Sumarið 2022 kom út bókin Superabundance; the Story of Population Growth, Innovation, and Human Flourishing on an Infinitely Bountiful Planet, sem þýða mætti sem Ofurallsnægtir: Sagan um fólksfjölgun, nýsköpun og mannlegan þroska á sígjöfulli reikistjörnu. Er hún eftir þá dr. Marian Tupy, sérfræðing í Cato-stofnuninni í Washington-borg og hagfræðiprófessorinn Gale Pooley. Þar setja þeir fram tvær meginkenningar: 1) Fólksfjölgun þarf ekki að vera áhyggjuefni, því að við frjálst atvinnulíf skapar hver nýr einstaklingur meiri verðmæti en hann neytir. Auðlindir eru síður en svo að ganga til þurrðar. 2) Framfarir hafa orðið miklu meiri og örari en kemur fram í venjulegum mælingum á hagvexti. Miða á við tímaverð gæða, ekki peningaverð þeirra, en með tímaverði eiga höfundar við þann tíma, sem það tekur að vinna fyrir gæðunum.
Fyrri kenninguna staðfestir reynslan. Hrakspár í Endimörkum vaxtarins (The Limits to Growth) og Heimi á helvegi (A Blueprint for Survival), sem báðar komu út á Íslandi árið 1973, hafa ekki ræst. Framleiðsla matvæla hefur vaxið hraðar en fólki hefur fjölgað. Auðlindir hafa ekki heldur gengið til þurrðar, því að hvort tveggja er, að nýjar auðlindir hafa fundist og að hinar gömlu eru nýttar miklu betur en áður. Ef til dæmis er smíðuð ný vél, sem eyðir helmingi minna eldsneyti en hin gamla, sem notuð var í sama tilgangi, þá jafngildir það því, að eldsneytisbirgðir í þessar þarfir hafa tvöfaldast. Seinni kenninguna er auðvelt að skilja. Ef brauðhleifur kostar 200 krónur, en neytandi hans fær 2.000 krónur á tímann, þá er tímaverð hans sex mínútur. En ef hleifurinn hækkar í 220 krónur og tímakaup neytandans í 2.400 krónur, þá hefur tímaverð hans lækkað í fimm mínútur og 24 sekúndur. Eitt besta dæmið um feikilegar framfarir, sem komast ekki alltaf til skila í venjulegum hagmælingum, er verðið á ljósi. Árið 1800 kostaði 5,37 vinnustundir venjulegs verkamanns að kaupa sér ljós í einn klukkutíma. Nú kostar það innan við 0,18 sekúndur.
Marian Tupy kom til Íslands í júlí 2024 og talaði á fjölsóttum fundi í Háskóla Íslands 24. júlí. Að ræðu hans lokinni stjórnaði Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, umræðum, sem voru hinar fjörugustu. Meðal annars var Tupy spurður, hvort orðið hefðu framfarir í siðferðilegum efnum, eins og þeir Pooley héldu fram í bók sinni, þegar höfð væri í huga hin hræðilega saga tuttugustu aldar, útrýmingarbúðar nasista í Auschwitz og þrælkunarbúðir kommúnista í Karaganda. Tupy svaraði því til, að líklega hefði mannsskepnan lítt skánað, en þó yrði að meta illvirki hlutfallslega, taka tillit til fólksfjölgunar. Miklu minna væri um grimmd hlutfallslega en á fyrri öldum.
Daginn fyrir fundinn birti Hannes grein í Morgunblaðinu um boðskap þeirra Tupys og Pooleys: