Starfslokaráðstefna Hannesar

Í tilefni þess, að Hannes H. Gissurarson varð sjötugur 19. febrúar 2023, hélt Háskóli Íslands 180 manna starfslokaráðstefnu honum til heiðurs 12. maí, þar sem ellefu manns töluðu, en síðan var móttaka í húsakynnum skólans.

Dr. Barbara Kolm, forstöðumaður Hayek-stofnunarinnar í Vín og varaformaður bankaráðs austurríska seðlabankans, talaði um trausta peninga. Prófessor Bruce Caldwell, Duke-háskóla, rakti rannsóknir sínar á ævi Friedrichs von Hayeks. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lýsti því, hvernig Íslendingar komust út úr fjármálakreppunni, sem skall á 2008. Gabriela von Habsburg, myndhöggvari og fyrrverandi sendiherra Georgíu í Þýskalandi (og barnabarn síðasta keisara Austurríkis-Ungverjalands), sagði sögu Georgíu, smáríkis í hinum enda Evrópu. Prófessor Þráinn Eggertsson greindi hina stórfelldu tilraun í Kína til að sameina vaxandi atvinnulíf og flokkseinræði. Prófessor Stephen Macedo, Princeton-háskóla, varaði við þeirri illsku, sem hlaupin væri í stjórnmálaátök.

Prófessor Þór Whitehead ræddi um afstöðu Churchills og Roosevelts til Íslands. Dr. Neela Winkelmann, fyrrverandi forstöðumaður Evrópuvettvangs minningar og samvisku, sagði frá tilgangi og starfsemi vettvangsins. Yana Hrynko, safnstjóri í Kænugarði, fór orðum um samskipti Rússa og Úkraínumanna. Prófessor Ragnar Árnason leiddi rök að því, að nýta mætti ýmsar auðlindir með því að finna þeim eigendur og ábyrgðarmenn. Dr. Tom G. Palmer, forstöðumaður alþjóðasviðs Atlas Network, kvaðst hafa áhyggjur af þróuninni víða í átt frá lýðræði og frelsi.

Allar þessar ræður eru á Netinu. Forseti Íslands, dr. Guðni Th. Jóhannesson, tók á móti ræðumönnum og fleiri gestum á Bessastöðum, jafnframt því sem forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, sýndi erlendum gestum Alþingishúsið og fjármálaráðherra bauð ræðumönnum og fleiri gestum í Ráðherrabústaðinn að ráðstefnunni lokinni.

Comments are closed.