Ný og forvitnileg bók frá Almenna bókafélaginu

RNH starfar með og styður Almenna bókafélagið. Um miðjan mars 2013 gaf það út bók eftir Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðing, er nefnist Búsáhaldabyltingin: sjálfsprottin eða skipulögð? Hefur hún vakið mikla athygli, enda er hún hin forvitnilegasta. Prófessor Þór Whitehead kallar hana „læsilega, fróðlega og eftirtektarverða bók“. Í kynningu frá útgefanda segir:

Búsáhaldabyltingin 2008–2009 er einn ótrúlegasti kaflinn í nútímasögu Íslendinga. Hið friðsæla Ísland fyrri ára steyptist skyndilega um koll. Setið var um Stjórnarráðið, Seðlabankann og Alþingi, ráðherrar urðu að hafa lífverði, reynt var að frelsa fanga úr haldi lögreglunnar, barist var nánast upp á líf og dauða á götum Reykjavíkur, lögreglan var að niðurlotum komin eftir margra daga götubardaga, ríkisstjórn hrökklaðist frá völdum. Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðingur hefur haft aðgang að áður óbirtum trúnaðargögnum, meðal annars skýrslum og endurminningum, og talað við fjölda manns, sem tók beinan eða óbeinan þátt í þessum atburðum, lögreglumenn, mótmælendur, ráðherra og alþingismenn. Niðurstaðan er einstæð bók um einstæðan viðburð. Margt nýtt kemur þar fram, ekki síst um hlut forystumanna Vinstri grænna í búsáhaldabyltingunni.

Bók Stefáns Gunnars er önnur í röð Þjóðmálarita Almenna bókafélagsins, en hið fyrsta var Icesave-samningarnir: afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson blaðamann, og kom hún út haustið 2011.

 

Comments are closed.