Haustið 2014: Margir viðburðir framundan

Matt Ridley á Íslandi 2012.

Margir viðburðir eru framundan hjá RNH í haust. Föstudaginn 24. október kl. 16 verður málstofa um „Tekjudreifingu og skatta“ í fundarsal Gamma á jarðhæð við Garðastræti 37. Þar mun prófessor Corbett Grainger frá Wisconsin-háskóla í Madison skýra, hvers vegna auðlindaskattur í sjávarútvegi sé óheppilegur, Ragnar Árnason prófessor greina ýmsar mælingaskekkjur um tekjudreifingu og skattbyrði og Hannes H. Gissurarson prófessor gagnrýna kenningar franska hagfræðingsins Thomasar Pikettys um sífellt breiðara bil milli ríkra og fátækra. Málstofan er haldin í tilefni af því, að komið er út hjá Almenna bókafélaginu greinasafnið Tekjudreifing og skattar, sem sex íslenskir fræðimenn skrifa í, Ragnar Árnason, Birgir Þór Runólfsson, Axel Hall, Helgi Tómasson, Hannes H. Gissurarson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson. Einn samstarfsaðili RNH, RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, styrkti útkomu bókarinnar. Ráðstefnan er haldin í samstarfi við Samtök skattgreiðenda. Eftir fyrirlestra og umræður verður móttaka.

Fimmtudaginn 30. október verður málstofa kl. 17 í fundarsal Gamma á jarðhæð við Garðastræti 37 um efnið „Heimur batnandi fer“. Þar mun metsöluhöfundurinn dr. Matt Ridley, fyrrverandi vísindaritstjóri Economist, sem situr í lávarðadeild breska þingsins og skrifar reglulega um vísindi í Lundúnablaðið Times, kynna boðskap sinn í bókinni Heimur batnandi fer, sem Almenna bókafélagið gefur út í haust í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur. Ridley hefur oft komið til Íslands og nefnir landið þrisvar í bók sinni. Þráinn Eggertsson prófessor bregst við erindi Ridleys, og Ragnar Árnason prófessor skýrir út, hvers vegna íslenska kvótakerfið, sem Ridley getur að góðu í bók sinni, sé dæmi um sjálfbæra og arðbæra nýtingu auðlinda. Á eftir fyrirlestrinum verður móttaka á staðnum. Báðar málstofurnar eru liðir í samstarfsverkefni RNH og AECR, „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans”. RNH mun einnig standa ásamt öðrum að ráðstefnu European Students for Liberty í Reykjavík 15. nóvember.

F. A. Hayek

Prófessor Hannes H. Gissurarson, sem hefur umsjón með rannsóknum á vegum RNH, mun flytja nokkra fyrirlestra í haust. Einn verður á ráðstefnu Economic Freedom Institute í Manhattanville í New York 10.–12. október um Leiðina til ánauðar eftir Friedrich A. Hayek. Þar lýsir Hannes því, hvernig þrjár íslenskar stofnanir, ítala í beitarlandi til fjalla, verðtryggð króna og kvótakerfið í sjávarútvegi, séu sjálfsprottin fyrirbæri í skilningi Hayeks frekar en skipulögð, þótt vissulega hafi þurft lagasetningu til að styðja þau. Annar fyrirlestur verður á fundi European Students for Liberty í Björgvin 18. október, þar sem hann gagnrýnir kenningar franska hagfræðingsins Thomasar Pikettys um tekjudreifingu. Þriðji fyrirlesturinn verður á ráðstefnu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands 31. október, þar sem hann ræðir um og reynir að skýra viðhorf breskra ráðamanna, sérstaklega Alistairs Darlings, til Íslendinga í bankahruninu og fyrir það. Fer hann meðal annars yfir lýsingu Darlings á Íslendingum í bók hans, Back from the Brink, sem kom út 2011. Fjórði fyrirlesturinn verður hjá Institute of Economic Affairs í Lundúnum 27. nóvember, þar sem hann ræðir um það, hvers vegna Íslendingar voru skildir eftir úti í kuldanum í hinni alþjóðlegu bankakreppu 2007–2009. Fyrirlestrarnir eru allir liðir í samstarfsverkefni RNH og AECR, „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans.“

Réttur aldarfjórðungur verður 9. nóvember liðinn, frá því að Berlínarmúrinn féll, en sá viðburður markaði ósigur kommúnismans í kalda stríðinu. Af því tilefni mun RNH opna vefsetur, þar sem birt verða í netútgáfu ýmis rit um kommúnisma. Fyrsta ritið verður Svartbók kommúnismans, sem prófessor Stéphane Courtois ritstýrði og kom út í Frakklandi 1997, en í íslenskri þýðingu 2009. Þessi viðburður er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, „Evrópa fórnarlambanna.“ Mánudaginn 24. nóvember flytur dr. Tara Smith frá Háskólanum í Texas í Austin erindi kl. 17 í stofu HT-105 í Háskólatorgi Háskóla Íslands um boðskap bandarísku skáldkonunnar Ayns Rands, en bækur hennar hafa selst í um þrjátíu milljónum eintaka um allan heim og haft mjög víðtæk áhrif. Almenna bókafélagið hefur gefið út þrjár skáldsögur Rands, Uppsprettuna (The Fountainhead) 2011, Undirstöðuna (Atlas Shrugged) 2012 og Kíru Argúnovu (We the Living) 2012. Rand er ótrauður talsmaður kapítalismans og telur, að framfarir verði í krafti skapandi einstaklinga, en ekki þeirra, sem lifa á öðrum. Á eftir fyrirlestri og umræðum verður móttaka í Litlu-Hámu, hliðarsal Hámu, mötuneytis Háskóla Íslands. Fyrirlestur dr. Smiths er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans.“

Á næsta ári, 2015, munu prófessor Gary Libecap, einn fremsti sérfræðingur heims um nýtingu auðlinda, prófessor Andrew Morriss, sérfræðingur í lögum og hagfræði, sem hefur skrifað talsvert um Ísland, Julian Morris frá Reason Foundation og fleiri fræðimenn, íslenskir og erlendir, flytja fyrirlestra á ráðstefnu um „Grænan kapítalisma“.

Comments are closed.