Bankahrunið að fimm árum liðnum: Mánudag 7. október 17–19

RNH heldur alþjóðlega ráðstefnu um bankahrunið íslenska að fimm árum liðnum mánudaginn 7. október 2013 kl. 17–19. Er hún í stofu N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Dr. Eamonn Butler flytur erindi um orsakir hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu, en hann hefur birt margt erlendis um það mál, þar á meðal í ritinu Verdict on the Crash 2009. Dr. Pythagoras Petratos lýsir ástandinu á Kýpur, sem er eyland í Evrópu eins og Ísland, en ólíkt Íslandi í Evrópusambandinu og á evrusvæðinu. Prófessor Hannes H. Gissurarson greinir orsakir bankahrunsins íslenska og vísar á bug ýmsum skýringum á því, sem hann telur ekki styðjast við næg gögn. Dr. Ásgeir Jónsson ræðir um eftirleik bankahrunsins. Fundarstjóri er Ásta Möller, forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, en dr. Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði, bregst við erindum. Að því loknu verða fyrirspurnir og umræður. Fundurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis. Hann er þáttur í samstarfsverkefni við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Eamonn Butler er Breti, sem lauk háskólaprófum í heimspeki, hagfræði og sálfræði. Doktorspróf hans er frá Háskólanum í St. Andrews í Skotlandi. Hann starfaði um skeið að rannsóknum fyrir fulltrúadeild Bandaríkjaþings, en stofnaði Adam Smith Institute árið 1977 ásamt Madsen Pirie. Sinnir hún rannsóknum á eðli og starfsemi hins frjálsa markaðar. Hann er nú ritari Mont Pelerin Society, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna. Hann hefur skrifað fjölda bóka, þar á meðal stutt og aðgengileg rit um hagfræðingana Friedman, Hayek og Mises. Árið 2009 kom út eftir hann bókin Eitthvað er rotið í Bretaveldi (The Rotten State of Britain), og gagnrýndi hann þar stjórn Verkamannaflokksins harðlega fyrir að hafa sett hryðjuverkalög á Ísland, eina bestu vinaþjóð Breta í Evrópu.

Pythagoras Petratos er Grikki, sem lauk háskólaprófum í fjármálafræðum, heilsuhagfræði og Evrópustjórnmálum. Doktorspróf hans er frá Lundúnaháskóla, og skrifaði hann um nýja fjármálatækni, einkafjármagn og áhættustýringu. Hann hefur verið gestakennari við marga gríska háskóla, þar á meðal Pelopsskagaháskóla, Krítarháskóla og Þessalíuháskóla, og einnig við Cambridge-háskóla, en kennir nú fjármálafræði við Said viðskiptaskólann í Oxford-háskóla. Hann hefur skrifað ýmislegt um öryggismál og regluverk um nýja tækni.

Hannes H. Gissurarson lauk háskólaprófum í sagnfræði, heimspeki og stjórnmálafræði. Doktorspróf hans er frá Oxford-háskóla, og skrifaði hann um sátt frjálslyndis og íhaldssemi. Hann er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands. Hann sat 1998–2004 í stjórn Mont Pelerin Society, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna, og 2001–2009 í bankaráði Seðlabanka Íslands. Hann situr í rannsóknaráði Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt. Hann hefur birt fjölda greina, ritgerða og bóka, þar á meðal Hayek’s Conservative Liberalism, Overfishing: The Icelandic Solution, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, Jón Þorláksson forsætisráðherra, Benjamín Eiríksson í stormum sinna tíða, þriggja binda ævisögu Halldórs Kiljans Laxness, Íslenska kommúnista 1918–1998 og rit um stjórnmálaheimspeki og stjórnmálahagfræði. Hann vinnur nú að bók á ensku um bankahrunið.

Ásgeir Jónsson lauk háskólaprófum í hagfræði og hagsögu. Doktorsritgerð hans er frá Indianaháskóla í Bandaríkjunum og er um alþjóðafjármál. Hann starfaði hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands 2000–2004 og var ritstjóri Vísbendingar 1995–1996. Hann var yfirmaður greiningardeildar Kaupþings frá 2004 og fram yfir bankahrun, en er nú lektor í hagfræði í hagfræðideild Háskóla Íslands. Hann gaf 2009 út bókina Hvers vegna Ísland? (Why Iceland?) um bankahrunið, aðdraganda þess og orsakir. Hann vinnur nú að bók á ensku um eftirleik bankahrunsins.

Að kvöldi mánudagsins 7. október verður Frelsiskvöldverður RNH, og þar er Davíð Oddsson ritstjóri ræðumaður. Hann var borgarstjóri í Reykjavík 1982–1991, forsætisráðherra 1991–2004, utanríkisráðherra 2004–2005 og seðlabankastjóri 2005–2009. „Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis,“ sagði Davíð á fundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007, ári fyrir bankahrunið. „Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess, sem fært er að búa við til lengri tíma.“ Í frægum sjónvarpsþætti 7. október 2008 varðaði Davíð leiðina út úr ógöngum Íslendinga, sem væri að þjóðnýta og reka áfram hinn innlenda hluta bankakerfisins, en gera upp hinn erlenda hluta, selja eignir og greiða skuldir. Þessum ráðum var fylgt, en hann þó hrakinn úr stöðu seðlabankastjóra. Í ræðu sinni mun Davíð rifja upp hina örlagaríku daga í október 2008, meðal annars boðskap sinn í sjónvarpsþættinum. Þegar er uppselt í kvöldverðinn.

RNH kynnir líka og styður fund, sem haldinn verður í hádeginu sama dag, mánudaginn 7. október, í hátíðasal Háskóla Íslands, kl. 12.00–13.30, þar sem prófessor Robert Aliber flytur erindi um hlutskipti smáþjóða eins og Íslands í hinu alþjóðlega fjármálakerfi. Aliber lauk doktorsprófi í hagfræði frá Yale-háskóla og kenndi alþjóðafjármál í Chicago-háskóla 1965–2004, þar sem hann starfaði með Milton Friedman og mörgum öðrum kunnum hagfræðingum. Aliber hélt sögulegan fyrirlestur á Íslandi 5. maí 2008, þar sem hann sagði forviða áheyrendum: „Your banks are dead“ — Bankarnir ykkar eru steindauðir. Taldi Aliber aðeins spurningu um tíma, hvenær gert yrði áhlaup á bankana. Hér væri eignabóla, sem orsakast hefði af miklum lántökum bankanna erlendis og fjárfestingum hérlendis, en hún hlyti að springa. Þegar hann var inntur eftir rökum fyrir máli sínu, svaraði hann: „Count the cranes“ — Teljið byggingarkranana. Máli Alibers var misjafnlega tekið. Gerði aðalhagfræðingur Seðlabankans, Arnór Sighvatsson, harða hríð að honum á fundinum. Aliber hefur síðan komið til landsins nokkrum sinnum og flutt fyrirlestra.

Comments are closed.