Hámörkun auðs ekki tilgangurinn

Á málstofu Frelsissjóðsins bandaríska, Liberty Fund, í Pétursbæ (Petrópolis) í Brasilíu um hámörkun auðs og lagahugtakið sagði Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, að frjálst hagkerfi væri stefnulaust, en ekki tilgangslaust. Það hefði ekki þann tilgang að hámarka eitt né neitt, heldur að koma í kring gagnkvæmri aðlögun einstaklinga í keppni þeirra að markmiðum, sem oft rækjust á. Bandaríski dómarinn og réttarheimspekingurinn Richard Posner hefði hins vegar leitt rök að þeirri hugmynd, að dómarar ættu að stefna að hámörkun auðs (wealth maximisation) í úrskurðum sínum. Taldi Hannes þessa hugmynd oft eiga rétt á sér, en ekki alltaf. Rifjaði hann upp hinn fræga dóm Salomóns konungs, þegar portkonurnar tvær gerðu tilkall til sama barnsins. Þegar Salomón hefði látið færa sér sverð til að höggva barnið í tvo jafna hluta, sinn handa hvorri konu, hefði hann ekki verið að stunda nein helmingaskipti, heldur verið að prófa, hvorri konunni barnið væri meira virði. Þetta væri dæmi um hámörkun auðs. Hefði hins vegar verið vitað, hvor konan ætti barnið, hefði henni auðvitað verið dæmt það. Dómarinn ætti því fyrst að spyrja um réttindi manna og kröfur, en að því frágengnu leitast við að hámarka auð, flytja verðmæti í arðbærustu notkun þeirra.

Talsvert var rætt á málstofunni um slys og verðmat mannslífa. Hannes benti í því sambandi á, að ótrúleg verðmæti færu í súginn í hinni ströngu öryggisgæslu nú á dögum á flugvöllum, þar sem farþegar væru látnir bíða í röðum í hálftíma eða lengur, átta milljónir manna á hverjum degi. Væri hægt að meta mannslíf til fjár, þá borgaði sig hugsanlega að minnka stórlega slíka gæslu, þótt það hefði í för með sér, að einhver mannslíf týndust í hryðjuverkaárásum. Í umræðum um endurdreifingu fjármuna vísaði Hannes þeirri algengu hugmynd á bug, að einn Bandaríkjadalur væri hinum fátæka meira virði en hinum ríka, svo að heildaránægjan í heiminum myndi aukast við tilfærslu dalsins frá hinum ríka til hins fátæka. Hann kvað hinn ríka oft vera ríkan einmitt vegna þess, að einn dalur væri honum meira virði en öðrum. Sumir auðmenn væru með hugann við ný fyrirtæki og þyrfti allt sitt til að hrinda þeim í framkvæmd. Fjörugar umræður urðu um ýmis önnur efni á málstofunni, sem fór fram á portúgölsku undir stjórn prófessors Eduardos Mayora frá Guatemala dagana 11.–14. apríl 2019.

Þátttakendur á málstofu Frelsissjóðsins. Ljósm. Daniela Becker.

Comments are closed.