Fyrirlestrar og ráðstefnur á næstunni

Margt er á döfinni hjá RNH næstu mánuði. Í árslok 2018 komu út tvær skýrslur, sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, tók saman fyrir hugveituna New Direction í Brüssel. Önnur heitir Why Conservatives Should Support the Free Market og hin Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists. Verða þær kynntar nánar á næstunni. Hannes flytur fyrirlestur um lausn Íslendinga á ofnýtingarvandanum í fiskveiðum á alþjóðlegri ráðstefnu í Gdansk í Póllandi 22. mars. Hann heldur einnig erindi á málstofu um frjálshyggju í Evrópu á alþjóðlegri ráðstefnu APEE á Paradise Island á Bahama-eyjum 6. apríl. Í maí fer Hannes í fyrirlestraferð um Evrópu til að kynna skýrslu sína um kenningar Rawls og Pikettys. Hann flytur erindi í tengslum við „Free Market Road Show“ í Þessaloniki 6. maí, Aþenu 7. maí, Lundúnum 9. maí og Stokkhólmi 10. maí.

Ragnar Árnason

Í árslok 2018 kom einnig út bókin Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Höfundar eru Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmundur G. Hagalín, Sigurður Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Af því tilefni rökræða þeir dr. Stefan Snævarr, heimspekiprófessor í Noregi, og Hannes H. Gissurarson alræðishugtakið á málstofu í stofu 101 í Odda í Háskóla Íslands 17. maí kl. 16–18. Fundarstjóri verður dr. Ólafur Þ. Harðarson prófessor. Þá tekur RNH þátt í alþjóðlegri ráðstefnu til heiðurs Ragnari Árnasyni prófessor sjötugum í hátíðasal Háskóla Íslands 14. júní kl. 16–18. Þar tala nokkrir fremstu fiskihagfræðingar heims, prófessorarnir Gordon Munro, Trond Bjorndal, James Wilen og Rögnvaldur Hannesson. Dr. Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs, fer nokkrum orðum um afmælisbarnið. Að ráðstefnunni lokinni verður móttaka í Litlu-Hámu á vegum félagsvísindasviðs. Almenna bókafélagið mun einnig gefa út greinasafn eftir Ragnar í tilefni sjötugsafmælis hans.

RNH mun einnig í samstarfi við Almenna bókafélagið minnast 70 ára afmælis Atlantshafsbandalagsins 4. apríl 2019 með endurútgáfu tveggja bóka úr Kalda stríðinu. Önnur er Guðinn sem brást eftir sex kunna menntamenn, Arthur Koestler, Ignazio Silone, Richard Wright, André Gide, Louis Fischer og Stephen Spender. Hin er Framtíð smáþjóðanna: Erindi á Norðurlöndum 1946–1948 eftir norska skáldið Arnulf Øverland, en koma hans til Íslands vorið 1948 hafði mikil áhrif, og ári síðar ákvað Ísland að fylgja Noregi og Danmörku inn í varnarbandalag vestrænna þjóða, eins og Øverland hafði hvatt til. Þá mun RNH styðja ráðstefnu Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta, sem fyrirhugað er að halda á Íslandi 6. september, og verður breski Evrópuþingmaðurinn Daniel Hannan á meðal fyrirlesara.

Comments are closed.