Hannes í Madrid: Samstarf íhaldsmanna og frjálshyggjumanna

Nokkrir ræðumenn á þinginu.

Evrópska hugveitan New Direction hélt 20.–22. september 2023 fjölmennt þing í Madrid, þar sem hægri menn báru saman bækur sínar og sóttu hinn árlega kvöldverð í minningu Margrétar Thatchers. Ræðumaður var Robin Harris, sem var ræðuskrifari Thatchers og ævisöguritari.

Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, mælti á þessari ráðstefnu með samstarfi frjálshyggjumanna og íhaldsmanna. Hann leiddi rök að því, að til væri frjálslynd íhaldsstefna, sem sameinaði óvéfengjanleg rök frjálshyggjumanna fyrir viðskiptafrelsi, einkaeignarrétti og valddreifingu og sterka tilfinningu íhaldsmanna fyrir því, að menn yrðu að eiga einhvers staðar heima, vera hluti af stærri heild, öðlast samkennd.

Einn íhaldsmaðurinn á ráðstefnunni minntist á samnýtingarbölið (tragedy of commons), þegar ótakmarkaður aðgangur að takmarkaðri auðlind veldur ofnýtingu hennar. Hannes svaraði því til, að hagfræðingar hefðu bent á sjálfsprottna samvinnu til að takmarka slíkan aðgang og útrýma bölinu. Íslenska kvótakerfið væri gott dæmi. Hannes benti á, að í Afríku, þar sem sumir stofnar fíla og nashyrninga væru í útrýmingarhættu, mætti með einu pennastriki breyta veiðiþjófum í veiðiverði: með því að skilgreina eignarrétt afrískra þorpsbúa á þessum stofnum og leyfa eðlilega nýtingu þeirra í stað þess að reyna að friða þá.

Hannes H. Gissurarson tók undir það með íhaldsmönnum, að mannlífið væri ekki samsafn óháðra einstaklinga. Allir yrðu að eiga sér einhverjar rætur, bindast öðrum einhverjum böndum, virða arfhelgar venjur og hefðir. Hins vegar hafnaði Hannes þeirri skoðun, sem heyrðist á þinginu, að siðferðilegar skuldbindingar okkar næðu aðeins að þjóðinni. Þær næðu líka til alls mannkyns, þótt slíkar skuldbindingar væru eðli málsins samkvæmt mjög takmarkaðar og fælust aðallega í að láta aðra í friði.

Comments are closed.