Hannes H. Gissurarson: Orsakir bankahrunsins kerfislægar

Ljósm. Ívar Örn Þráinsson.

Á ráðstefnu um félagsvísindi í Háskólanum í Bifröst föstudaginn 3. maí 2013 flutti prófessor Hannes H. Gissurarson erindi um hina alþjóðlegu fjármálakreppu og orsakir bankahrunsins íslenska. Hann vísaði á bug fjórum algengum skýringum á bankahruninu:

1. Bankarnir hefðu verið of stórir. Hannes kvað bankana ekki hafa verið of stóra, heldur Ísland of lítið. Kerfisvillan hefði verið, að rekstrarsvæði bankanna hefði verið allt Evrópska efnahagssvæðið, EES, en baktryggingarsvæðið Ísland eitt. Lúxemborg og Svissland hefðu til dæmis verið með stór bankakerfi eins og Ísland.

2. Gerð hefði verið frjálshyggjutilraun, sem hefði misheppnast. Þessu hélt meðal annarra Ha-Joon Chang fram í bók sinni, 23 atriðum um kapítalisma sem ekki er sagt frá. Hannes benti á, að regluverk á íslenskum fjármálamarkaði hefði verið nákvæmlega hið sama og í öðrum löndum EES.

3. Bankamennirnir íslensku hefðu verið aular. Hannes benti á, að þá væru þeir erlendu bankamenn, sem lánað hefðu Íslendingum stórfé, sömu aular. Rifjaði Hannes upp nýleg dæmi af HSBC, Danske Bank, Barclays Bank, Royal Bank of Scotland og Deutsche Bank, sem sýndu, að erlendir bankamenn hefði ekki síður farið gáleysislega en hinir íslensku.

4. Seðlabankinn undir forystu Davíðs Oddssonar hefðu gert fjölda mistaka. Þessu hélt meðal annarra prófessor Robert Wade fram í New Left Review og víðar. Hannes benti á margar missagnir í máli Wades, til dæmis um gengisstefnu Seðlabankans.

Hannes taldi höfuðorsakir hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu kerfislægar: Bankar hefðu vanmetið áhættu, meðal annars vegna freistnivandans, sem stafaði af óbeinni ríkisábyrgð á rekstri þeirra, og ýmis ríkisafskipti síðan gert illt verra, til dæmis reglur um lánveitingar á bandarískum húsnæðismarkaði og lágvaxtastefna bandaríska Seðlabankans frá 2002. Tvær orsakir bankahrunsins íslenska hefðu einnig verið kerfislægar: Ísland hefði verið of lítið fyrir bankana, og hér hefði verið enn meiri kerfisáhætta en annars staðar vegna þess, að helstu skuldunautarnir hefðu verið fámennur og nátengdur hópur; markaðskapítalisminn 1991–2004 hefði breyst í klíkukapítalisma 2004–2008. Tvennt annað hefði haft sitt að segja: Bretar hefðu átt ríkan þátt í að fella bankana með hryðjuverkalögunum og öðrum aðgerðum, og óvild og öfund hefði beinst að þessum aðkomumönnum á evrópskum fjármálamarkaði, svo að enginn hefði viljað rétta þeim hjálparhönd. Stórfé hefði tapast á brunaútsölum á ýmsum eignum bankanna erlendis eftir hrun þeirra.

Málstofan var fjölsótt. daginn eftir birti Morgunblaðið viðtal við Hannes:

Einnig var rætt við Hannes Hólmstein í „Silfri Egils“ 5. maí 2013 um skýringar á alþjóðlegu lánsfjárkreppunni og íslenska bankahruninu:

 

Comments are closed.