Hannes um sjálfsprottna þróun í New York: Föstudag 10. október

F. A. Hayek

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, heldur fyrirlestur á alþjóðlegri ráðstefnu Economic Freedom Institute, sem tengd er Manhattanville College í Purchase í New York-ríki, skammt norðan af New York-borg, föstudaginn 10. október. Ráðstefnan er að þessu sinni helguð 70 ára minningu Leiðarinnar til ánauðar eftir Friedrich A. von Hayek, sem gaf það tímamótaverk út 1944. Sautján fræðimenn halda erindi á ráðstefnunni, þar á meðal hinn kunni peningamálahagfræðingur Jerry Jordan, fyrrverandi seðlabankastjóri Seðlabankans í Cleveland, William Poole, fyrrverandi seðlabankastjóri Seðlabankans í St. Louis, prófessor Sanford Ikeda, State University of New York í Purchase, og prófessor Edward Stringham, Fayetteville State University í Norður-Karólínu.

Hannes ræðir um sjálfsprottna þróun í anda Hayeks. Hann nefnir fyrst þrjú erlend dæmi um sjálfsprottna þróun, þegar menn leysa með markaðsviðskiptum vanda, sem hagfræðingar hafa stundum ranglega talið leysanlegan eingöngu með ríkisafskiptum. Eitt dæmið var frá A. C. Pigou af tveimur misgóðum vegum, þar sem umferðin skiptist ekki á hagkvæman hátt á milli þeirra og yrði of mikil á betri veginum, svo að þar yrðu tafir. F. H. Knight benti á, að þetta mætti leysa með einkaeign á vegum. Annað dæmi var í öllum skólabókum, meðal annars eftir P. Samuelson. Það var af vitum, en erfitt væri eða ókleift að takmarka verðlagningu þjónustu þeirra við notendur. R. H. Coase benti á reynslu, sem sýndi, að greiðsla fyrir þjónustu þeirra var innheimt með hafnargjöldum. Þeir gátu þess vegna verið einkareiknir. Þriðja dæmið var ljósvakinn, en í Bandaríkjunum úthluta opinberar stofnanir útvarpsleyfum. T. W. Hazlett benti á, að á þriðja áratug var að þróast eignarréttur á útvarpsrásum á hverju svæði, sem dómstólar viðurkenndu stundum, en þessi þróun var stöðvuð með lagasetningu Bandaríkjaþings.

Hannes greinir þrjú dæmi frá Íslandi. Eitt þeirra hefur dr. Þráinn Eggertsson prófessor skrifað um í erlend fræðitímarit: Ítalan myndaðist, þegar bændur nýttu afréttir til sumarbeitar. Hætt var við ofbeit, nema tala sauðanna, sem hver bóndi mátti reka á fjall, væri takmarkaður. Þetta var gert og sú hagfræðilega rétta regla sett, að heildarfjöldi sauða í hverri afrétt skyldi miðast við það, að þeir sneru sem feitastir heim á hverju hausti. Ítalan var í raun kvóti, sem fylgdi hverri jörð. Þess vegna þurfi samnýting afréttanna ekki að verða ofnýting. Annað dæmi þekkja allir Íslendingar, og hafa þeir Hannes og dr. Ragnar Árnason prófessor skrifað margt um það á ensku og íslensku: Kvótakerfið í sjávarútvegi myndaðist til þess að afstýra ofnýtingu fiskimiðanna. Hugmyndin er hin sama og með ítölunni að fornu: hvert skip fær sinn kvóta. Síðan komast eigendur skipanna að því með frjálsum viðskiptum með kvótana, hverjum hentar best að halda áfram útgerð og hverjum best að hætta henni. Þriðja dæmið er af krónunni. Hún var jafngild danskri krónu og Ísland óbeint aðili að myntbandalagi Norðurlanda til 1922. En frá 1922 til 1992 fór íslensk króna niður í 1/1000 af danskri krónu (því að hún var hundraðfölduð 1983). Íslensk króna gegndi því ekki vel tveimur af þremur hlutverkum sínum, að vera verðmælir og geymir verðmæta, þótt hún gegndi sæmilega fyrsta hlutverki sínu, að vera gjaldmiðill. Hannes lagði því til 1983, að krónan yrði lögð niður. En síðar áttaði hann sig á, að menn höfðu leyst þennan vanda í markaðsviðskiptum. Til hafði orðið annar gjaldmiðill á Íslandi, sem gegndi vel því hlutverki að vera verðmælir og geymir verðmæta. Hann var verðtryggða krónan. Menn greiddu fyrir kaffibolla á veitingastað með venjulegri krónu, en gerðu langtímasamninga í verðtryggðri krónu.

Hannes telur lausnir eins og ítölu, aflahlutdeildir í fiskveiðum og verðtryggða krónu dæmi um lausnir, sem menn finna frekar á markaðnum með aðferð happa og glappa, í sjálfsprottinni þróun, en með ríkisafskiptum og skipulagningu, þótt vissulega þurfi að tryggja þessar lausnir, reglur eða stofnanir, með lagasetningu. Fyrirlestur hans í New York er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments are closed.