Dýr, sem hefði smitast, áður en veiran stökk yfir í menn,“ svaraði hann. Ridley kvað 28 milljónir manna á að giska hafa látist af völdum kórónuveirunnar. Jafnframt olli hún ómældum kostnaði og röskun á lífi fólks og stefnu. Vonlegt væri, að kínversk stjórnvöld eða veirufræðingar á þeirra vegum væru treg að axla ábyrgð á slíkum ósköpum. Hitt væri verra, að sumir veirufræðingar á Vesturlöndum hefðu kerfisbundið reynt að leyna vísbendingum um hugsanlegan leka, þótt þeir vissu vel af þeim, eins og komið hefði fram í tölvuskeytum þeirra í milli. Morgunblaðið gat Ridleys lofsamlega í leiðara 20. júlí. Dr. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, birti af því tilefni grein í blaðinu 23. júlí, þar sem hann kvað lekatilgátu Ridleys skemmtilega, en í eðli sínu óvísindalega, þar eð ekki væri unnt að afsanna hana vegna skorts á gögnum. Hannes H. Gissurarson svaraði í Morgunblaðinu 27. júlí, að tilgátan væri einmitt afsannanleg, eins og Ridley hefði bent á. Hefði fundist smitleið úr dýrum í menn, eins og gerst hefði í fyrri faröldrum, hefði það afsannað hana. Skorturinn á gögnum væri raunar enn ein vísbendingin um, að lekakenningin væri líkleg, því að hann væri kínverskum stjórnvöldum að kenna. Þau hegðuðu sér eins og þau hefðu einhverju að leyna.

Hannes skrifaði grein um Ridley og bækur hans í Morgunblaðið 16. júlí:

Ridley er tíður gestur á Íslandi. Hann flutti erindi í Háskóla Íslands árið 2012 um bók sína, The Rational Optimist. Henni var síðan snarað á íslensku, og gaf Almenna bókafélagið hana út árið 2014 undir heitinu Heimur batnandi fer, og kom Ridley til landsins af því tilefni, hélt tölu og sat kvöldverð heima hjá Davíð Oddssyni, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra. Eftir fundinn nú í ár hélt prófessor Hannes H. Gissurarson honum kvöldverð á Grillmarkaðnum, og sátu hann einnig Magnús Sigurðsson, sem veitt hefur með Ridley á Íslandi, Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri AB, þau Einar Sigurðsson og Halla Sigrún Mathiesen, stjórnarmenn í RSE, og Þór Whitehead, prófessor emeritus í sagnfræði í Háskóla Íslands.

 

Comments Off

Hannes: Færum valdið til fólksins

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var í hlaðvarpi Gísla Freys Valdórssonar, Þjóðmálum, 2. júlí 2024 og kom víða við. Hann sagði skjóta skökku við, að ríkið hefði þanist út, eftir að snarminnkað hefði þörf á því, enda hefðu tækniframfarir og aukin velsæld leyst úr mörgum málum. Mjög hefði til dæmis dregið úr fátækt í heiminum, og á Íslandi væri hún hverfandi. Hann kvað litlar áhyggjur þurfa að hafa af fólksfjölgun, því að hver viðbótareinstaklingur gæti skapað meiri verðmæti en hann neytti, fengju menn frelsi til að skapa. Eina skilvirka þróunaraðstoðin væri fólgin í frjálsum viðskiptum, meðal annars fjárfestingum vestrænna fyrirtækja í þróunarlöndum og aðgangi fyrirtækja í þróunarlöndum að mörkuðum á Vesturlöndum. Umhverfisöfgasinnar gerðu sér ekki grein fyrir því, að vernd umhverfisins krefðist verndara, eigenda, sem hefðu hag af því að gæta umhverfisins og bæta það. Hannes taldi eina helstu afleiðingu bankahrunsins á Íslandi árið 2008 hafa verið, að vald hefði færst frá kjörnum fulltrúum almennings til embættismanna og eftirlitsstofnana. Mestu máli skipti þó að dreifa valdinu, færa það til fólksins, einstaklinganna, með meira svigrúmi og lægri sköttum. Hann minnti á, að þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefðu náð miklum árangri í samningum við kröfuhafa þeirra banka, sem féllu í bankahruninu. Þessir kröfuhafar hefðu orðið að skila verulegum hluta af feng sínum.

