Stórfróðleg ráðstefna um fiskihagfræði

Rektor setur ráðstefnuna. Ljósm: Árni Sæberg.

Fjórir heimsþekktir fiskihagfræðingar töluðu á alþjóðlegri ráðstefnu Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, RNH og annarra aðila til heiðurs Ragnari Árnasyni 14. júní 2019 um „Úthafsveiðar heims: Í áttina að sjálfbæru og arðbæru kerfi“. Þeir voru prófessorarnir Trond Bjorndal, Rögnvaldur Hannesson, Gordon Munro og James Wilen. Dr. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti ráðstefnuna og rifjaði upp, að prófessorsembætti í fiskihagfræði við Háskóla Íslands var stofnað 1989, en Ragnar, sem nú lætur af störfum fyrir aldurs sakir, var fyrsti og eini prófessorinn í greininni. Jón Atli lét í ljós þá von, að Háskólinn mætti áfram njóta starfskrafta Ragnars.

Bjorndal ræddi um bláuggatúnfisk í Norður-Atlantshafi og Miðjarðarhafi, en hann er verðmætasti fiskur í heimi. Hann er uppsjávarfiskur af makrílætt, sem fer víða um. Svo margir aðilar koma því að ákvörðunum um veiðar, að litlar takmarkanir hafa í reynd verið á aðgangi að honum, en það hefur valdið hættu á ofveiði. Afli minnkaði talsvert um skeið, en hefur verið að aukast aftur vegna skynsamlegrar fiskveiðistjórnunar og varlegra ákvarðana um leyfilegan hámarksafla.

Frá v.: Birgir Þór, Bjorndal, Munro, Wilen, Rögnvaldur og Grainger. Ljósm.: Árni Sæberg

Rögnvaldur talaði um, þegar síldarstofninn hvarf næstum því á Norður-Atlantshafi seint á sjöunda áratug. Mátti litlu muna, að stofninn lifði ekki af, en hann hefur smám saman verið að styrkjast síðan. Þetta sýnir, sagði Rögnvaldur, hversu þrautseig og þolgóð náttúran er, en leiða megi stærðfræðileg rök að því, að fremur ólíklegt hefði verið, að stofninn styrktist. Þetta hefði verið slembilukka.

Munro fór orðum um framseljanlega aflakvóta og aðrar aðferðir við fiskveiðistjórnun. Enginn vafi væri á því, að framseljanlegir aflakvótar hefðu reynst vel. En því fleiri sem handhafar slíkra kvóta væru, því erfiðara væri að gera hagkvæma samninga um notkun þeirra. Skilvirkt samstarf kvótahafa væri hins vegar nauðsynlegt. Leikjafræði mætti nota til að greina möguleika og takmarkanir slíks samstarfs, og þar þyrfti fiskihagfræðin að hasla sér völl.

Gísli Hauksson, Jónas Sigurgeirsson og Hannes H. Gissurarson í móttökunni.

Wilen velti fyrir sér strandveiðum um víða veröld. Þær væru venjulega stundaðar með handfærum á litlum bátum, nálægt ströndum og næðu til margra stofna. Þótt framseljanlegir aflakvótar væru hagkvæmir í úthafsveiðum, þar sem stofnar væru fáir, gætu aðrar aðferðir hentað betur í handfæraveiðum, til dæmis staðbundin veiðiréttindi (einkaeignarréttur yfir afmörkuðum fiskimiðum) eða hópbundin (eignarréttur tiltekins hóps yfir fiskimiðum). Vafalaust myndu tekjur fiskimanna aukast verulega, ef slík réttindi væru skilgreind, en það væri þó ekki vandalaust, sérstaklega ekki í fátækum löndum með losaralegt stjórnarfar.

Í lokaorðunum á ráðstefnunni benti Ragnar á, að flestir fiskistofnar heims hefðu verið ofnýttir, þegar hann fór að gefa fiskihagfræði gaum um og eftir 1980. Þetta hefði sem betur fer breyst. Nú væri nýting fiskistofna víða hagkvæm. Að einhverju leyti væri það að þakka brautryðjendum í fiskihagfræði eins og fyrirlesurunum fjórum á þessari ráðstefnu, Bjorndal, Hannesson, Munro og Wilen. Að ráðstefnunni lokinni var móttaka í Háskólanum, þar sem dr. Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs, og Trond Bjorndal mæltu nokkur orð til Ragnars og létu skála fyrir honum. Þrátt fyrir blíðviðri og sumarleyfi var aðsókin að ráðstefnunni góð og umræður fjörugar, en prófessor Corbett Grainger var umsegjandi að fyrirlestrunum fjórum loknum. Dr. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent stjórnaði ráðstefnunni.

Um kvöldið höfðu þau Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og kona hans, Ágústa Johnson, boð inni fyrir Ragnar Árnason, konu hans, Önnu Agnarsdóttur, fyrirlesara og nokkra fleiri gesti. Í skálaræðu sinni fyrir Ragnari lagði Guðlaugur Þór áherslu á, hversu mikilvægar fiskveiðar væru Íslendingum, enda hefði Halldór Laxness lagt einni söguhetju sinni í munn hin fleygu orð: „Lífið er saltfiskur.“ Þátttaka RNH í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni við ACRE um „Blágrænan kapítalisma fyrir Evrópu“. Í Viðskiptablaðinu birti Óðinn grein um Ragnar 13. júní 2019, og Morgunblaðið tók viðtöl við fyrirlesarana fjóra.

Frá v.: Kristján Loftsson, James Wilen, Anna Agnarsdóttir, Ragnar Árnason og Ágústa Johnson.

Comments are closed.