Smith um Rand: Mánudag 24. nóvember kl. 17–18

Tara Smith

Sjálfsbjargarhvötin er góð, kapítalisminn siðlegur, sagði Ayn Rand, vinsælasti og áhrifamesti kvenheimspekingur allra tíma, en skáldsögur hennar, sem hún notar til að koma á framfæri boðskap sínum, hafa selst í þrjátíu milljónum eintaka. Mánudaginn 24. nóvember kl. 17 mun heimspekiprófessorinn Tara Smith frá Texas-háskóla í Austin útskýra röksemdir Rands fyrir hinum djarflega og óvenjulega boðskap hennar, sem gengur þvert á rétttrúnaðinn víða í háskólum og á meðal álitsgjafa í fjölmiðlum. Rand var afdráttarlaus í stuðningi sínum við kapítalismann og aðdáun á skapandi mönnum, frumkvöðlum, sem neita að láta aðra lifa á sér sníkjulífi. Nefnir Smith fyrirlestur sinn: „Justice, Productiveness, & Money: The Egoistic Capitalism of Ayn Rand’s Atlas Shrugged.“ Réttlæti, framleiðni og peningar: Sjálfselskukapítalismi í Undirstöðu Ayns Rands. Fyrirlesturinn er á Háskólatorgi, stofu HT-105, ásamt spurningum og svörum frá kl. 17 til 18, en að honum loknum býður RNH til móttöku í Litlu-Hámu, hliðarsal á efri hæð Háskólatorgs, kl. 18–19. Viðburðurinn nýtur aðstoðar Ayn Rand Institute í Kaliforníu og þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Þrjár skáldsögur Ayns Rands hafa komið út á íslensku. Kíra Argúnova (We the Living), sem birtist fyrst sem framhaldssaga í Morgunblaðinu 1949, kemst næst því af skáldsögum Rands að styðjast við ævi hennar sjálfrar. Kíra er hugrökk og sjálfstæð ung stúlka, sem býr eins og Rand í Rússlandi kommúnismans, þar sem vöxtur og þroski einstaklinganna er heftur. Sjálf slapp Rand til Bandaríkjanna 1926. Uppsprettan (The Fountainhead) er um listamann, arkitektinn Howard Roark, sem lætur hvorki almenning né auðjöfra segja sér fyrir verkum, en heldur ótrauður áfram þá braut, sem hann hefur markað sér. Undirstaðan (Atlas Shrugged) er öðrum þræði rómantísk ástarsaga, sem snýst í kringum Dagnýju Taggart og mennina í lífi hennar, en um leið spurning: Hvað gerist, ef allir skapandi menn, frumkvöðlar, þreytast á að láta aðra lifa á sér sníkjulífi og draga sig í hlé, hætta þátttöku í hinu venjulega atvinnulífi?

Ayn Rand (1905–1982) var metsöluhöfundur í Bandaríkjunum og raunar um allan heim. Hún varð snemma tíður gestur í sjónvarpssal. Hér er viðtal, sem hinn kunni sjónvarsmaður Mike Wallace tók við hana 1959, tveimur árum eftir að Undirstaðan kom út:

Comments are closed.