Rússalán, óreiðumenn, fjármálamiðstöð og fleira

Frá fundinum. Ljósm. Haraldur Guðjónsson.

Þeir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðidósent og Hannes H. Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor sögðu báðir, að ýmsar nýjar heimildir væri að finna um bankahrunið íslenska, á fundi RNH og Félags stjórnmálafræðinga miðvikudaginn 14. janúar 2015. Guðni hefur skoðað Wikileaks-gögn og fengið í krafti upplýsingalaga ýmis skjöl úr breska utanríkisráðuneytinu. Kvaðst Guðni gögn sín veita vísbendingu um, að Rússalánið svonefnda, sem rætt var um skömmu fyrir bankahrunið, hefði verið raunhæfur möguleiki og að frægur Kastljósþáttur með Davíð Oddssyni, þáverandi seðlabankastjóra, hefði ekki ráðið neinu um, að Bretar beittu hryðjuverkalögunum gegn Íslendingum. Skjölin úr breska utanríkisráðuneytinu hefðu að vísu takmarkað heimildagildi, því að margt væri strikað út úr þeim. Þau sýndu þó, að fjármálaráðuneytið breska hefði ráðið ferðinni í samskiptum við Íslendinga haustið 2008, en ekki utanríkisráðuneytið. Guðni lýsti efasemdum um „umsáturskenningu“, sem þeir Styrmir Gunnarsson og Hannes H. Gissurarson hefðu sett fram. Hann ræddi einnig almennt um heimildagildi skjala og um hlutleysiskröfuna í sagnfræði. Hann birti ritgerð í hausthefti Sögu 2014 um þessi mál.

Hannes í ræðustól. Ljósm. Haraldur Guðjónsson.

Hannes benti á fundargerðir bankaráðs Englandsbanka frá 2008, en þær birtust 7. janúar 2015. Þar kemur fram, að Bretar litu hugmyndir um Ísland sem fjármálamiðstöð hornauga. Hannes tók undir það með Guðna, að Rússalánið hefði verið raunhæfur möguleiki. Kvað hann Tryggva Þór Herbertsson geta staðfest, að allt það, sem Davíð Oddsson hefði sagt um Rússalánið í fréttatilkynningu að morgni 7. október 2008, hefði verið rétt. Rússneski sendiherrann hefði hringt í Tryggva Þór, eftir að hann hefði hringt í Davíð, og sagt afdráttarlaust hið sama við hann og Davíð, að samþykkt hefði verið að veita Íslendingum lán. Rússar hefðu hins vegar hrokkið til baka þá um daginn, þegar þeir fengu spurnir af því, að ýmsir íslenskir ráðamenn vildu frekar semja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Íslendingar hefðu eftir það lent í gildru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem gerst hefði handrukkari fyrir Breta. Hefðu Íslendingar fengið gjaldeyrisskiptasamninga eða lánalínur fyrir 5–10 milljarða dala, annaðhvort frá Rússum eða Bandaríkjamönnum, þá hefði verið unnt að fara „sænsku leiðina“, þjóðnýta bankana, reka þá áfram og skipta þeim upp í „góðan“ og „vondan“ hluta. Þá hefði kreppa ekki breyst í hrun.

Eiríkur Bergmann var umsegjandi. Hann gagnrýndi greinarmuninn, sem Hannes virtist gera, á „góðum“ kapítalistum og „vondum“. Kvað hann enn óútskýrt, hvers vegna Bretar hefðu komið svo harkalega fram gagnvart gamalli vinaþjóð. Svo virtist sem þeir hefðu talið, að þeim hefði verið lofað, að íslenska ríkið gengist í ábyrgð fyrir bankana, en það loforð hefði verið svikið. Enginn vissi hins vegar, hver hefði átt að gefa slíkt loforð. Troðfullt var á fundinum, sem haldinn var í stofu HT-101 á Háskólatorgi. Urðu fjörugar umræður eftir framsöguerindi þeirra Guðna og Hannesar og umsögn Eiríks. Tryggvi Þór Herbertsson kvaddi sér hljóðs og staðfesti frásögn Hannesar um Rússalánið. Fundurinn var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna. Viðskiptablaðið tók upp fundinn í heild og setti á heimasíðu sína. Einnig birti blaðið fjölda mynda af fundinum. Sjónvarpið og Stöð tvö ræddu við þá Guðna og Hannes, og einnig var rætt við þá tvo í Spegli Ríkisútvarpsins. Morgunblaðið birti einnig rækilega frásögn af fundinum.

Hér er frétt Stöðvar tvö:

Hér er frásögn Morgunblaðsins:

Hér eru glærur Hannesar:

HHG.Reykjavik.14.01.2015

Hér er frétt Viðskiptablaðsins:

 

 

Comments are closed.