Rasmussen um Ayn Rand föstudag 26. október: 17–18

Föstudaginn 26. október 2012 kemur hin áhrifamikla skáldsaga Undirstaðan (Atlas Shrugged) eftir rússnesk-bandaríska rithöfundinn Ayn Rand út á íslensku. Almenna bókafélagið gefur bókina út, en Elín Guðmundsdóttir þýddi. Íslenska þýðingin er 1146 blaðsíður. Stefið í Undirstöðunni er: Hvað gerist, ef allir skapandi menn landsins gera verkfall, Atlas — jötunninn, sem ber uppi jörðina — ypptir öxlum, undirstaðan brestur? Hver er munurinn á sköpun og sníkjulífi? Hver er John Galt? Jafnframt er þetta saga af sambandi Dagnýjar Taggarts, sem rekur járnbrautarfyrirtæki fjölskyldu sinnar, og ýmissa tilkomumikilla einstaklinga, hins argentínska auðmannssonar Franciscos d’Anconia, stáljöfursins Hanks Reardens, sem er kvæntur maður, og hins dularfulla Johns Galts. Margar aðrar söguhetjur eru í bókinni, til dæmis sjóræninginn Ragnar Danneskjöld, sem skilgreinir sig sem andstæðu goðsagnaverunnar Hróa Hattar. Undirstaðan hefur verið metsölubók um heim allan áratugum saman, selst í mörgum milljóna eintaka, og er ekkert lát á. Þegar hefur verið vitnað til viðvarana Rands í umræðum um hagstjórn á Íslandi, eins og sést hér.

Bandaríski heimspekiprófessorinn Douglas Rasmussen, sem er sérfræðingur í verkum Ayns Rands, mun fylgja bókinni úr hlaði.  Fyrirlestur Rasmussens um Ayn Rand, skáldskap hennar og heimspeki verður í Þjóðmenningarhúsinu föstudaginn 26. október kl. 17–18 og móttaka í boði Almenna bókafélagsins á eftir, kl. 18–19. Fundurinn verður öllum opinn og aðgangur ókeypis. Einnig mun Ásgeir Jóhannesson, lögfræðingur og heimspekingur og formaður Ayn Rand-félagsins á Íslandi, þá segja nokkur orð og tónlistarmenn flytja tónverk eftir klassíska höfunda, en Rand var áhugamaður um klassíska tónlist. Þótt Rand sé umdeild, eru sögur hennar um einstaklingseðli, framkvæmdagleði og sköpunarmátt mikilvægar, þegar Íslendingar velja næstu árin um ólíkar leiðir í hagstjórn. Fyrirlestur Rasmussens er því þáttur í fyrirlestraröð, sem er samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, undir yfirskriftinni „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Douglas Rasmussen fæddist 1948, lauk B.A. prófi í heimspeki frá Iowa-háskóla og doktorsprófi í sömu grein frá Marquette-háskóla, en er nú prófessor í St. John’s háskóla og fræðimaður í Cato-stofnuninni í Washington-borg. Hann hefur gefið út nokkrar bækur og birt fjölda ritgerða í tímaritum eins og American Catholic Philosophical Quarterly, American Philosophical Quarterly, International Philosophical Quarterly, The New Scholasticism, The Personalist, Public Affairs Quarterly, Social Philosophy & Policy, The Review of Metaphysics og The Thomist. Hann var ásamt Douglas den Uyl ritstjóri bókarinnar The Philosophic Thought of Ayn Rand (1984).

Comments are closed.