Grafir án krossa

Í baksýn eru veggspjöld um dapurlegt hlutskipti sígauna í seinna stríði.

Á ársþingi Evrópuvettvangs um minningu og samvisku, sem RNH á aðild að, í Vilnius í Litáen 28.–30. nóvember 2017 var eitt aðalumræðuefnið fjöldamorð á sígaunum, öðru nafni Róma-fólki, í stríðinu, en þar gengu nasistar harðast fram. Evrópuvettvangurinn var stofnaður 2011 til að fylgja eftir samþykktum Evrópuráðsins og Evrópuþingsins um að fordæma alræði kommúnista ekki síður en nasista og halda minningu fórnarlamba þeirra á lofti. Forseti vettvangsins var frá upphafi Göran Lindblad, sem hafði beitt sér í Evrópuráðinu fyrir slíkri samþykkt, á meðan hann var þingmaður Hófsama sameiningarflokksins sænska. Á þinginu í Vilnius var prófessor Lukacz Kaminski frá Póllandi kjörinn forseti vettvangsins. Í fulltrúaráði vettvangsins sitja meðal annarra prófessor Stéphane Courtois, ritstjóri Svartbókar kommúnismans, sem kom út á íslensku 2009, og Anne Applebaum, dálkahöfundur í Washington Post og höfundur bóka um þrælabúðir Stalíns og kúgunina austan járntjalds. Þingið var haldið í Tuskulenai-safninu í friðargarðinum í Vilnius, en þar er fjöldagröf rúmlega sjö hundruð manna, sem kommúnistar tóku af lífi næstu þrjú árin, eftir að ráðstjórnin rússneska hertók landið 1944. Lagði Lindblad, fráfarandi forseti vettvangsins, blómsveig á minnisvarða þeirra þar í garðinum. Rannsóknarsetur Litáens um fjöldamorð og andspyrnu sá um skipulagningu þingsins, en þar fengu fern samtök eða stofnanir aðild að vettvangnum, þar á meðal Collège des Bernardines í París.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, sótti þingið og gerði þar grein fyrir ýmsum verkefnum, sem RNH sinnir ásamt ACRE, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, undir nafninu „Evrópa fórnarlambanna“. Meðal annars hefur Hannes verið fenginn til þess að skrifa skýrslu á ensku um „Raddir fórnarlambanna“, The Voices of the Victims, og er hún væntanleg í árslok 2017. Þar leiðir hann rök að því, að stalínisminn hafi verið rökrétt framhald af marxisma frekar en frávik frá honum og að verjendur stalínismans á Vesturlöndum hafi verið að einhverju marki siðferðilega samábyrgir böðlunum í Kremlkastala. Hann fer þar stuttlega yfir bókmenntir tuttugustu aldar um alræðisstefnuna, þar á meðal skáldsögur Georges Orwells og Arthurs Koestlers, Nítján hundruð áttatíu og fjögur og Myrkur um miðjan dag, og frásagnir flóttamanna og fyrrverandi fanga, til dæmis Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjensko, Úr álögum eftir Jan Valtin, Konur í einræðisklóm eftir Margarete Buber-Neumann, Bóndann eftir Valentín González, Nytsaman sakleysingja eftir Otto Larsen, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell. Einnig ræðir hann um niðurstöður þeirra sagnfræðinga, sem reyna að hafa hið sannara um alræðisríki kommúnista, meðal annarra Robert Conquest, Stéphane CourtoisAnne Applebaum, Bent Jensen og Frank Dikötter.

Fundarmenn á ársþingi Evrópuvettvangsins.

Comments are closed.