Hannes: Fullveldið varð að verja

Í mannþrönginni við Stjórnarráðshúsið 1. desember 1918 voru þeir Tómas Guðmundsson, Davíð Stefánsson og Guðmundur G. Hagalín. Þeir snerust allir gegn hættunni af kommúnismanum, kröfunni um Sovét-Ísland.

Ísland varð fullvalda ríki 1. desember 1918. Á hundrað ára afmæli fullveldisins birti dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, ritgerð í Morgunblaðinu um fullveldið. Taldi hann Ísland hafa verið ríki í skilningi Hegels, sem vettvangur málamiðlana og einingarafl, frá stofnun Alþingis 930, en í skilningi Webers, sem stofnun með einokun á beitingu valds á afmörkuðu svæði, frá 1. desember 1918. Íslenska ríkinu hefði verið ógnað fyrstu áratugina af flokki byltingarmanna, sem notið hefðu stuðnings erlends alræðisríkis: Kommúnistar hefðu unnið leynt og ljóst að því að stofna Sovét-Ísland og haft meira fylgi en víða annars staðar, 19,5% í kosningunum 1946 og 1949. Nokkrir rithöfundar hefðu risið upp gegn ofríki þeirra í menningarlífinu og haldið frægar ræður gegn kommúnisma, þeir Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmundur G. Hagalín, Sigurður Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Gæfi Almenna bókafélagið þessar ræður nú út á bók í tilefni fullveldisins.

Þrátt fyrir baráttu kommúnista hefði Ísland notið verndar og fulltingis Bandaríkjanna allt frá 1941, og það hefði gert því kleift að stækka með því að færa út fiskveiðilögsöguna. Bandarísku öldinni í sögu Íslands hefði hins vegar lokið 2006, þegar herstöðin á Miðnesheiði var lögð niður, og eftir það væru Íslendingar vinasnauðir, eins og komið hefði í ljós í bankahruninu 2008. Íslenskir ráðamenn virtust líka hafa misst sjálfstraustið, eins og sést hefði á undanlátssemi þeirra við útlendinga í Icesave-deilunni. Hannes gat sér til um það, að ein ástæðan væri, hversu lítil skil sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar væru gerð í kennslubókum og yfirlitsritum. Að minnsta kosti tvær kynslóðir hefðu alist upp við ramman áróður gegn hinni djúprættu þjóðernisvitund Íslendinga, sem hefði einmitt fundið sér farveg í fullveldinu 1918. Ritgerð Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og frjálsan markað“.

Ritgerð Hannesar í Morgunblaðinu

Comments are closed.