Hannes: Fimm ákvarðanir breyttu kreppu í hrun

Icesave-samningunum mótmælt á Bessastöðum. Ljósm. Ómar Óskarsson, Mbl.

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið er fróðleg, en skýrir ekki að fullu bankahrunið. Skýring nefndarinnar er, að bankarnir hafi vaxið of hratt og orðið of stórir. En það er nauðsynlegt skilyrði fyrir hruni þeirra og ekki nægilegt, sagði Hannes H. Gissurarson prófessor á hádegisfyrirlestri Sagnfræðingafélagsins 17. október 2017. Hann kvað fimm ákvarðanir erlendis hafa ráðið úrslitum um, að fyrirsjáanleg kreppa á Íslandi varð að hruni: Erlendir vogunarsjóðir hafi ráðist á veikasta dýrið í hjörðinni; evrópskir seðlabankar hafi stöðvað alla lausafjárfyrirgreiðslu við Ísland vegna gremju yfir íslensku bönkunum; Bandaríkjamenn hafi litið svo á, að Ísland væri ekki lengur á áhrifasvæði þeirra; Breska Verkamannaflokksstjórnin hafi bjargað öllum breskum bönkum nema þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, og með því fellt Kaupþing á Íslandi; Breska Verkamannaflokksstjórnin hafi sett hryðjuverkalög á Ísland.

Gordon Brown fyrir aftan skosku og bresku fánana. Ljósm. Murdo Macleod, Guardian.

Hannes rakti í fyrirlestri sínum samskipti Íslendinga, Breta og Bandaríkjanna í aldanna rás. Ísland hefði verið hernaðarlega mikilvægt, eins og Lenín hefði einna fyrstur bent á 1920, eftir að ný tækni kom til sögu, kafbátar og flugvélar. Þess vegna hefðu Bandaríkjamenn gerst bakhjarl Íslands 1941–2006. Bretar hefðu aldrei haft áhuga á að leggja Ísland undir sig, en viljað hafa eitthvað um það að segja, hverjir réðu landinu. Upp úr 2007 hefði flokkur þjóðernissinna í Skotlandi tekið að ógna hinu forna vígi Verkamannaflokksins. Hann hefði talað um „velmegunarboga“, sem lægi frá Írlandi um Ísland til Noregs og viljað, að Skotland kæmist undir þennan boga. Gordon Brown og Alistair Darling hefðu talið ógn stafa af skoskum þjóðernissinnum. Þeir hefðu því gripið fegins hendi tækifæri til að sýna hætturnar af sjálfstæði.

Hannes kvað gögn, sem hann hefði aflað, sýna, að fullkominn óþarfi hefði verið að beita hryðjuverkalögunum á Íslendinga. Birtir hann þau gögn í væntanlegri skýrslu sinni til fjármálaráðuneytisins um bankahrunið. Hann varpaði fram þeirri spurningu, hvar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði verið, þegar Bretar mismunuðu breskum bönkum eftir þjóðerni með því að loka þeim, sem voru í eigu Íslendinga (Heritable og KSF), og bjarga öllum öðrum breskum bönkum. Hann sagði það raunar lán í óláni, að Íslandi skyldi ekki hafa verið bjargað. Með neyðarlögunum hefðu Íslendingar rutt brautina fyrir nýju fyrirkomulag bankamála í Evrópu, enda hefði Evrópusambandið nýlega tekið upp forgang innstæðueigenda. Þó hefði verið gott, hefðu Íslendingar sloppið við þá heift og angist, sem fylgdu bankahruninu. Fjörugar umræður urðu að fyrirlestrinum loknum, og tóku meðal annarra þátt í þeim Björn Bjarnason, fyrrv. dómsmálaráðherra, Ragnar Árnason prófessor, Ragnar Önundarson, fyrrv. bankastjóri, og Tómas Ingi Olrich, fyrrv. menntamálaráðherra og sendiherra. Fyrirlesturinn var tekinn upp og er aðgengilegur á vef Sagnfræðingafélagsins. Þeir Björn Bjarnason og Sigurður Már Jónsson, blaðafulltrúi forsætisráðuneytisins, blogguðu um hann, og Morgunblaðið birti um hann frásögn 19. október. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu.

Glærur Hannesar 17. október 2017

Comments are closed.