Elliott: Berjumst gegn óhóflegum sköttum og sóun almannafjár

Ljósm.: Vb. Haraldur Guðjónsson

Matthew Elliott, stofnandi bresku skattgreiðendasamtakanna og höfundur fjölmargra rita um sóun í opinberum rekstri, flutti erindi á fundi RNH og Samtaka skattgreiðenda föstudaginn 20. september 2013. Hann sagði þar frá stofnun og starfsemi skattgreiðendasamtakanna, sem eru óháð grasrótarsamtök með um 80 þúsund félagsmenn. Þau hafa mjög látið að sér kveða í stjórnmálaumræðum í Bretlandi. Elliott sagði, að skattar ættu að vera lágir og einfaldir. Verulegt svigrúm væri til að spara í opinberum rekstri, án þess að það kæmi niður á þjónustu við þá, sem þyrftu á henni að halda og gætu sjálfir ekki greitt fyrir hana. Elliott sagði, að eftirlætisdæmi sitt væri, að í einu skrifstofuhúsi fyrir breska þingið hefði verið komið fyrir tíu trjám, og hefði það kostað 400 þúsund pund eða um 70 milljónir íslenskra króna. Elliott brýndi það fyrir áheyrendum, að í varnarbaráttu skattgreiðenda þyrfti að taka auðskiljanleg og skýr dæmi, sem snertu fólk sjálft.

Koma Elliotts til landsins vakti mikla athygli. Hann talaði einnig um hagræðingu í opinberum rekstri á fundi hjá Sjálfstæðisflokknum laugardaginn 21. september. Gunnlaugur Snær Ólafsson ræddi við Elliott fyrir Heimssýn og Samtök skattgreiðenda, og er viðtalið aðgengilegt á Youtube. Elliott lýsti þar sóuninni og spillingunni í Brussel, þar sem skriffinnarnir þurfa fæstir að greiða skatta af tekjum sínum. Hann kvað Evrópusambandið eyða stórfé í áróðursvél sína. Morgunblaðið birti viðtal við Elliott 19. september. Þar kvað hann Evrópubúa standa á krossgötum. Eftir kosningarnar í Þýskalandi, sem framundan væru, myndu sumir vilja frekari Evrópusamruna, en aðrir halda í þjóðleg sérkenni sín. Stóra Bretland væri eins og Ísland og Noregur í ysta belti Evrópu, ef svo mætti segja. Netmiðillinn Andríki birti frétt um fund Elliotts 20. september. Viðskiptablaðið sagði frá erindi Elliotts 20. september og ræddi síðan við hann á vefsjónvarpi sínu. Fundurinn með Elliott 20. september var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Hann er einnig fyrsti þátturinn í sérstöku skattaátaki Samtaka skattgreiðenda og RNH. Næstu fundir um skattamál verða í hátíðasal Háskóla Íslands mánudaginn 14. október kl. 17–19, þar sem rætt verður um rökin gegn veiðigjaldi, og í stofu N-131 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, mánudaginn 4. nóvember kl. 12–13, en þar mun dr. Daniel Mitchell frá Cato-stofnuninni ræða um gögn til stuðnings kenningunni um Laffer-áhrif (að skatttekjur ríkisins þurfi ekki að minnka línulega eða beint með skatthlutfalli).

Comments are closed.