Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, sem situr í rannsóknarráði RNH, mun flytja fyrirlestur í boði Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í hátíðasal Háskóla Íslands kl. 17–18 þriðjudaginn 19. febrúar 2013. Fyrirlesturinn nefnist „Frjálshyggjan, kreppan og kapítalisminn“. Þar mun Hannes Hólmsteinn bregðast við þeirri hörðu gagnrýni, sem frjálshyggjan (hin sígilda kenning Johns Lockes og Adams Smiths) og kapítalisminn, kerfi séreignar og samkeppni, hafa sætt eftir hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu og bankahrunið íslenska.
Fimm bækur hafa komið út á íslensku síðustu tvö ár gegn frjálshyggju og kapítalisma: Eilífðarvélin: uppgjör við nýfrjálshyggjuna eftir Stefán Ólafsson prófessor og nokkra félaga hans, Bankastræti núll eftir Einar Má Guðmundsson rithöfund, hin þýdda bók 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá eftir kóreska hagfræðinginn Ha-Joon Chang, Kredda í kreppu: frjálshyggjan og móteitrið við henni eftir Stefán Snævarr, prófessor í Lillehammer í Noregi, og Örlagaborgin: brotabrot úr afrekasögu frjálshyggjunnar eftir Einar Má Jónsson, miðaldafræðing við Svartaskóla (Sorbonne) í París. Boðskapurinn í þessum bókum hefur átt greiða leið inn í skóla og fjölmiðla: Haldin var fyrirlestraröð gegn „nýfrjálshyggju“ á vegum Öndvegissetursins Eddu (sem kostað er af opinberum sjóðum) í Háskóla Íslands haustið 2010, og höfundum bókanna hefur verið boðið í Silfur Egils, Kastljós, sumum oftar en einu sinni, í Samfélagið í nærmynd, Spegil og Víðsjá Ríkisútvarpsins og marga aðra fjölmiðla.
Hannes Hólmsteinn hyggst í fyrirlestri sínum benda á, hver sé stóra fréttin á fyrsta áratug 21. aldar, og ræða síðan fjórar fullyrðingar úr þessum fimm barátturitum gegn frjálshyggju og kapítalisma: 1) að kapítalisminn sé í eðli sínu óstöðugur, eins og hin alþjóðlega lánsfjárkreppa og bankahrunið íslenska 2008 sýni best; 2) að frjálshyggjutilraunin frá 1991 á Íslandi hafi mistekist; 3) að frjálshyggjan sé siðlaus og jafnvel ómannúðleg, frjálshyggjumenn hugsi aðeins um „sálarlaust silfrið og goldinn verð“; 4) að Evrópulönd og þá sérstaklega önnur Norðurlönd séu Íslendingum betri fyrirmyndir en hin fimmtíu Bandaríki Norður-Ameríku eða tíu fylki Kanada. Hann kveðst skora á höfunda og útgefendur þessara fimm bóka og aðra þá, sem gagnrýnt hafa frjálshyggju og kapítalisma hvað mest opinberlega síðustu árin, að koma á fyrirlesturinn og svara rökum sínum.
Fundarstjóri verður dr. Ómar Kristmundsson prófessor, forseti stjórnmálafræðideildar. Eftir fyrirlesturinn verður móttaka í Hámu, fyrir framan bóksölu stúdenta, kl. 18–20. Þótt RNH haldi ekki fundinn í hátíðasal, styður það og kynnir fyrirlesturinn, og er hann þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.
Hér má horfa á fyrirlestur, sem Hannes Hólmsteinn flutti um fátækt á Íslandi 1991–2004 í boði Sagnfræðingafélags Íslands 12. október 2012, og hér á ræðu, sem hann flutti um verkefni hægri manna á Íslandi á fundi ungra sjálfstæðismanna 8. mars 2012. Hér má lesa svör hans við spurningum á Beinni línu DV 24. febrúar 2012. Héðan má hlaða niður svörum hans í tímaritinu Stjórnmálum og stjórnsýslu við gagnrýni Stefáns Ólafssonar og félaga og héðan ritdómi hans á sama vettvangi um bók Ha-Joon Changs.