Hannes gagnrýnir Piketty í París

Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, fetaði í fótspor þjóðsagnahetjunnar Sæmundar fróða í Svartaskóla, Sorbonne, í París, nema hvað þar flutti Hannes fyrirlestur 19. apríl 2023, en var ekki aðeins að afla fróðleiks eins og Sæmundur forðum. Fyrirlestur Hannesar hafði meðal annars að geyma gagnrýni á kenningar franska hagfræðingsins Tómasar Pikettys, átrúnaðargoðs vinstri manna. Piketty hefur ekki áhyggjur af fátækt, heldur velmegun. Sumir séu orðnir allt of ríkir, og ná þurfi auðnum af þeim með háum alþjóðlegum sköttum.

Í Svartaskóla benti Hannes á, að í heiminum sem heild hefði tekjudreifing orðið jafnari síðustu áratugi, þótt líklega hefði hún orðið nokkru ójafnari á Vesturlöndum. Í suðrænum löndum hefur fátækt snarminnkað og hundruð milljóna stikað á sjömílnaskóm í bjargálnir. Í útreikningum sínum leiðrétti Piketty ekki fyrir skekkjum, sem hljótast af fasteignabólum (ofmati á eignum efnafólks) og lækkun skatta á háar tekjur (svo að þær koma skýrar og beinna fram), og tæki lítið sem ekkert tillit til jöfnunaráhrifa skatta (vanmæti kaupmátt tekjulægsta hópsins). Piketty lokaði líka augunum fyrir því gagni, sem auðmenn gera án þess að ætla sér það: Þeir verða mótvægi við opinberu valdi, lækka tilraunakostnað nýjunga, sem breytast úr munaðarvöru í almenningseign, og leggja fé í fjárfestingar.

Áhyggjur Pikettys af því, að auðurinn hafi orðið fastur við fámennan hóp, er enn fremur tilefnislaus að sögn Hannesar. Á listum, sem birtast reglulega um ríkasta fólkið, sést mikil breyting. Áður fyrr hafði meiri hlutinn erft auðæfi sín. Nú hefur meiri hlutinn skapað þau sjálfur. Raunar er sú skáldsaga frá öndverðri nítjándu öld, sem Piketty vitnar oftast í, Faðir Goriot eftir Balzac, einmitt lýsing á því, hversu fallvaltur auðurinn er.

Comments Off

Hannes um frumkvöðla í Lundúnum

Frá v.: dr. Barbara Kolm, dr. Dan Mitchell og Hannes.

Í málstofu í Lundúnum 18. apríl var Hannesi H. Gissurarsyni, rannsóknastjóra RNH, falið að ræða um hlutverk frumkvöðla á frjálsum markaði. Þegar Karl Marx skipti á nítjándu öld fólki í tvær stéttir, borgara og öreiga, horfði hann fram hjá þeim, sem lifa af að selja þekkingu sína, kunnáttu og hugvit frekar en hrátt vöðvaafl, svo sem rafvirkjum, tölvunarfræðingum, læknum og verkfræðingum. Atvinnulífið er ekki ein stór verksmiðja, heldur iðandi kös ótal ólíkra fyrirtækja og einstaklinga, sem skiptast á vöru og þjónustu, þegar þeir sjá sér hag í því. Marx horfði líka fram hjá þeim, sem knýja áfram hagkerfið með því að fitja upp á á nýjungum, frumkvöðlum, áhættufjárfestum og framkvæmdamönnum.

Flestir viðurkenna, að nýsköpun sé nauðsynleg, sagði Hannes. En spurningin er, hvort hún sé líklegri við einn opinberan nýsköpunarsjóð með tíu manna stjórn, sem ákveði, í hverju skuli festa fé, eða við tíu þúsund eða fleiri aflögufæra áhættufjárfesta. Sjóðurinn gerir í mesta lagi nokkrar tilraunir á ári, en tíu þúsund áhættufjárfestar gera væntanlega að minnsta kosti tíu þúsund tilraunir. Enn fremur er hæfileikinn til að sannfæra meiri hlutann í sjóðstjórn um verkefni, til dæmis með áferðarfallegum glærum og myndugum málflutningi, ekki nauðsynlega hæfileikinn til að reka fyrirtæki með hagnaði til langs tíma. Ályktunin hlýtur að vera, að nýsköpun sé líklegust í skipulagi einkaeignar, viðskiptafrelsis og valddreifingar, markaðskerfi.

Frumkvöðlar eru að sögn Hannesar sjaldnast reknir áfram af ágirndinni einni saman, heldur miklu miklu fremur af sköpunargleði, forvitni, nýjungagirni og metnaði. Og um leið og þeir hagnast sjálfir, gera þeir öðrum gagn. Þetta sést best á kjörum fátæklinga í ólíkum hagkerfum. Ef löndum heims er skipt í fernt eftir því, hversu víðtækt atvinnufrelsi er, þá eru meðaltekjur 10% tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðungnum hærri en meðaltekjur í heild í ófrjálsasta fjórðungnum samkvæmt mælingum Fraser-stofnunarinnar í Vancouver.

