Jón Steinar: Veiðigjald ólögmætt

Jón Steinar flytur framsöguerindi sitt.

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, hélt því fram á fjölmennum fundi Lögréttu, félags laganema í Háskólanum í Reykjavík, þriðjudaginn 29. október 2013, að þau veiðigjöld, sem hefðu verið sett á sjávarútveg á Íslandi, stæðust ekki stjórnarskrá og væru ólögmæt. Taldi hann einsætt, að um skattlagningu væri að ræða, svo að almennar reglur um hana giltu um þessi gjöld. Þau væru tekin af aflaheimildum, sem hefðu orðið til snemma á níunda áratug í því skyni að takmarka aðgang að Íslandsmiðum. Sjálfur hefði hann þegar 1995 bent á, að slíkar aflaheimildir hlytu að njóta eignarréttarverndar 72. greinar stjórnarskrárinnar. Jón Steinar leiddi rök að því, að jafnt hið almenna veiðigjald og hið sérstaka veiðigjald, sem væri nýrra, stæðust ekki stjórnarskrá. Um ólögmæta eignaupptöku væri að ræða. Einnig væri gjaldtakan afturvirk.

Helgi Áss Grétarsson, dósent í lögfræði í Háskóla Íslands, sem var líka frummælandi, andmælti því, að öll veiðigjöld stæðust ekki stjórnarskrá. Hann benti á skýra fyrirvara í lögum um stjórn fiskveiða um, að með þeim væru ekki myndaðar eignarheimildir, og á dómafordæmi, til dæmis dóm Hæstaréttar í svokölluðu Vatneyrarmáli 2000, en einnig hefði fallið sambærilegir dómar í svokölluðu Vinnslustöðvarmáli 2012 og í þriðja málinu í mars 2013. Hann kvað hins vegar hið sérstaka veiðigjald orka mjög tvímælis. Það gæti verið brot á 40. og 77. greinum stjórnarskrárinnar. Jón Steinar svaraði því til, að dómar þeir, sem Helgi Áss hefði nefnt, hefðu ekki verið um eðli aflaheimilda, heldur um sértækari úrlausnarefni, svo að ekki mætti draga af þeim víðtækar ályktanir um ágreiningsmál þeirra tveggja. Hann kvað spurninguna, sem dómstólar ættu eftir að svara, þessa: Fær það staðist lagalega, að íslenska ríkið leggi með sérstökum sköttum undir sig mestallan eða jafnvel allan arð í sjávarútvegi sérstaklega?

Margir kunnir lögfræðingar og forsvarsmenn í sjávarútvegi sóttu fundinn. Þótt Lögrétta héldi hann, studdi RNH hann sem þátt í samstarfsverkefni sínu við AECR, Evrópusamtök í íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments are closed.