Hannes kynnir Norrænu leiðirnar í Kaupmannahöfn

Velgengni Norðurlandaþjóðanna er þrátt fyrir endurdreifingartilraunir jafnaðarmanna, ekki vegna þeirra, sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, á evrópska frelsismótinu (European Liberty Forum) í Comwell Conference Center í Kaupmannahöfn 30. maí 2018. Þar kynnti hann rit sitt, Norrænu leiðirnar (The Nordic Models), sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í árslok 2016. Hann lýsir hinni sterku frjálshyggjuhefð Svía, en sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius birti rit um það, hvernig eins gróði þarf ekki að vera annars tap og hvernig atvinnulífið getur verið skipulegt án þess að vera skipulagt, nokkrum árum á undan útkomu Auðlegðar þjóðanna eftir Adam Smith. Frjálshyggjumaðurinn Johan August Gripenstedt forsætisráðherra beitti sér á nítjándu öld fyrir umfangsmiklum umbótum í frjálsræðisátt. Á tuttugustu öld héldu kunnir hagfræðingar uppi merki atvinnufrelsis, Eli Heckscher, Gustav Cassel og Bertil Ohlin. Frjálshyggja var líka öflug í Noregi og Danmörku, eins og norska Eiðsvallastjórnarskráin 1814 bar órækt vitni um. Á Íslandi mæltu Jón Sigurðsson, leiðtogi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni, Arnljótur Ólafsson, höfundur fyrsta hagfræðiritsins, og Jón Þorláksson forsætisráðherra fyrir atvinnufrelsi.

Hannes sagði þó ekki rétt að gera of mikið úr velgengni Norðurlandaþjóðanna. Eðlilegt væri að bera saman lífskjör á Norðurlöndunum fimm og í norðlægum ríkjum Bandaríkjanna og fylkjum Kanada, til dæmis Manitoba, Minnesota og Norður- og Suður-Dakota. Í ljós kæmi, að landsframleiðsla á mann í „norrænum ríkjum“ Vesturheims væri talsvert meiri en í norrænum ríkjum Evrópu.

Hannes kvað Íslendinga auðvitað ekki hafa lagt margt til heimsmenningarinnar, enda hefðu þeir löngum verið fáir og fátækir. Þó mætti nefna þrennt: Þjóðveldið 930–1262 hefði verið merkilegt skipulag laga án ríkisvalds, þar sem réttarvarsla hefði verið í höndum einstaklinga. Kvótakerfið í sjávarútvegi væri í senn sjálfbært og arðbært. Íslendingar hefðu líka í bankahruninu fundið leið, sem aðrar þjóðir væru nú að feta: að gera innstæður í bönkum að forgangskröfum, en með því væri hægt að fella niður ríkisábyrgð á innstæðum, semi hefði leitt ófáa bankamenn í freistni.

Rit Hannesar um Norrænu leiðirnar er nú aðgengilegt á Netinu.

Glærur Hannesar í Kaupmannahöfn 29. maí 2018

Comments are closed.