Comments Off

Hannes um hamingjuna í Bristol

Hið forna heiti borgarinnar Bristol í Englandi var Brycgstow, sem merkir Brúarstæði. Hún kemur nokkuð við sögu Íslendinga á fimmtándu öld, þegar Englendingar, ekki síst frá Bristol, stunduðu fiskveiðar og verslun við Íslandsstrendur. Árið 1484 voru 48 Íslendingar skráðir í borginni, og nokkrir kaupmenn þar versluðu jöfnum höndum við Ísland og Portúgal. Þessi fjöruga verslun lagðist niður við dönsku einokunina. Á ráðstefnu í Bristol 17. apríl var Hannesi H. Gissurarsyni, rannsóknarstjóra RNH, falið að segja nokkur orð um, hvernig jarðarbúar gætu leitað hamingjunnar, friðsældar og hagsældar. Hann kvað lítið um svör, þegar stórt væri spurt, en benti á, að eðlilegra væri að reyna að minnka óhamingjuna frekar en auka hamingjuna, ekki síst af því að menn vissu betur, hvað óhamingja væri: fátækt, ofbeldi, stríðsrekstur og sjúkdómar.

Hannes gerði í þessu sambandi lauslegan samanburð á úrræðum vinstri manna og hægri manna. Vinstri menn vilja gera fátæktina léttbærari með því að hjálpa fátæklingum. Hægri menn vilja gera fátæktina sjaldgæfari með því að fækka fátæklingum, og það má gera með því að fjölga með auknu atvinnufrelsi tækifærum til að brjótast úr fátækt í bjargálnir.

Vinstri menn vilja minnka ofbeldi með því að hlusta skilningsríkir á ofbeldisseggina tala, aðallega um misjafna æsku þeirra. Hægri menn vilja halda ofbeldisseggjum í skefjum með harðskeyttri lögreglu og ströngum refsingum.

Vinstri menn vilja banna stríðsrekstur með yfirlýsingum og sáttmálum. Hægri menn telja slík skjöl lítils virði, ef engir eru bakhjarlarnir. Orðagaldur breytir ekki úlfum í lömb. Óvopnaðir samningamenn fá litlu áorkað.

Vinstri menn vilja ráðast á sjúkdóma með því að reka stórar og dýrar heilbrigðisstofnanir. Hægri menn telja einsýnt, að besta heilsubótin felist í góðum lífskjörum. Hagvöxturinn bægði burt fornum fjendum Íslendinga, myrkrinu, kuldanum og rakanum, sagði Hannes, og nú brugga öflug einkafyrirtæki sífellt ný og betri lyf og smíða ný og betri tæki til að lækna margvísleg mein.

Comments Off

Hannes um ESB í Porto

Næststærsta borg Portúgals, sem Fjölnismenn kölluðu Hafnarland, er Porto, Höfn. Hér var Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, beðinn að segja nokkur orð á ráðstefnu 15. apríl um æskilegustu þróun Evrópusambandsins. Hann kvað stofnun þess hafa verið af hinu góða. Frakkar og Þjóðverjar smíðuðu plóga úr sverðum og eins auðvelt varð að fara yfir landamæri og fyrir 1914, þegar ekki þurfti vegabréf til að komast leiðar sinnar um Norðurálfuna, nema ferðinni væri heitið til afturhaldsríkjanna, Tyrkjaveldis soldánsins eða Rússaveldis keisarans. En síðustu áratugi hefði Evrópusambandið smám saman verið að breytast úr ríkjasambandi (confederation) í sambandsríki (federation), sagði Hannes. Aðildarríkin væru að færa sífellt meira vald í hendur umboðslausra skriffinna í blekiðjubákninu í Brüssel. Þessari þróun þyrfti að snúa við. Færa þyrfti fullveldið, yfirráð eigin mála, aftur frá Brüssel til einstakra ríkja.

Hannes rifjaði upp, að helsti postuli Evrópusambandshugsjónarinnar, ítalski hagfræðingurinn og frjálshyggjumaðurinn Luigi Einaudi, forseti Ítalíu 1948–1955, hefði haldið því fram, að Þjóðabandalagið hefði misheppnast, því að það hefði ekki haft neitt framkvæmdarvald og engan her. En Atlantshafsbandalagið gegndi með prýði því hlutverki að verja Evrópu að sögn Hannesar. Hann benti hins vegar á fordæmi um eðlilegt samstarf ríkja. Norðurlönd hefðu viðurkennt rétt til aðskilnaðar, þegar Norðmenn sögðu skilið við Svía 1905, Finnar við Rússa 1917 og Íslendingar við Dani 1918. Landamæri hefðu verið færð til milli Danmerkur og Þýskalands eftir atkvæðagreiðslur í umdeildum landamærahéruðum 1920. Sérstökum hópum hefði verið tryggð sjálfstjórn, Álandseyingum í Finnlandi og Færeyingum í Danaveldi. Og Norðurlandaráð hefði verið vettvangur samráðs og menningarsamvinnu, jafnframt því sem vegabréfa væri ekki lengur krafist milli norrænu ríkjanna og vinnumarkaður væri sameiginlegur, án þess þó að fullveldi einstakra ríkja hefði verið skert að ráði. Ekki mætti heldur gleyma því, að Norðurlönd voru í vel heppnuðu myntbandalagi frá 1873 til 1914.

