Brook: Ekkert rangt við að elska sjálfan sig

Ljósm. Haraldur Guðjónsson.

Dr. Yaron Brook, forstöðumaður Aynd Rand-stofnunarinnar í Kaliforníu, fylgdi skáldsögu Ayns Rands, Kíru Argúnovu, sem Almenna bókafélagið gaf út 1. nóvember 2013, úr hlaði með erindi um sjálfselsku og kapítalisma í skáldskap Rands. Brook sagði, að í skáldsögum sínum drægi Rand upp mynd af hinum sjálfstæða, skapandi einstaklingi, sem væri stoltur af sjálfum sér og ráðinn í að vaxa upp í það, sem hæfileikar hans stæðu til og skynsemi hans vísaði honum á. Andstæðurnar í lífinu væru frjáls og óhindraður vöxtur einstaklinganna innan þeirra marka, sem frelsi annarra settu, og valdboð opinberra aðila. Aristóteles væri sá heimspekingur, sem skyldastur væri Rand. Sjálfselska í skilningi Rands fæli ekki í sér áreitni við aðra. En hinn stolti og sjálfstæði maður Rands, sem oft væri raunar kona, til dæmis Kíra Argúnova í samnefndri sögu og Dagný Taggart í Undirstöðunni, neitaði að fórna sér fyrir aðra. Hún væri ekki fædd til að vinna fyrir aðra, heldur fyrir sjálfa sig. Kapítalisminn væri það hagkerfi, sem kæmist næst því að veita fólki skilyrði til að vaxa og dafna í fjölbreytileika sínum án átroðnings við aðra eða frá öðrum.

Fjörugar umræður urðu að erindi Brooks loknu. Hann var spurður, hvað yrði um náungakærleik í kenningu Rands. Brook svaraði því til, að vissulega gæti maður elskað aðra, en þeir yrðu að hafa unnið til þess. En það böl, sem flestir hefðu þyngstar áhyggjur af, til dæmis fátækt, yrði ekki bætt með náungakærleik, heldur með aukinni framleiðslu lífsgæðanna. Lítið brot manna gæti vissulega ekki bjargað sér af eigin rammleik, en nægilega margir væru til þess að hjálpa þeim hópi í frjálsu skipulagi, og þeir væru aflögufærir vegna kapítalismans. Hann hefði ekkert á móti hjálpsemi á eigin kostnað. Brook var einnig spurður, hvort hann gæti lagt að jöfnu svipuhögg á bak þrælsins og reglur um handbært fé í bönkum. Hann svaraði því til, að aðalatriðið væri, hvort um nauðung væri að ræða. Einstaklingar ættu að bera ábyrgð á lífi sínu sjálfir, en ríkið ekki taka ómakið af þeim. Hannes H. Gissurarson prófessor var fundarstjóri. Hann sagði, að íslensk tunga gerði greinarmun á stolti, sem hefði á sér jákvæðan blæ, og drambi, sem væri neikvætt og raunar ein af dauðasyndunum sjö samkvæmt kenningu kirkjufeðranna. Á ensku væri hins vegar sama orðið, „pride,“ notað um hvort tveggja. Hugsjón Rands væri ekki um drambsaman mann, heldur hinn, sem gæti orðið stoltur af sjálfum sér.

Kíra Argúnova birtist sem framhaldssaga í Morgunblaðinu 1949, en ekki hefur tekist að hafa upp á þýðandanum þrátt fyrir nokkrar tilraunir. Frosti Logason útvarpsmaður bjó bókina til prentunar, en Ásgeir Jóhannesson, lögfræðingur og heimspekingur, skrifaði eftirmála um Rand, ævi hennar og verk. Morgunblaðið birti viðtal við Brook 6. nóvember 2013. Einnig hafa margir bloggað um boðskap Rands, sumir óvinsamlega, til dæmis Egill Helgason, Stefán Ólafsson og Stefán Snævarr. Einnig deildi Sigurður Hólm á boðskapinn í útvarpsþættinum Harmageddon 31. október. Daginn eftir fundinn skrifaði Brook inn á síðu sína á Snjáldru: „Gave talk yesterday. Toured country last couple of days. Very beautiful, dramatic landscape. In spite of cold and wind, had a really good time!“

Erindi Brooks ásamt kynningarmyndbandi á undan um kvikmyndina Kíru Argúnovu og fyrirspurnum og svörum á eftir er á Youtube:

Comments are closed.