Ukielski: Stalín í fyrstu bandamaður Hitlers

Frá v.: Ukielski, Nutt og Gissurarson. Ljósm.: Ólafur Engilbertsson.

Opnuð var mynda- og bókasýning á Þjóðarbókhlöðunni, sem RNH stendur ásamt öðrum að, 23. ágúst 2013, en Evrópuþingið hefur valið þann dag minningardag um fórnarlömb alræðis í Evrópu, nasisma og kommúnisma: Hitler og Stalín gerðu þann dag 1939 griðasáttmálann, sem hleypti af stað heimsstyrjöldinni síðari. Sýningin nefnist „Heimskommúnisminn og Íslandi“. Dr. Hannes H. Gissurarson prófessor valdi myndir og bækur og samdi skýringartexta, en Ólafur Engilbertsson hjá Sögumiðlun ehf. sá um hönnun.

Við opnunina fluttu tveir gestir frá Mið- og Austur-Evrópu fyrirlestra. Dr. Mart Nutt sagði frá Eistlandi, smáþjóð undir oki erlends valds, sem  kynntist í senn harðneskju og rússneskjun, og dr. Pawel Ukielski lýsti uppreisninni í Varsjá 1944, sem nasistar börðu niður af mikilli grimmd, á meðan Stalín beið átekta hinum megin við fljótið Vislu, sem rennur í gegnum borgina. Fylgdust áhorfendur agndofa með mörgum myndunum, sem birtust á skjánum.

Í viðtali við Viðskiptablaðið benti Ukielski á, að heimsstyrjöldin síðari hefði ekki aðeins verið stríð Vesturveldanna og nasista. Fyrstu tvö árin voru Hitler og Stalín bandamenn, þótt Stalín tæki ekki þátt í styrjöldinni. Með griðasáttmálanum höfðu þeir skipt á milli sín Mið- og Austur-Evrópu. Alræðisherrarnir urðu ekki óvinir, fyrr en Hitler réðst á Stalín í júní 1941.

Í viðtali við Sjónvarpið, sem flutt var að kvöldi 23. ágúst ásamt svipmyndum af sýningunni, rifjaði Nutt upp, að hann hefði tekið þátt í  „Eystrasaltskeðjunni“ 23. ágúst 1989. Þá tóku á þriðju milljón manna höndum saman og mynduðu lifandi keðju, sem náði frá Tallinn í Eistlandi til Vilnius í Litháen. Kröfðust þátttakendur sjálfstæðis og frelsis Eystrasaltsþjóðanna. Í viðtali við Morgunblaðið þakkaði Nutt Íslendingum þann hlýhug, sem þeir hefðu sýnt Eystrasaltsþjóðunum. Eftir opnunina gekk Nutt á fund Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, og færði honum sérstakt merki Eistlands til að minnast þess, að fjörutíu ár eru frá því, að Davíð, sem þá var ungur laganemi, þýddi bókina Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir eistnesk-sænska rithöfundinn Andres Küng. Davíð var síðan forsætisráðherra sumarið 1991, þegar Ísland varð fyrst ríkja til að endurnýja viðurkenningu sína á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.

Fjölmenni var á fyrirlestrinum, þar á meðal pólski sendiherrann á Íslandi, ýmsir fyrrverandir ráðherrar, háskólaprófessorar, gamlir og tryggir Varðbergsfélagar og einnig nokkrir úr hinum fjölmenna hópi Pólverja á Íslandi. Dr. Hannes H. Gissurarson prófessor var fundarstjóri, en eftir fyrirlestrana báru þeir dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur, Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður og dr. Einar Stefánsson prófessor fram fyrirspurnir, sem Nutt og Ukielski svöruðu. Síðan skoðuðu fundargestir sýninguna og þáðu loks veitingar í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar. Einn þeirra, dr. Benedikt Jóhannesson, stærðfræðingur og útgefandi, bloggaði síðan um fundinn og sýninguna. Viðskiptablaðið birti nokkrar myndir af fundinum og úr ljósmyndasýningunni 29. ágúst. Auk RNH stóðu að atburðinum Þjóðarbókhlaðan, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál.

Komin er á Youtube stutt fréttamynd, klippt upp úr viðtölum við Ukielski og Nutt:

 

Glærur Ukielskis

Glærur Nutts

 

Comments are closed.