Comments Off

Hannes um Evrópuhugsjónina í Split

Á ráðstefnu evrópskra íhaldsflokka í Split í Króatíu 31. mars og 1. apríl flutti Hannes H. Gissurarson, rannsóknarstjóri RNH, fyrirlestur um frjálslynda íhaldsstefnu í Evrópu. Þar velti hann því fyrir sér, hvenær Evrópa hefði orðið til í sögulegum skilningi. Það hefði aðallega gerst í tveimur áföngum, kvað hann: árið 732, þegar Karl Martel hratt árás Serkja við Tours í Suður-Frakklandi, og árið 1683, þegar Jóhann Sobieski, konungur Póllands, hratt árás Tyrkja við Vínarborg. En munurinn á Evrópu og Rómaveldi er ekki aðeins, að Rómaveldi var ekki evrópskt, heldur Miðjarðarhafsveldi, heldur líka sá, að Evrópa einkennist af fjölbreytni, mörgum ólíkum ríkjum og svæðum, hvert með sinn sið. Edward Gibbon lýsti því eftirminnilega í Rómverjasögu sinni, að í Rómaveldi hefði hvergi verið til sá staður, sem hrammur keisarans hefði ekki náð til, en að í Evrópu síns tíma hefðu verið til ótal undankomuleiðir fyrir andófsmenn og minnihlutahópa.

Frjálslynd íhaldsstefna verður best skilin sem sjálfsvitund Evrópu, sagði Hannes, hinn evrópski andi, þegar hann hefur komist að því, hver hann er, og fyllst stolti yfir sjálfum sér. Uppistöðurnar væru einkaeignarréttur, viðskiptafrelsi, valddreifing og virðing fyrir arfleifð kynslóðanna. Oft væri frjálslynd íhaldsstefna rakin til Breta, og vissulega hefðu þeir John Locke, David Hume, Adam Smith og Edmund Burke eflt hana að rökum. En Hannes benti á, að margir aðrir evrópskir hugsuðir hefðu líka lagt talsvert til hennar, til dæmis Ítalirnir heilagur Tómas af Akvínas og hagfræðingurinn Luigi Einaudi. Einnig nefndi Hannes þrjá djúpsæja norræna rithöfunda. Snorri Sturluson hefði stutt þá kenningu, að konungar ríktu með samþykki þegnanna og væru bundnir af lögunum. Anders Chydenius hefði haldið því fram (á undan Adam Smith), að viðskiptafrelsi væri öllum í hag. Nikolaj F. S. Grundtvig hefði minnt á mikilvægi sjálfsprottinnar samvinnu í frjálsu þjóðskipulagi.

Comments Off

Fundur um Landsdómsmálið

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands hélt fund 16. janúar 2023 um bók rannsóknarstjóra RNH, Hannesar H. Gissurarsonar, Landsdómsmálið, sem komið hafði út í árslok 2022. Hafði Hannes framsögu, en Ögmundur Jónasson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, veitti andsvör.

Geir H. Haarde var sakfelldur fyrir að hafa ekki sett yfirvofandi bankahrun árið 2008 á dagskrá ráðherrafunda þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar um, að halda skyldi ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Horfði meiri hluti landsdóms fram hjá ýmsum dæmum um, að mikilvæg stjórnarmálefni hefðu ekki verið lögð fyrir ráðherrafundi, auk þess sem allir ráðherrar í ríkisstjórn Geirs H. Haarde báru, að vandi bankanna hefði oft verið ræddur á ráðherrafundum, án þess að um það hefði verið bókað. Var Geir ekki látinn njóta vafans um þetta ákvæði.

Ögmundur bætti við dæmi um, að mikilvægt stjórnarmálefni hefði ekki verið rætt á ráðherrafundi. Það var samþykki vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við hernaðaríhlutun Atlantshafsbandalagsins í Líbíu árið 2011.

Ögmundur sagði líka, að til tals hefði komið meðal alþingismanna að skipuleggja „áfallateymi“, sem viðbúin yrðu, þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu kæmi út vorið 2010. Sýnir sú furðulega hugmynd sefasýkina, sem hafði gripið um sig í landinu og flestir vilja nú gleyma. Rannsóknarnefndin leitaði í sextán mánuði með fjölda starfsmanna og ótakmarkaðar rannsóknarheimildir að glæpum ráðamanna í tengslum við bankahrunið. Hún fann þá enga og brá þá á það ráð að saka þrjá ráðherra og fjóra embættismenn um vanrækslu í skilningi laganna um sjálfa nefndina, sem höfðu auðvitað verið sett eftir bankahrun. Þannig beitti hún lögum afturvirkt og braut með því eitt lögmál réttarríkisins.

Comments Off