Einn mikilvægasti þátturinn í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, undir heitinu „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“, er leitin að hagkvæmum leikreglum um nýtingu náttúruauðlinda og umhverfisvernd. Hvernig má stuðla að „grænum kapítalisma“?
Fyrsti viðburðurinn í þessu verkefni var fyrirlestur dr. Matts Ridleys, eins kunnasta vísindarithöfundar Breta, 27. ágúst 2012 um hinn mikla sköpunar- og endurnýjunarmátt skipulags frjálsra viðskipta. Annar mikilvægur viðburður árið 2012 í þessu verkefni var alþjóðleg ráðstefna 6. október 2012, Fiskveiðar: Sjálfbærar og arðbærar, sem RNH stóð að í Háskóla Íslands. Fyrirlesarar og umsegjendur voru Árni Mathiesen, forstöðumaður fiskveiðideildar FAO, dr. Gunnar Haraldsson, sérfræðingur hjá OECD, Michael Arbuckle, sérfræðingur hjá Alþjóðabankanum, dr. Þráinn Eggertsson, prófessor í hagfræði í Háskóla Íslands, dr. Ragnar Árnason, prófessor í auðlindahagfræði í Háskóla Íslands, dr. Rögnvaldur Hannesson, prófessor í fiskihagfræði í Viðskipaháskólanum í Björgvin, dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur, dr. Birgir Þór Runólfsson, dósent í hagfræði í Háskóla Íslands, Helgi Áss Grétarsson, dósent í lögfræði í Háskóla Íslands, og dr. Michael De Alessi, Reason Foundation, Kaliforníu. Brian Carney, ritstjóri leiðarasíðu Wall Street Journal Europe, reifaði niðurstöður. Nánar segir frá fyrirlesurum hér.
Erindin á ráðstefnunni verða væntanlega gefin út á bók á vegum RNH og AECR. Næsti viðburður tengdur þessum þætti var fyrirlestur prófessors Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors á málstofu félagsvísindasviðs Háskóla Íslands 26. október 2012 um, hvað stjórnmálahagfræðin hefði að segja um peningalykt. Þar greindi hann mengun eins og lyktina, sem lagði af síldarbræðslum í íslenskum sjávarþorpum, í ljósi kenninga A. C. Pigous og R. H. Coases og benti á hugsanleg úrræði.
Prófessor Hannes H. Gissurarson stjórnar sérstöku rannsóknarverkefni í Háskóla Íslands um „Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýtingu“ í samstarfi við Instituto Millenium í Rio de Janeiro í Brasilíu. RNH hélt málstofu ásamt bandarísku hugveitunni Reason Foundation í Rio de Janeiro 19. júní 2012 í tengslum við hina alþjóðlegu umhverfisráðstefnu Rio+20, og töluðu þar Hannes H. Gissurarson og Julian Morris. Nokkrir Íslendingar sóttu móttöku í tengslum við málstofuna á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, þ. á m. Árni Mathiesen frá FAO.
Prófessor Hannes H. Gissurarson sótti ráðstefnu Mont Pelerin-samtakanna á Galapagos-eyjum 22.–29. júní 2013 um frelsi og þróunarkenningu Darwins. Hann var þar fundarstjóri á málstofu um frjálshyggju og kenningu Darwins. Þátttaka hans í ráðstefnunni var liður í rannsóknarverkefninu um grænan kapítalisma.
RNH hélt alþjóðlega ráðstefnu í samstarfi við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands 14. október 2013 í minningu Árna Vilhjálmssonar prófessors, eins helsta frumkvöðuls Íslendinga á sviði sjávarútvegs á tuttugustu öld. Ráðstefnan bar yfirskriftina „Kvótakerfi og veiðigjöld“. Einn kunnasti fiskihagfræðingur heims, Ralph Townsend, prófessor í fiskihagfræði í Maine-háskóla, flutti aðalfyrirlesturinn. Aðrir fyrirlesarar voru prófessorarnir Ragnar Árnason og Hannes H. Gissurarson í Háskóla Íslands og dr. Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Við sama tækifæri gaf Hvalur hf. Háskólanum brjóstmynd af Árna, sem Gerður Gunnarsdóttir myndhöggvari hafði gert.