Comments Off

Danska hagkerfið snýr í frelsisátt

Danski hagfræðingurinn Otto Brøns-Petersen, sem var lengi ráðgjafi danskra mið-hægri-stjórna og aðstoðarráðuneytisstjóri í Skattamálaráðuneytinu, talaði á fundi í Reykjavík 25. júní 2024 um „Efnahagsumbætur í Danmörku“. Hann benti á, að danska hagkerfið hefði náð góðum árangri síðustu áratugi. Árið 2022 var landsframleiðsla á mann hin fimmta mesta í heimi, verðbólga lág og atvinnuleysi lítið, jafnframt því sem hreinar skuldir ríkissjóðs hefðu verið greiddar upp. En árangurinn hefði ekki náðs vegna sósíalisma, heldur þrátt fyrir hann. Danmörk hefði verið vel stætt land, löngu áður en velferðarríkið var stofnað, og sannleikurinn var sá, að stofnun velferðarríkisins hefði haft í för með sér erfiðleika og jafnvægisleysi á mörgum sviðum, sem Danir hefðu þurft að glíma við. Danir byggju við fimmta frjálsasta hagkerfi í heimi samkvæmt frelsisvísitölu Fraser stofnunarinnar í Vancouver í Kanada og hið fimmta frjálsasta á Norðurlöndum, en Ísland er næst þeim á því svæði. Brøns-Petersen lýsti því, hvernig jafnaðarmenn hefðu ráðið mestu á tímabilinu frá því á fjórða áratug og fram á hinn níunda. Hins vegar hefði myndast almennt samkomulag á níunda áratug hjá öllum öðrum en öfgavinstrimönnum um, að Danmörk hefði gengið of langt í átt til sósíalisma. Mið-hægri stjórn Pouls Schlüters hefði framkvæmt margar nauðsynlegar umbætur árið 1982–1992, og önnur mið-hægri stjórn, sem Anders Fogh-Rasmussen veitti forystu, hefði gert hið sama árin 2001–2009. Gengi dönsku krónunnar var fest; fjárlagahalla var eytt; vinnumarkaðurinn varð sveigjanlegri; einkalífeyrisreikningar voru leyfðir; reglur um húsaleigu voru mildaðar; fyrirtæki voru seld; reglur um almannaveitur urðu frjálslegri; frelsi jókst á fjármálamarkaði; og skattahækkanir voru stöðvaðar. Þessar umbætur örvuðu hagvöxt, og jafnaðarmenn hurfu ekki aftur til sinnar gömlu stefnu, þegar þeir náðu völdum. Þrátt fyrir þetta biðu mörg verkefni í framtíðinni, einkum vegna hárra skatta og aukinnar miðstýringar á ýmsum sviðum fyrir áhrif Evrópusambandsins.

Glærur Brøns-Petersen í Reykjavík

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, stjórnaði fundinum, og voru fjörugar umræður á eftir erindi Brøns-Petersens. Hannes og Brøns-Petersen eru báðir félagar í Mont Pelerin samtökunum, hinu alþjóðlega málfundafélagi frjálslyndra fræðimanna, sem Friedrich A. von Hayek stofnaði í Sviss í apríl 1947. Hannes birti grein fyrir fundinn um Danmörku sem frjálst land, sem hinn þjóðlegi frelsissinni Nikolaj F. S. Grundtvig hefði mótað, en Grundtvig var aðdáandi og þýðandi íslenska sagnritarans Snorra Sturlusonar.

Fundurinn með Brøns-Petersen fylgdi á eftir ársfundi RSE, Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál. Þar var Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri fasteignafélags, kjörinn formaður, en aðrir í stjórn eru Halla Sigrún Mathiesen, sérfræðingur í banka, Einar Sigurðsson fjárfestir, dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, og Ragnar Árnason, prófessor emeritus í fiskihagfræði í Háskóla Íslands.


Comments Off

Aðalfundur AB 2024

Frá v.: Karítas Kvaran, Rósa Guðbjartsdóttir, Þórdís Edwald, Kjartan Gunnarsson, Jónas Sigurgeirsson, Hannes H. Gissurarson, Baldur Guðlaugsson og Ármann Þorvaldsson.

Almenna bókafélagið, AB, hélt aðalfund sinn árið 2024 hinn 4. maí. AB var stofnað 17. júní 1955 til mótvægis við hin miklu áhrif kommúnista í íslensku menningarlífi, en þeir ráku öflugt bókafélag, Mál og menningu, með drjúgum stuðningi alræðisstjórnarinnar í Moskvu. Nú er AB þó frekar venjulegt útgáfufyrirtæki en bókaklúbbur. Framkvæmdastjóri AB, Jónas Sigurgeirsson, flutti skyrslu um starfsemina árið 2023 að viðstöddum öðrum hluthöfum, Ármanni Þorvaldssyni, Baldri Guðlaugssyni og Kjartani Gunnarssyni. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var einnig viðstaddur.

