Hannes: Norræn leið smáþjóða

Frá fundinum í Lundúnum 9. maí.

Samruni í efnahagsmálum auðveldar smáríkjamyndun, sagði dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, í fjórum fyrirlestrum, sem hann flutti í „Frjálsum markaði á ferð“, Free Market Road Show, í maí. Fyrsti fyrirlesturinn var í Þessaloniki 6. maí, annar í Aþenu 7. maí, hinn þriðji í Lundúnum 9. maí og hinn fjórði í Stokkhólmi 10. maí. Á meðal annarra fyrirlesara á fundunum voru dr. Richard Rahn, fyrrverandi aðalhagfræðingur bandaríska verslunarráðsins, og bandaríski heimspekiprófessorinn Andrew Bernstein. Austurríska hagfræðistofnunin, Austrian Economics Center, undir forystu dr. Barböru Kolm skipulagði ferðina.

Hannes rifjaði upp skýringu Adams Smiths á velmegun. Hún væri vegna verkaskiptingar á frjálsum markaði, en hún yrði því víðtækari og hagkvæmari sem markaðurinn væri stærri. Ástæðan til þess, að smáríki gætu þrátt fyrir það þrifist og dafnað, væri sú, sagði Hannes, að þau hefðu aðgang að stórum alþjóðlegum mörkuðum og gætu þannig nýtt sér kosti verkaskiptingarinnar. Sjálfstæð ríki hefðu verið 76 talsins árið 1946, þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar, en nú ættu 193 ríki aðild að þeim, en auk þeirra mætti telja Páfagarð og Taívan sjálfstæð. Hannes benti á, að þjóðir margra smáríkja væru líka samleitar, svo að kostnaður af réttarvörslu yrðu ekki eins mikill á mann og í stórum og sundurleitum ríkjum. Smáríki væru almennt ekki heldur herská, svo að útgjöld til hermála væru þar tiltölulega lág.

Hannes vék sérstaklega að Norðurlöndum í þessu sambandi. Hann kvað velgengni þeirra ekki vera vegna jafnaðarstefnu, heldur þrátt fyrir hana. Helstu ástæður til hennar væru, að réttarríkið væri öflugt á Norðurlöndum, þjóðir þeirra stunduðu frjáls viðskipti og væru í þriðja lagi samleitar, sem stuðlaði að sjálfsprottinni samábyrgð og samhug og lækkaði þannig kostnað af rekstri ríkisins. Hannes minnti á, að sterk frjálshyggjuhefð væri á Norðurlöndum, til dæmis í Svíþjóð. Sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius hafði sett fram á undan Adam Smith kenningu um sátt einkahags og almannahags við frjálsa samkeppni, og á nítjándu öld hefðu frjálslyndir stjórnmálamenn aukið stórkostlega atvinnufrelsi í Svíþjóð með þeim afleiðingum, að hagvöxtur hefði verið þar örari en í nokkru öðru landi árin 1870–1936.

Að sögn Hannesar gæti Evrópusambandið þróast í ýmsar áttir á næstunni. Það hefði upphaflega verið vettvangur fyrir sátt Frakka og Þjóðverja, sem væri auðvitað lofsverð. Spurningin væri nú hins vegar sú, hvort ESB þróaðist yfir í opinn markað eða lokað ríki, hvort það yrði ríkjasamband eða sambandsríki. Nú væri þjóðríkishugmyndin víða að eflast. Þjóðernisjafnaðarstefnan hefði reynst hræðilega, en ef til vill fengi þjóðernisfrjálshyggja staðist. En ríkið mætti ekki verða fangelsi, heldur heimili.

Comments are closed.