Hannes um bankahrunið: Föstudag 25. október 9–10.45

Ljósm. Birgir Ísl. Gunnarsson.

Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, flytur erindi um skýringar á bankahruninu í Þjóðarspeglinum, sem félagsvísindasvið Háskóla Íslands heldur föstudaginn 25. október 2013, en þar kynna fræðimenn á sviðinu rannsóknir sínar. Málstofan með Hannesi verður í Háskólatorgi, stofu HT-101, kl. 9–10.45, og í henni taka þátt Eiríkur Bergmann, Kristín Loftsdóttir og fleiri. Hannes mun þar vísa á bug þeim skýringum Ha-Joons Changs, Roberts Wades og Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur á bankahruninu, að það hafi verið vegna sérstakrar frjálshyggjutilraunar ríkisstjórna Davíðs Oddssonar. Hann mun sýna, hvers vegna gögn bendi til þess, að tímamót hafi orðið í þróun hagkerfisins árið 2004 og hvers vegna lánaþensluna eftir það megi aðallega rekja til einnar af þeim þremur fyrirtækjasamstæðum, sem þá létu aðallega að sér kveða. Hann mun einnig ræða um erlendar orsakir bankahrunsins, meðal annars hegðun bandaríska seðlabankans og breska fjármálaeftirlitsins, en ekki síst ríkisstjórnar breska Verkamannaflokksins. Erindi Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Í annarri málstofu sama dag, kl. 11–12.45 í aðalbyggingu Háskólans, stofu 220, mun Hannes H. Gissurarson kynna niðurstöður rannsóknar, sem hann hefur gert ásamt einum nemanda sínum, Helenu Rós Sturludóttur, á vitund Íslendinga um vinaþjóðir sínar í Eystrasaltsríkjunum þremur. Hann mun lýsa samskiptum Íslands og Eystrasaltsríkjanna, á meðan nasistar og kommúnistar hernámu þessi lönd, allt til 1991, og ræða um þá mynd, sem íslenskar kennslubækur gefa af þessum ríkjum. Erindið nefnist: „Different Nations, Shared Experiences: The Baltic Countries and Iceland.“ Meðal annars mun hann lýsa fyrirlestraferð lettnesku gyðingastúlkunnar Libu Fridlands hér 1923, ritdeilum litáíska útlagans Teodorasar Bieliackinas og íslenskra sósíalista 1946, útkomu bóka á íslensku um hlutskipti Eystrasaltsþjóðanna, heimsóknum Eistlendinganna dr. Augusts Reis og Johannesar Käbins til Íslands og textum í íslenskum kennslubókum í sögu um Eystrasaltsríkjum. Verkefni Hannesar H. og Helenu Rósar var unnið í samstarfi við Unitas-stofnunina í Eistlandi og Hernámsárasafnið í Lettlandi, sem sjá saman um verkefni á vegum Evrópusambandsins, „Different Nations — Shared Experiences.“ Erindi Hannesar er jafnframt þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Aðgangur að báðum málstofunum er ókeypis og öllum heimill.

Comments are closed.