Fjölmennt og vel heppnað þing frjálshyggjustúdenta

Ragnar Árnason flytur fyrirlestur sinn.

Svæðisþing Evrópusamtaka frjálshyggjustúdenta, European Students for Liberty, var haldið í Reykjavík laugardaginn 3. október 2015, var fjölsótt og tókst hið besta.  Voru fulltrúar ekki aðeins úr háskólunum, heldur líka margir úr framhaldsskólum á Reykjavíkursvæðinu. RNH studdi ráðstefnuna á ýmsan hátt. Prófessor Ragnar Árnason, formaður rannsóknaráðs RNH, hélt fyrirlestur um eignarrétt og frjálsan markað, prófessor Hannes H. Gissurarson hélt móttöku heima hjá sér fyrir erlendu gestina á ráðstefnunni og Gísli Hauksson, formaður stjórnar RNH, skipulagði móttöku fyrir alla ráðstefnugesti, sem var á vegum Gamma eignastýringarfélags, og fengu ráðstefnugestir þar að kynnast framsæknu fyrirtæki í örum vexti. Þátttaka RNH var liður í samstarfsverkefni við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Aðrir ræðumenn á ráðstefnunni voru Ásgeir Ingvarsson viðskiptafréttamaður, sem talaði um áhrif innflytjenda á tekjudreifingu, Sigríður Andersen þingmaður, um samband stjórnmálabaráttu og hugmyndabaráttu, Roderick T. Long, heimspekiprófessor í Auburn háskóla, um „vinstri-frjálshyggju“ eða bandalag róttækra vinstri manna og frjálshyggjumanna, sem litu hvorir tveggja ríkið og ýmsar aðrar stofnanir með tortryggni, og Heiðar Guðjónsson fjárfestir, um skuldasöfnun ríkisins, sem einkaréttur þess á útgáfu peninga auðveldaði. Þótt ráðstefnugestir væru síður en svo sammála um allt, fannst þeim undantekningarlaust, að margar frumlegar og djarfar hugmyndir hefðu verið settar fram á fundinum. Fundarstjórar voru Lukas Schweiger frá Austurríki, sem búsettur er á Íslandi, og Eyð Áradóttir frá Færeyjum, sem búsett er í Danmörku. Fundurinn var tekinn upp af þýska kvikmyndafyrirtækinu Sons of Libertas, og verður hluti upptökunnar og viðtöl við nokkra fyrirlesara notað í heimildamynd, sem fyrirtækið er að gera.

Glærur Ragnars Árnasonar

Comments are closed.