Um miðjan október 2014 gaf Almenna bókafélagið út metsölubók Matts Ridleys, Heimur batnandi fer (The Rational Optimist), en þar ræðir hann um margvíslegan umhverfisvanda okkar daga og hugsanlegar lausnir. Þýðandi var Elín Guðmundsdóttir, en Hannes H. Gissurarson ritstýrði bókinni. Þráinn Eggertsson prófessor segir um bókina: „Matt Ridley, rithöfundur, vísindamaður og fyrrum ritstjóri hjá tímaritinu Economist, hefur í þessari bók endurraðað hugmyndum frá Adam Smith og Charles Darwin til að útskýra hvers vegna mannfólkið hefur náð lengra en önnur dýr á jörðinni. Hvernig sérhæfing og skipti milli óskyldra aðila samnýtir þekkingu milljóna manna og skapar gæði, svo sem bifreiðar, tölvur og lyf, sem enginn einn okkar gæti fundið upp og búið til. Ridley fjallar einnig um dómsdagsáráttu mannskepnunnar og tískustrauma í heimsendaspám, sem áður tengdust hefðbundnum trúarbrögðum en nú einnig raunvísindum. Höfundurinn leitar víða fanga, er afburðasnjall stílisti með ríkt skopskyn og ótrúlega fróður um þróun lífsins á jörðinni, mannkynssögu og nýjar rannsóknir í félags- og raunvísindum.“
RNH hélt ásamt Samtökum skattgreiðenda málstofu 24. október 2014 um auðlindaskatt og auðlegðarskatt. Skýrði prófessor Corbett Grainger frá Háskólanum í Wisconsin, hvers vegna kerfi framseljanlegra, varanlegra og einstaklingsbundinna aflakvóta væri heppilegra til að leysa samnýtingarvandann í fiskveiðum en auðlindaskattur. Prófessor Ragnar Árnason og prófessor Hannes H. Gissurarson skýrðu, hvers vegna auðlegðarskattur styddist oft við hæpnar mælingar á og kenningar um tekjudreifingu. Almenna bókafélagið hélt ásamt RNH og fjármálafyrirtækinu Gamma málstofu 30. október, þar sem Matt Ridley fór yfir nokkur helstu atriðin í bók sinni, Heimur batnandi fer. Þráinn Eggertsson hagfræðiprófessor velti fyrir sér ýmsum hliðum á hinu nýja upplýsingaskipulagi, sem er að spretta upp, og Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent lagði út af einu dæmi Ridleys í bók hans um skipulag, þar sem sjálfbærni og arðbærni færu saman, kvótakerfið í fiskveiðum. Skýrði Birgir Þór út, hvers vegna handhafar kvótanna sjái sér hag í, að fiskistofnarnir verði sterkir til langs tíma litið, jafnframt því sem þeir geti einbeitt sér að því að veiða á hverri vertíð með sem lægstum tilkostnaði.
RNH hélt ásamt félagsvísindasviði Háskóla Íslands ráðstefnu til heiðurs Rögnvaldi Hannessyni prófessor 8. október 2015. Rögnvaldur er einn kunnasti auðlindahagfræðingur heims og birti nýlega bók gegn öfgaumhverfisstefnu, Ecofundamentalism. Dr. Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs, og prófessor Tór Einarsson kynntu Rögnvald, sem flutti síðan fyrirlestur um boðskap sinn í bókinni. Þeir Julian Morris frá Reason Foundation og Bengt Kriström frá Háskólanum í Umeå brugðust við fyrirlestri Rögnvalds. Um kvöldið bauð Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra í kvöldverð í Ráðherrabústaðnum til heiðurs Rögnvaldi. Í árslok 2015 gaf Háskólaútgáfan út bók eftir prófessor Hannes H. Gissurarson, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, þar sem hann lýsti kvótakerfinu í íslenskum sjávarútvegi og leiddi rök að því, að úthluta hefði átt kvótum eftir aflareynslu í upphafi, eins og gert var, og leyfa síðan frjáls viðskipti með þá. Bókin er aðgengileg á Netinu. Árið 2016 birti Hannes ritdóm í Journal of Economics Library um bók Rögnvalds.
Árið 2016 flutti prófessor Hannes H. Gissurarson nokkur erindi um hagkvæma og réttláta skipan fiskveiða með sérstöku tilliti til kvótakerfisins íslenska: í Lima hjá Fiskifélagi Perú 21. janúar, í atvinnumálaráðuneyti Perú 26. janúar og á málstofu IEA í Flórens á Ítalíu 8. september. RNH tók þátt í ráðstefnu með hagfræðideild Háskóla Íslands og fleiri aðilum 29. ágúst 2016 um upphaflega úthlutun aflaheimilda, aflareynslu og uppboð. Prófessor Gary Libecap, einn virtasti auðlindahagfræðingur heims, og prófessor Ragnar Árnason fluttu fyrirlestra. Töldu þeir báðir úthlutun eftir aflareynslu eðlilega og sáu ýmis tormerki á uppboðum frá fræðilegu sjónarmiði séð. Í pallborðsumræðum á eftir fyrirlestrum þeirra tók prófessor Charles Plott, sem er víðkunnur sérfræðingur í uppboðum, undir sjónarmið þeirra Libecaps og Ragnars. Auk hans tóku þátt í umræðunum dr. Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi alþingismaður, stjórnmálafræðiprófessorinn Hannes H. Gissurarson og lögfræðidósentinn Helgi Áss Grétarsson. Plott taldi óþarfa að bjóða upp aflaheimildir, þar eð þegar væri virkur markaður til um þær. Hannes benti á, að eini rétturinn, sem aðrir en handhafar kvóta hefðu verið sviptir við úthlutun þeirra og lokun miðanna, hefði verið réttur til að gera út án nokkurs hagnaðar, eins og ljóst væri af líkani H. Scotts Gordons af fiskveiðum við opinn aðgang.
Almenna bókafélagið gaf 23. október 2017 út bók eftir sænska sagnfræðinginn Framfarir: Tíu ástæður til að taka framtíðinni fagnandi, og kynnti höfundur hana sama dag í Háskóla Íslands. Norberg benti á, að heilsufar hefði batnað stórkostlega, jafnframt því sem dregið hefði úr ofbeldi og stríðum fækkað. Nýmæli í vísindum og tækni gerðu mönnum líka kleift að bæta umhverfið og verjast hamförum. Var Þorbjörn Þórðarson umsegjandi.
Árið 2017 kom út hjá hugveitunni New Direction í Brüssel rit eftir prófessor Hannes H. Gissurarson um grænan kapítalisma, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Private Property Rights. Þar eru meðal annars kaflar um hrakspár, mengun, regnskóga, laxveiðiár, beitarréttindi til fjalla, aflaheimildir á Íslandsmiðum og nýtingu fíla, nashyrninga og hvala. Kynnti höfundur hana á alþjóðlegri ráðstefnu í Brüssel 24. maí 2018, en meðal annarra fyrirlesara var hinn heimskunni heimspekingur Roger Scruton.