Vel heppnaður sumarskóli

Sumarskóli Samtaka frjálsra framhaldsskólanema, sem haldinn var í Reykjavík 8.–10. júlí 2016, tókst vonum framar. Um þrjátíu manns sóttu skólann, sem RNH studdi sem lið í samstarfsverkefninu „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“ með AECR, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna. Skólinn hófst með hófi fyrir alla þátttakendur á heimili Hannesar H. Gissurarsonar prófessors, forstöðumanns rannsókna RNH, föstudagskvöldið 8. júlí, en skólahald var á laugardag og sunnudag í Hinu húsinu við Pósthússtræti.

Laugardaginn 9. júlí talaði Hannes H. Gissurarson um heimspeki frelsisins. Hann gerði greinarmun á átta ólíkum aðkomum að eða útgáfum af frjálshyggju, miðjusækinni stefnu J. S. Mills og Keynes, Austurrísku hagfræðingunum, Mises og Hayek, Chicago-hagfræðingunum, Friedman, Becker og Stigler, Almannavalsfræðingum eins og Buchanan, Eignarréttarhagfræðingunum, Demsetz og Coase, mannréttindakenningu Nozicks og hugmyndum Ayns Rands í skáldsögum hennar um hina skapandi einstaklinga, frumkvöðla. Þá talaði Ragnar Árnason prófessor um hagfræði frelsisins. Hann taldi frelsi í eðli sínu frekar vera ytra frelsi en ytra frelsi, svo að notaður væri greinarmunur Isaiah Berlins á „negative“ eða ytra frelsi og „positive“ eða innra frelsi. Í fæstum orðum væri frelsið fólgið í því að geta gert það, sem menn vildu. Leiða mætti út, að þetta tækist á frjálsum markaði, þar sem menn hefðu flest tækifæri til að öðlast það, sem þeir sæktust eftir.

Jadranka talar um austurrísku hagfræðingana.

Federico Fernandez frá austurríska hagfræðisetrinu í Vín talaði um gjaldþrot sósíalismans í Venesúela. Hann kvað landið hafa verið eitt hið auðugasta í Rómönsku Ameríku fyrir nokkrum áratugum, enda væri mikil olía þar í jörðu. En Hugo Chávez hefði komist til valda, þjóðnýtt fyrirtæki og skert frelsi, svo að landið væri nú eitt hið fátækasta í álfunni. Nú væru verslanir tómar, skólar dröbbuðust niður, og margir syltu. Ekki væri unnt að kenna lækkuðu olíuverði um ástandið, því að verðið á tunnu hefði verið um 10 dalir, þegar Chávez tók við, hefði síðan farið upp og niður, en væri nú um 40–50 dalir á tunni. Jadranka Kaludjerovic frá Montenegro talaði um austurrísku hagfræðingana. Þeir hefðu stutt frjálst hagkerfi sterkum rökum. Ludwig von Mises hefði hrakið hugmyndir sósíalista, Friedrich A. Hayek sett fram kenningu um, að dreifing þekkingar krefðist dreifingar valds, og Joseph Schumpeter lýst hinni skapandi tortímingu kapítalismans, þegar hið óhagkvæmara viki fyrir hinu hagkvæmara.

Hörður talar um frumkvöðla.

Sumarskólanum var haldið áfram á sunnudaginn. Þá talaði Sigríður Andersen um náttúruvernd og benti á, að leysa mætti margan umhverfisvandann með skilgreiningu eignarréttar á þeim gæðum, sem spillt væri, og eðlilegri verðlagningu slíkra gæða. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir talaði um, að ungt nútímafólk væri frjálslynt, en það rækist á margvíslegar hindranir. Skafti Harðarson talaði um muninn á því, hver væri tilgangur og árangur ríkisafskipta. Ríkið virtist stundum aðeins skattleggja vel rekin fyrirtæki í því skyni að styrkja illa rekin. Hörður Guðmundsson talaði um frumkvöðla, stofnun fyrirtækja og rekstur. Ríkið ætti ekki að styrkja frumkvöðlastarfsemi með beinum fjárframlögum, heldur með því að fækka hindrunum og fjölga tækifærum. Magnús Örn Gunnarsson skipulagði sumarskólann, en í honum var einnig dreift ýmsum ritum: Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlett, sem er mjög auðlæsilegur inngangur að helstu lögmálum hagfræðinnar, og Löstur er ekki glæpur eftir Lysander Spooner, og segir hinn beinskeytti titill margt um efnið. Enn fremur voru skáldsögur Ayns Rands, Kíra Argúnova, Uppsprettan og Undirstaðan, sem Almenna bókafélagið hefur gefið út, seldar í sumarskólanum við vægu verði. Einnig var dreift ritum frá Institute of Economic Affairs í Lundúnum og European Students for Liberty.

Á sumarskólanum var meðal annars sýnt þetta myndband:

Glærur Hannesar í Sumarskólanum 9. júlí 2016

Comments are closed.