Hannes um styttur og önnur minnismerki

Málverkið af Bjarna Benediktssyni er fyrir aftan Reagan.

Fara ætti eftir sáraeinfaldri reglu um það, hvaða styttur, brjóstmyndir og önnur minnismerki ætti að fjarlægja af almannafæri, sagði rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson í viðtali við Bylgjuna 22. ágúst 2017. Reglan væri sú, að einstaklingarnir á minnismerkjunum hefðu gerst sekir um glæpi gegn mannkyni, gegn friðnum eða gegn mannréttindum, eins og slíkir glæpir voru skilgreindir í Nürnberg-réttarhöldunum yfir leiðtogum nasista. Farið var eftir þessari reglu í Þýskalandi eftir seinni heimsstyrjöld: Hvergi væru þar á almannafæri styttur eða önnur merki um Hitler, Göring eða Göbbels. Hins vegar ættu menn enn á hættu að rekast sums staðar í Austur-Evrópu á styttur, brjóstmyndir eða málverk af Lenín, Stalín og böðlum þeirra og jafnvel á götunöfn tengd þeim. Hannes rifjaði upp, að hann tæki þátt í starfsemi Evrópuvettvangs minningar og samvisku, sem berst fyrir því, að styttur og önnur minnismerki um hina blóði drifnu kúgara í kommúnistaríkjunum fyrrverandi væru fjarlægðar.

Hannes sagðist ekki sjá sömu þörf á því að fjarlægja styttur á almannafæri af herforingjum Suðurríkjanna í bandaríska borgarastríðinu, til dæmis Robert Lee. Stríðið hefði ekki verið um þrælahaldið eitt, sem vitaskuld væri óafsakanlegt, heldur líka um viðskiptafrelsi og aðskilnaðarrétt. Við verðum að lifa við sögu okkar, jafnvel þótt við neitum að veita ódæðismönnum eins og Hitler og Stalín sömu viðurkenningu og öðrum valdamönnum, sagði Hannes. Hann rifjaði upp, að vinstri menn, sem komust til valda í Reykjavík 1994, flýttu sér að fjarlægja málverk af Bjarna Benediktssyni í Höfða, þótt það hefði orðið heimsfrægt, þegar það var baksvið fundar Reagans og Gorbatsjovs  í Höfða. Sú ákvörðun var röng, taldi Hannes. Hitt væri undarlegt, að við innganginn í Hátíðasal Háskólans gæti að líta brjóstmynd af Brynjólfi Bjarnasyni, fyrsta og eina formanni kommúnistaflokks Íslands 1930–1938 og harðskeyttum stalínista. Viðtalið við Hannes var þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamgtaka íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments are closed.