Heisbourg: Evrópudraumurinn orðinn að martröð

Evrópudraumurinn er orðinn að martröð vegna þeirra mistaka að taka upp sama gjaldmiðil, evruna, í mestöllu Evrópusambandinu, þótt mörg aðildarríki hefðu verið vanbúin því, sagði François Heisbourg, einn kunnasti sérfræðingur Evrópu á sviði öryggis- og alþjóðastjórnmála, í fyrirlestri á fundi RNH og fleiri stofnana og samtaka í Háskóla Íslands 5. apríl 2014. Hann benti á, að hagvöxtur hefði síðustu sjö árin verið miklu örari í Bandaríkjunum, Kína og Brasilíu og á Indlandi en á evrusvæðinu. Vegna evrunnar hefðu ýmis ríki Suður-Evrópu ekki getað lagað sig að breyttum aðstæðum. Evran væri skráð of hátt fyrir þau, en of lágt fyrir Þýskaland. Menn hefðu trúað því, að ein stærð hæfði öllum, en reyndin hefði orðið, að ein stærð hæfði engum. Heil kynslóð æskufólks í Evrópu gengi um atvinnulaus. Evrópusambandið hefði verið stofnað til að tryggja friðsamleg samskipti í álfunni og verja fjórfrelsið — frjálsa flutninga fólks, vöru, þjónustu og fjármagns á milli Evrópulanda. Til þess að bjarga Evrópusambandinu þyrfti að leggja niður evruna. Það væri skásti kosturinn af mörgum vondum.

Heisbourg vék að Íslandi í fyrirlestrinum. Hann sagði, að vissulega hefði það komið sér vel í kreppunni 2007–2009 að standa utan evrusvæðisins og geta örvað útflutning með gengisfellingu. Hins vegar hefði Bretar og Hollendingar líklega ekki tekið Íslendinga sömu fantatökum og raun bar vitni, hefði Ísland átt aðild að Evrópusambandinu. Stefán Jóhann Stefánsson, hagfræðingur í Seðlabanka Íslands, andmælti þessari skoðun. Hefði Ísland átt aðild að Evrópusambandinu, sagði Stefán Jóhann, þá myndi sambandið hafa neytt Ísland til að taka að sér miklu víðtækari skuldbindingar en gert var.  Ásgeir Jónsson hagfræðingur spurði Heisbourg í umræðum eftir fyrirlesturinn, hvort Frakkar væru reiðubúnir að taka aftur upp franka og binda hann við þýskt mark, eins og þeir hefðu gert fyrir upptöku evrunnar. Heisbourg svaraði því til, að vissulega hefði frankinn verið bundinn þýska markinu áður, svo að Frakkar hefðu talið sér það sjálfstæðismál, að evran tæki við af markinu. En það hefði líklega ekki mikil áhrif á franskt atvinnulíf að leggja niður evru. Það myndi hins vegar breyta miklu til batnaðar í Suður-Evrópu.

Í Íslandsför sinni hitti Heisbourg meðal annarra Sigmund Davíð Gunnarsson forsætisráðherra og Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra og talaði á fundi utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins. Fyrirlestur Heisbourgs á fundi RNH vakti mikla athygli. Einn fundargesta, Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, bloggaði um Heisbourg. Morgunblaðið birti viðtal við Heisbourg 5. apríl, og fréttamenn Sjónvarpsins og Stöðvar tvö töluðu einnig við hann.

Comments are closed.