Þetta ár var lögð áhersla á útgáfu barnabóka og efnis fyrir ferðamenn. Nokkur síðustu ár hefur AB hins vegar gefið út ritröð um bankahrunið 2008 og eftirmál þess eftir reynda blaðamenn og sagnfræðinga: Icesave-samningarnir: Afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson; Andersen-skjölin eftir Eggert Skúlason; Búsáhaldabyltingin: Sjálfsprottin eða skipulögð? eftir Stefán Gunnar Sveinsson; Gjaldeyriseftirlitið: Vald án eftirlits? eftir Björn Jón Bragason; Afnám haftanna: Samningar aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson.  AB hefur einnig gefið út þrjár skáldsögur Ayns Rands á íslensku, Kíru Argúnovu, Uppsprettuna og Undirstöðuna. Enn fremur annast AB dreifingu á prentuðum eintökum af bókum Hannesar H. Gissurarsonar á ensku, sem hugveitan New Direction í Brüssel gefur út, þar á meðal Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers í tveimur bindum.

Comments Off

David Friedman: Jákvæðar og neikvæðar loftslagsbreytingar

Eðlisfræðingurinn og hagfræðingurinn David D. Friedman sótti rabbfund á vegum RSE, Rannsóknamiðstöðvar í efnahagsmálum og stjórnmálum, í Sjálfstæðishúsinu gamla miðvikudaginn 1. maí 2024 klukkan fjögur. Húsfyllir var á fundinum, sem Halldór Benjamín Þorgeirsson, stjórnarformaður RSE, setti. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus, stjórnaði fundinum. Hann rifjaði upp, að fyrir fjörutíu og fimm árum hefði Friedman verið fyrsti fyrirlesari Félags frjálshyggjumanna, sem starfaði í tíu ár, 1979–1989. Væru jafnvel nokkrir nú staddir á þessum fundi, sem hefði verið á fundinum forðum. Var umræðuefnið þá lagasetning og réttarvarsla í íslenska Þjóðveldinu 930–1262.

Í stuttri framsöguræðu fór Friedman yfir nokkrar breytingar á þessum fjörutíu og fimm árum. Bæri hæst, að enginn tryði lengur á miðstýrðan áætlunarbúskap, enda hefði hann aðallega verið fólginn í skilningsskorti á nauðsynlegri dreifstýringu í atvinnulífinu. Nú hefði umhverfisöfgastefna tekið við af sósíalisma í gömlu merkingunni og jafnvel breyst í ný trúarbrögð. Friedman vék að hlýnun jarðar. Hann kvað ljóst, að eitthvað hefði hlýnað á síðustu áratugum og líklega væri eitthvað af þeirri hlýnun af manna völdum, vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloft, sérstaklega koltvísýrings. En alls væri óvíst, að þessi hlýnun hefði meiri neikvæðar afleiðingar en jákvæðar. Neikvæðu afleiðingarnar væru hækkun sjávarmáls og röskun á högum þeirra, sem gert hefðu áætlanir um líf sitt með hliðsjón af núverandi loftslagi. Jafnfram gætu einhver dýr eða plöntur, sem hefðu lagað sig að núverandi loftslagi, lent í í erfiðleikum. Jákvæðu afleiðingarnar væru hins vegar stóraukið gróðurlendi. Það hlýnaði jafnframt meira í köldum löndum en heitum og meira á vetrum en sumrum.

Friedman svaraði mörgum fyrirspurnum um ýmis efni. Hann sagðist vera hlynntur afskiptaleysisstefnu Bandaríkjanna í utanríkismálum, en þó ekki alveg strax. Evrópuríkin yrðu að koma sér upp eigin vörnum, en ekki treysta á, að bandarískir skattgreiðendur kostuðu varnir Evrópu. Þau ættu að hafa í fullu tré við Rússaveldi, ef þau beittu sér. Hann rifjaði upp, að í bók sinni Frelsinu í framkvæmd (The Machinery of Freedom), sem kom fyrst út 1971, hefði hann mælt fyrir frjálsum innflutningi fólks, en með því skilyrði, að það gæti ekki þegið opinberar bætur fyrstu tíu ár dvalar sinnar. Sú hugmynd ætti enn við. Innflytjendur, sem vildu vinna, væru eftirsóknarverðir, en ekki innflytjendur, sem leituðust aðeins við að komast á bætur. Hann sagðist lítið þekkja til Íslands nútímans, en þeim mun meira til íslenska þjóðveldisins. Hann hefði lesið margar Íslendinga sögur sér til skemmtunar, en eftirlætisverk hans væri Sneglu-Halla þáttur.

Koma Friedmans til Íslands vakti mikla athygli. Hannes H. Gissurarson kynnti hugmyndir hans í grein í Morgunblaðinu 30. apríl 2024.

Þeir Snorri Másson og Gísli Freyr Valdórsson ræddu við Friedman í hlaðvörpum sínum, og Baldur Arnarsson tók viðtal við hann í Morgunblaðinu:

 

Á heimasíðu Davids er að finna margvíslegt forvitnilegt efni um hin fjölmörgu áhugamál hans.

Comments Off