RNH styður Aynd Rand-verkefni Almenna bókafélagsins, AB. Í nóvember 2011 gaf AB út skáldsöguna The Fountainhead (1943) eftir Rand, en hún nefndist í íslenskri þýðingu Þorsteins Siglaugssonar heimspekings Uppsprettan. Áður hafði bókin komið út á íslensku 1990, en var fyrir löngu uppseld. Hún hefur eins og Undirstaðan selst í mörgum milljónum eintaka um heim allan. Gerð var kvikmynd eftir sögunni 1949, og lék Gary Cooper aðalhlutverkið, arkitektinn Howard Roark, sem lætur hvorki auðjöfra né almenningsálit buga sig. Hina frægu ræðu Roarks fyrir rétti, þar sem hann ver rétt einstaklingsins gegn ríki, auðjöfrum og almenningsáliti, má sjá hér. Dr. Tom Palmer frá Cato-stofnuninni í Washington-borg fylgdi bókinni úr hlaði með fyrirlestri í Þjóðmenningarhúsinu 28. nóvember 2011, en síðan var haldinn sérstakur frelsiskvöldverður í Þingholti undir stjórn Gísla Haukssonar, formanns stjórnar RNH.
Í október 2012 gaf Almenna bókafélagið út skáldsöguna Atlas Shrugged (1957) eftir Ayn Rand. Elín Guðmundsdóttir þýddi bókina, sem nefnist Undirstaðan á íslensku. Áður hafði Ólafur Teitur Guðnason þýtt hluta bókarinnar, og er nokkuð stuðst við þá þýðingu með leyfi hans. Stefið í Undirstöðunni er: Hvað gerist, ef allir skapandi menn landsins gera verkfall, Atlas — jötunninn, sem ber uppi jörðina — ypptir öxlum, undirstaðan brestur? Hver er munurinn á sköpun og sníkjulífi? Hver er John Galt? Jafnframt er þetta saga af sambandi Dagnýjar Taggarts, sem rekur járnbrautarfyrirtæki fjölskyldu sinnar, og ýmissa tilkomumikilla einstaklinga, hins argentínska auðmannssonar Franciscos d’Anconia, stáljöfursins Hanks Reardens, sem er kvæntur maður, og hins dularfulla Johns Galts. Margar aðrar söguhetjur eru í bókinni, til dæmis sjóræninginn Ragnar Danneskjöld, sem skilgreinir sig sem andstæðu goðsagnaverunnar Hróa Hattar. Undirstaðan hefur verið metsölubók um heim allan áratugum saman, selst í mörgum milljóna eintaka, og er ekkert lát á. Þegar hefur verið vitnað til viðvarana Rands í umræðum um hagstjórn á Íslandi, eins og sést hér.
Bandaríski heimspekiprófessorinn Douglas Rasmussen, sem er sérfræðingur í verkum Ayns Rands, fylgdi Undirstöðunni úr hlaði. Fyrirlestur Rasmussens var í Þjóðmenningarhúsinu föstudaginn 26. október kl. 17–18 og móttaka í boði Almenna bókafélagsins á eftir. Fundurinn var öllum opinn og aðgangur ókeypis. Var fyrirlestur Rasmussens einn þátturinn í fyrirlestraröð, sem RNH skipuleggur í samstarfi við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Einnig sagði Ásgeir Jóhannesson, lögfræðingur og heimspekingur, nokkur orð við þetta tækifæri, og tónlistarmenn fluttu klassísk tónverk fyrir píanó, en Rand hafði dálæti á klassískri tónlist.
Almenna bókafélagið gaf út þriðju skáldsögu Ayns Rands á íslensku 4. nóvember 2013, We the Living (1936), sem nefnist Kíra Argúnova í íslensku þýðingunni. Hún birtist sem framhaldssaga í Morgunblaðinu 1949, og er þýðandi ókunnur. Rand sækir efnið í reynslu sína af fyrstu árum kommúnistastjórnarinnar í Rússlandi, en aðalsöguhetjan, hugrökk og sjálfstæð ung stúlka, Kíra Argúnova, telur að sér þrengt og ákveður að flýja land. Frosti Logason útvarpsmaður bjó söguna til prentunar, en Ásgeir Jóhannesson, heimspekingur og lögfræðingur, bætti við eftirskrift um Ayn Rand, ævi hennar og verk. Dr. Yaron Brook, forstöðumaður Ayn Rand-stofnunarinnar í Bandaríkjunum, fylgdi bókinni úr hlaði með fyrirlestri um Rand og hugmyndir hennar. Voru útkoma bókarinnar og fyrirlestur dr. Brooks þættir í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.
Bandaríski heimspekiprófessorinn Tara Smith talaði 14. nóvember 2014 um Rand og kenningar hennar á málstofu RNH, ekki síst um eðli og hlutverk peninga í frjálsum samskiptum einstaklinga. Prófessor Hannes H. Gissurarson flutti fyrirlestur 5. nóvember 2015 um „Sköpunargleði í stað sníkjulífs: Siðferðileg vörn Ayns Rands fyrir kapítalismanum“. Ætlunin er síðar meir að koma út þýðingum á tveimur öðrum verkum Rands. Ríkisútvarpið hefur nokkrum sinnum flutt eftir Rand leikritið Aðfaranótt sautjánda janúar í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar, skálds og eins fremsta ljóðaþýðanda Íslendinga. Elín Guðmundsdóttir hefur þýtt Sálm (Anthem), eins konar hrollvekju um framtíðarskipulag eða staðleysufælu (dystopia) Rands.
Ayn Rand, sem fæddist og ólst upp í Rússlandi, en haslaði sér síðan völl í Hollywood, þar sem hún samdi handrit fyrir kvikmyndaver, er einn sérkennilegasti og sjálfstæðasti heimspekingur og rithöfundur Bandaríkjanna á tuttugustu öld. Til eru nokkur sjónvarpsviðtöl við hana. Mike Wallace tók eitt árið 1959, Johnny Carson annað 1967 og Phil Donahue enn annað 1979. Rand er langáhrifamesti kvenheimspekingur allra tíma.
Kápur íslensku þýðinganna þriggja á skáldsögum Rands eru skreyttar málverkum eftir hina frægu pólsku listakonu Tamara de Lempicka. Prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson, sem hefur yfirumsjón með Ayn Rand-verkefni AB, svaraði í ágúst 2012 nokkrum spurningum um það í hinu vinstri sinnaða blaði Grapevine, sem kemur út á ensku í Reykjavík: