Þing Mont Pèlerin samtakanna á Stóru hundaeyju

Prófessor Pedro Schwartz frá Spáni flytur ræðu um lýðræði.

Tveir Íslendingar sóttu aðalfund Mont Pèlerin samtakanna á Stóru hundaeyju (Gran Canarias) dagana 30. september til 5. október, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, og Gísli Hauksson fjárfestir, formaður stjórnar RNH. Mont Pèlerin samtökin voru stofnuð í Sviss 1947 til að gera frjálslyndum fræðimönnum og öðrum áhugamönnum um frelsið kleift að bera reglulega saman bækur sínar í heimi, sem þá virtist sífellt þrengja meira að frelsinu. Á meðal stofnenda voru hagfræðingarnir Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman, George Stigler og Maurice Allais, sem allir áttu eftir að fá Nóbelsverðlaun í hagfræði, og heimspekingarnir Karl R. Popper og Bertrand de Jouvenel. Margir fyrirlesaranna á þinginu að þessu sinni hafa komið til Íslands og haldið fyrirlestra á vegum RNH, þar á meðal Philip Booth, Eamonn Butler, Nils Karlson og Matt Ridley. Sá prófessor Gabriel Calzada Álvarez í Fransisco Marroquin-háskóla í Guatamala um að skipuleggja ráðstefnuna, og fórst honum það vel úr hendi.

John Taylor, forseti samtakanna 2018–2020.

Margt var á dagskrá, þar á meðal þróunarkenningin í félagsvísindum, hagvöxtur í fátækum löndum, fjármálakerfi heimsins eftir fjármálakreppuna 2007–2009, samkeppni um íbúa milli svæða, menningarlegar forsendur frjálsra ríkja, framtíð borga, starfsemi frumkvöðla, hagsveiflur, Netið og óvinir þess, samskipti Hayeks og landa hans og kennara, Ludwigs von Mises, réttmæti (eða óréttmæti) ríkisvalds, einkalausnir í framleiðslu samgæða, aðskilnaðarhreyfingar og sjálfstæði ríkja, stjórnmálabarátta frjálshyggjufólks og tengsl Salamanca-skólans í hagfræði og skosku upplýsingarmannanna. Var meðal annars rifjuð upp saga af stofnþinginu, þegar Mises gekk út af einni málstofunni og sagði, um leið og hann skellti á eftir sér: „Þið eruð ein stór sósíalistahjörð!“ Hafði einn fundarmanna, Frank H. Knight, ljáð máls á 100% erfðaskatti. Eitt kvöldið á þinginu spjölluðu þeir Matt Ridley og frumkvöðullinn og fjárfestirinn Peter Thiel saman um ástand og horfur í heimsmálum. Mont Pèlerin samtökin eru ekkert leynifélag, en ekki er þó ætlast til þess, að þátttakendur skýri opinberlega frá því, sem aðrir á þinginu segja, svo að umræður geti verið hreinskilnislegar.

Hannes H. Gissurarson sat í stjórn samtakanna 1998–2004 og skipulagði svæðisþing þeirra í Reykjavík 2005. Hann talaði tvisvar á þinginu. Í annað skiptið var það á morgunverðarfundi um frjálshyggju í Rómönsku Ameríku. Kvað hann þá skoðun algenga, að ríki Rómönsku Ameríku yrðu að fara „norrænu leiðina“, sem fæli í sér víðtæk ríkisafskipti, háa skatta og rausnarleg velferðarréttindi. Þetta væri misskilningur. Norðurlönd byggju ekki við velmegun og öryggi vegna endurdreifingar skatta, heldur þrátt fyrir hana. Skýringin á velgengni þeirra lægi í réttaröryggi, frjálsum alþjóðaviðskiptum og ríkri samkennd, sem ætti sér rót í rótgrónum siðvenjum og samleitni. Hannes vitnaði í skýrslu sína fyrir New Direction um Norrænu leiðirnar máli sínu til stuðnings.

Daniel Hannan flytur ræðu á þinginu.

Í hitt skiptið talaði Hannes í umræðum um aðskilnaðarhreyfingar og sjálfstæði ríkja. Tók hann undir það með framsögumönnum, Jesus Huerta de Soto frá Spáni og Daniel Hannan frá Stóra Bretlandi, að til væri frjálslynd þjóðernisstefna. Hefðu margir stjórnmálamenn á nítjándu öld fylgt slíkri stefnu og mörg þjóðríki verið stofnuð, til dæmis á Norðurlöndum. En þjóðerniskennd þyrfti að vera sjálfsprottin, eins og Ernest Renan hefði lýst, þegar hann sagði, að þjóð yrði til í daglegri atkvæðagreiðslu einstaklinganna. Og til þess að menn elskuðu land sitt, þyrfti það að vera elskulegt. Aðskilnaður Noregs og Svíþjóðar 1905, Íslands og Danmerkur 1918 og Eystrasaltsríkjanna og Rússland, eftir að Ráðstjórnarríkin liðu undir lok, hefði verið æskilegur. Hannes varpaði fram þeirri spurningu, hvort fyrirkomulagið á Álandseyjum og í Suður-Týrol gæti ekki orðið fyrirmynd að einhvers konar málamiðlun í deilu Skota og Englendinga og Katalóníumanna og Spánverja. Í upphafi hefðu íbúar þessara svæða alls ekki viljað vera borgarar í Finnlandi annars vegar og á Ítalíu hins vegar, en nú væri allt fallið í ljúfa löð, því að þeir hefðu forræði eigin mála.

Á þinginu á Stóru hundaeyju var John Taylor, hagfræðiprófessor í Stanford-háskóla og einn kunnasti peningamálasérfræðingur heims (en við hann er Taylor-reglan fyrir seðlabanka kennd), kjörinn forseti samtakanna til næstu tveggja ára. Íslendingarnir tveir fóru eitt kvöldið á veitingahús með öðrum Norðurlandabúum, sem þingið sóttu, og skröfuðu saman um norræna frjálshyggju.

Norðurlandabúarnir saman þriðjudagskvöldið 2. október 2018 á veitingastaðnum Gaudi. Frá v. dr. Hannes H. Gissurarson, dr. Nils Karlson, dr. Carl-Johan Westholm, Gísli Hauksson, Lars-Peder Nordbakken og Håkan Gergils.

Comments are closed.