Trump er hættulegur frelsinu

Dr. Palmer rabbar við fundargesti.

Donald Trump er óútreiknanlegur dólgur, sem grefur undan venjum og stofnunum Bandaríkjanna, sagði dr. Tom Palmer, rannsóknarfélagi í Cato stofnuninni og forstöðumaður alþjóðadeildar Atlas Network, á rabbfundi Frjálshyggjufélagsins þriðjudagskvöldið 23. janúar 2018. Palmer kvað erfitt að skýra kjör hans. Líklega hefði það verið eins konar „svartur svanur“, frávik eða slys, þegar margt hefði lagst á eitt um óvænta niðurstöðu. Þau Trump og Hillary Clinton hefðu hvor tveggja verið afleitir kostir. Palmer kvað Trump beita yfirgangi og reyna að hræða menn til hlýðni. Lýðveldissinnar (repúblikanar) væru smeykir við hann vegna kjörfylgis hans, en Lýðræðissinnar (demókratar) hefðu á honum óbeit. Hugsanlega yrði honum vikið frá á kjörtímabilinu (impeachment), en Palmer taldi þó minni líkur á því en meiri. Hann sagði eina skýringuna á fylgi Trumps, að bandarísk orðræða hefði breyst til hins verra á síðustu árum. Nú væri ekki rætt um, hvaða reglum þyrfti að fylgja til að auðvelda gagnkvæma aðlögun ólíkra einstaklinga, heldur væri skírskotað til hópa og andúðar þeirra á öðrum hópum. Hvítt verkafólk fylgdi margt Trump, því að það teldi á sig hallað í orðræðunni, og bæru vinstri menn því nokkra ábyrgð á Trump, þótt sjálfir mótmæltu þeir því harðlega. Ein hættan af Trump væri, að forsetaembættið væri mjög valdamikið, þótt það ætti sér nokkurt mótvægi í dómsvaldi og löggjafarvaldi. Fjörugar umræður urðu að ræðu Palmers lokinni, og sóttu rösklega fjörutíu manns fundinn, sem haldinn var í Petersen-svítunni í Gamla bíói.

Comments are closed.