Þrír aðallærdómarnir fyrir aðrar þjóðir af íslenska bankahruninu 2008 eru, að hagkerfi þarf ekki að hrynja, þótt bankakerfi falli, að skynsamlegt er að veita innstæðueigendum forgangskröfur í bú banka og að þá má afnema ríkisábyrgð á innstæðum. Þetta sagði rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, í erindi á málstofu um peninga og bankamál á ársmóti APEE, Association of Private Enterprise Education, Samtaka um einkaframtaksfræðslu, í Las Vegas 1.–5. apríl 2018. Hann bætti við, að aðrir lærdómar af bankahruninu væru, að geðþóttavald yrði alltaf misnotað, eins og Bretar hefðu gert með setningu hryðjuverkalaga gegn Íslendingum, að smáþjóðir ættu enga vini, þegar á hólminn væri komið, og að miklu máli skipti að veita röggsamlega forystu, eins og Seðlabankinn hefði gert fyrir og í bankahruninu, þegar hann beitti sér fyrir því að reisa varnargarð um Ísland (ring-fencing).
Á meðal fyrirlesara á þinginu, voru prófessor Barry Weingast, sem reifaði skýringar á því, hvers vegna sumar þjóðir væru fátækar (en Adam Smith ræddi það mál í þriðju bók Auðlegðar þjóðanna); skýringarnar væru í fæstum orðum, að afætur hrifsuðu arðinn af auðskapendum. Prófessor Randall Holcombe spurði, hvort valdastéttir á Vesturlöndum hefðu breytt kerfi frjálsrar samkeppni í eins konar ríkiskapítalisma (political capitalism). Prófessor Alan Charles Kors gagnrýndi kröfuna um pólitískan rétttrúnað í háskólum, sem gengi þvert gegn sannfæringu upplýsingarmanna um hugsanafrelsi. Prófessor Larry White bar saman þrjár tegundir gjaldmiðla, gullfót, pappírsfót og rafmynt, og taldi gullfót hafa reynst best. Rafmyntir væru ekki einfaldar í framleiðslu.Prófessor Michael Munger velti fyrir sér, hvort markaðskapítalismi gæti verið sjálfbær eða stöðugur, en myndi ekki þróast vegna starfsemi sérhagsmunahópa í klíkukapítalisma; það færi eftir því, hvort eðlilegur hagvöxtur yrði meiri en ávinningurinn fyrir sérhagsmunahópa af því að seilast til ríkisvaldsins.
Í nokkrum málstofum var rætt um stjórnmálahugmyndir James M. Buchanans, föður almannavalsfræðinnar (public choice theory) og Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði 1986, ekki síst í tilefni árásar á hann í nýútkominni bók eftir Nancy Maclean, Lýðræði í fjötrum (Democracy in Chains). Í einni málstofunni stóð Hannes H. Gissurarson upp og mælti nokkur orð um Buchanan, sem kom til Íslands 1982 og Hannes hitti einnig margoft á þingum Mont Pelerin samtakanna og málstofum Liberty Fund. Hannes sagði, að í huga Buchanans hefði „hinn hagsýni maður“ (homo economicus) verið vinnutilgáta, en ekki raunsönn lýsing á manneðlinu. Buchanan hefði einmitt gagnrýnt suma Chicago-hagfræðingana fyrir að trúa því, að menn kepptu ætíð að eigin hag. Hins vegar yrði að gera ráð fyrir slíkri eiginhagsmunagæslu í stjórnmálum jafnt og viðskiptum, svipað og skipasmiðir yrðu að gera ráð fyrir vondu veðri, þótt það væri oftast gott. Hannes kvað Buchanan hafa í samtölum við sig gert skarplegar athugasemdir um kvótakerfið íslenska: Einhverjir yrðu að hafa hag af því að afgirða almenninga (enclose commons), og breytingin yrði að vera Pareto-hagkvæm í þeim skilningi, að enginn tapaði á henni. Úthlutun framseljanlegra aflakvóta fullnægði þessum skilyrðum ólíkt auðlindaskatti eða sölu eða leigu veiðileyfa.
Í Las Vegas notaði Hannes H. Gissurarson tækifærið og hélt fund með fræðimönnum frá Brasilíu til að leggja á ráðin um þing Mont Pelerin samtakanna, sem fyrirhugað er að halda í São Paulo haustið 2020. Á ársmótinu var prófessor Andrew Young kjörinn forseti APEE í stað Gabriels Calzada og dr. Jerry Jordan, fyrrv. aðalbankastjóri Seðlabankans í Cleveland, varaforseti. Prófessor Edward Stringham (sem flutti nýlega fyrirlestur á svæðisþingi Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta á Íslandi) verður áfram ritstjóri Journal of Private Enterprise, sem samtökin gefa út, og prófessor J. R. Clark gjaldkeri. Þátttaka Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Næsta ársmót APEE verður á Sælueyju, Paradise Island, nálægt Nassau á Bahama eyjum 5.–8. apríl 2019.