Norræna leiðin er frjálshyggja

Þegar talað er um Norðurlönd, dettur mörgum í hug jafnaðarstefna, enda voru jafnaðarmenn við stjórnvölinn áratugum saman á tuttugustu öld í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. En sterk frjálshyggjuhefð er á Norðurlöndum, sagði dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor í erindi, sem hann flutti 6. apríl 2019 á ráðstefnu Samtaka um framtaksfræðslu, Association of Private Enterprise Education, APEE, á Sældarey, Paradise Island, á Bahama-eyjum. Hannes benti á, að sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius hafði sett fram kenningu um sátt eiginhagsmuna og almannahags á undan Adam Smith og að sænski stjórnmálamaðurinn Johan August Gripenstedt hafði um og eftir miðja nítjándu öld markað fyrstu sænsku leiðina, sem fólst í atvinnufrelsi og einkaframtaki. Á meðan henni var fylgt, urðu stórstígar framfarir í Svíþjóð: Hagvöxtur var þar einn hinn örasti í heimi árin 1870–1936. Önnur sænska leiðin var reynd árin 1970–1990, víðtæk endurdreifing og háir skattar, en reyndist ófær, og hafa Svíar horfið frá henni og fara nú þriðju sænsku leiðina. Þeir hafa lækkað skatta og aukið svigrúm til einkareksturs, þótt þeir hafi ekki horfið frá viðamiklu velferðarkerfi.

Hannes benti á, að Jón Sigurðsson, leiðtogi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni, aðhylltist frjálshyggju, eins og fram kemur í fjölmörgum greinum hans í Nýjum félagsritum. Höfundar tveggja fyrstu ritanna um hagfræði á íslensku, þeir Arnljótur Ólafsson og Jón Þorláksson, var líka eindregnir frjálshyggjumenn. Hannes rakti efnahagsumbæturnar á Íslandi 1991–2004, þegar ríkisfyrirtæki voru seld, skattar lækkaðir og lífeyrissjóðir efldir, jafnframt því sem hagkerfið var opnað með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu. Taldi hann eitt merkið um, hversu vel til hefði tekist, að Íslendingar hefðu verið tiltölulega fljótir að rétta úr kútnum eftir bankahrunið 2008.

Glærur Hannesar á Sældarey

Comments are closed.