Hannes um Piketty í Björgvin: Laugardag 18. október

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, heldur fyrirlestur um kenningar franska hagfræðingsins Tómasar Pikettys á alþjóðlegri ráðstefnu European Students for Liberty í Björgvin 18. október. Þar ber Hannes saman kenningar bandaríska heimspekingsins Johns Rawls og Pikettys, en munurinn er sá, að Rawls hafði áhyggjur af fátæku fólki, en Piketty af ríku. Hannes gagnrýnir talnanotkun Pikettys, sem vanmetur að hans sögn tekjur fátækasta tekjuhópsins og ofmetur að sama skapi tekjur ríkasta tekjuhópsins. Það sé hins vegar vel hugsanlegt, að dregið hafi sundur með fátækustu og ríkustu hópunum á Vesturlöndum síðustu áratugi. Ein ástæða til þess geti verið, að heimsviðskipti hafa aukist, en það hafi tvenns konar áhrif: Verkamenn á Vesturlöndum sæti samkeppni frá kínverskum og indverskum verkamönnum, og fólk með sérstaka hæfileika, sem erfitt sé eða ókleift að fjöldaframleiða, til dæmis kvikmyndastjörnur, skemmtikraftar, íþróttahetjur og hugvitsmenn, geti nú náð til miklu stærri markaðar en áður og þess vegna stóraukið tekjur sínar. Hannes ræðir líka, hvort eitthvað sé í sjálfu sér óréttlátt eða óeðlilegt við ójafna tekjudreifingu, þegar sú tekjudreifing sé samkvæmt frjálsu vali.

Á meðal annarra fyrirlesara á ráðstefnunni eru dr. Yaron Brook, forstöðumaður Ayn Rand stofnunarinnar í Kaliforníu, og prófessor emeritus Rögnvaldur Hannesson, sem kenndi lengi við Viðskiptaháskólann í Björgvin. Ræðir Brook um siðferðilegan boðskap Rands, en Rögnvaldur um einkaeignarrétt á gæðum hafsins. Nýjasta bók Rögnvaldar er um öfgaumhverfisstefnu, Ecofundamentalism: A Critique of Extreme Environmentalism. Fyrirlestur Hannesar er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments are closed.