RNH, Rannsóknarsetri um nýsköpun og hagvöxt, var 12. nóvember 2013 veitt aðild að Evrópuvettvangi minningar og samvisku, Platform of European Memory and Conscience, sem stofnaður var 2011 í framhaldi af ályktunum Evrópuráðsins og Evrópuþingsins til minningar um fórnarlömb alræðisstefnunnar í Evrópu, nasisma og kommúnisma. Hélt vettvangurinn aðalfund í þetta sinn í Haag í Hollandi. Hannes H. Gissurarson prófessor sagði þar frá samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Hann skýrði út, hvers vegna megináhersla RNH væri á kommúnisma í því sambandi: Vitneskjan um mannvonsku nasista hefði komist inn í hugi Evrópumanna í stríðslok, þegar þeir sáu fyrir tilstilli ljósmynda og kvikmynda beint inn í útrýmingarbúðir nasista; og á Íslandi hefði starfað öflug kommúnistahreyfing, sem enn ætti sér málsvara.
Hannes rakti nokkra helstu viðburði í samstarfsverkefninu, en fjöldi fræðimanna og rithöfunda í fremstu röð hafa heimsótt Ísland í tengslum við það: dr. Bent Jensen prófessor, einn fremsti sérfræðingur Dana um kommúnisma, dr. Niels Erik Rosenfeldt prófessor, sem skrifað hefur tveggja binda verk um leynilega starfsemi Kominterns, dr. Øystein Sørensen prófessor, einn helsti sérfræðingur Norðmanna um alræðisstefnur, Stéphane Courtois, ritstjóri Svartbókar kommúnismans, Anna Funder, höfundur verðlaunabókarinnar Stasiland, dr. Pawel Ukielski, forstöðumaður safnsins um uppreisnina í Varsjá 1944, dr. Mart Nuut, sagnfræðingur og þingmaður á eistneska þinginu, og dr. Andreja Zver, forstöðumaður stofnunar um sátt við söguna í Slóveníu. Haldin var ljósmyndasýning um heimskommúnismann og Ísland í Þjóðarbókhlöðunni 23. ágúst–16. september 2013, og voru þar margar myndir úr erlendum myndasöfnum og frá einstaklingum á Íslandi og erlendis.
Einnig sagði Hannes frá tveimur erindum sínum í tengslum við verkefnið. Annað var haldið í nóvember 2012 til varnar Jung Chang og Jon Halliday, höfundum frægrar ævisögu Maós, en starfsmaður og styrkþegi kínversku stjórnarinnar hafði skrifað langa ádeilu á þau 2007 í Sögu, tímarit Hins íslenska sögufélags, á meðan enn var unnið að þýðingu bókar þeirra. Hitt erindið var haldið í október 2013 um „Ólíkar þjóðir deila minningum“, þar sem Hannes bar saman hlutskipti Íslands og Eystrasaltslandanna á tuttugustu öld: Öll fengu ríkin sjálfstæði 1918, öll voru þau hernumin vorið 1940, í öllum leysti nýr hernámsaðili annan af hólmi 1941, og öll urðu þau lýðveldi 1944, þegar Ísland sleit sambandið við Dani, en Eystrasaltsríkin urðu „ráðstjórnarlýðveldi“ gegn vilja sínum.
Kurt Schrimm, forstöðumaður opinberrar þýskrar stofnunar, sem hefur upp á og ákærir ofbeldisseggi úr röðum nasista, flutti gestafyrirlestur um Demjanjuk-málið. Í tengslum við aðalfund Evrópuvettvangs minningar og samvisku var haldin málstofa að kvöldi 12. nóvember í samkomuhúsi kaþólsku kirkjunnar í Haag, Huis De Boskant, um rætur alræðisstefnunnar. Stéphane Courtois benti þar á, að Lenín hefði fyrstur fylgt fram hugmyndinni um fullkomna umsköpun skipulagsins og nýjan mann að henni lokinni. Í rauninni hefðu Stalín og Hitler og jafnvel Mússólíni verið lærisveinar hans. Auk hans töluðu þar Vytautas Landsbergis, fyrrverandi forseti Litháens og þingmaður á Evrópuþinginu, László Tökés, biskup ungversku mótmælendakirkjunnar í Rúmeníu og baráttumaður gegn ógnarstjórn kommúnista, en hann situr einnig á Evrópuþinginu, og tveir Hollendingar, Jan Wiersma, sem sat á Evrópuþinginu fyrir jafnaðarmenn, og prófessor Theo de Wit. Í umræðum þetta kvöld benti prófessor Courtois á, að Páfagarður hefði verið eini aðilinn fyrir stríð, sem fordæmt hefði alræðisstefnurnar skilyrðislaust í tveimur páfabréfum, Divina Redemptoris gegn sameignarstefnu og Mit brennender Sorge gegn nasisma. Einn áheyrenda, dr. Pawel Ukielski, minnti á reynslu Mið- og Evrópuþjóða, sem lítið hefði verið gert úr í vestrænum sögubókum. Til dæmis væri seinni heimsstyrjöld þar lýst sem átökum Öxulveldanna og Bandamanna, en sannleikurinn væri sá, að Hitler og Stalín hefðu verið bandamenn frá 1939 til 1941 og þá skipt á milli sín Mið- og Austur-Evrópu.