Hvenær eru viðskipti siðferðilega óréttlætanleg?

Heil. Tómas af Akvínas

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, sótti árlega ráðstefnu Samtaka um einkaframtaksfræðslu, APEE, Association of Private Enterprise Education, sem var nú haldin í Las Vegas 3.–6. apríl 2016. Þar stjórnaði hann einni málstofu og hélt sjálfur einn fyrirlestur, og var hann um siðferði viðskipta. Hannes rakti hugmyndir heilags Tómasar af Akvínas, sem taldi menn ekki þurfa að upplýsa viðskiptavini sína um mat sitt á aðstæðum (í dæminu af kaupmanninum frá Alexandríu á eynni Ródos), en þeir mættu ekki heldur hagnýta sér neyð annarra (til dæmis í umsátri um borg) til að knýja fram ósanngjarnar niðurstöður. Í þessu sambandi lýsti Hannes því, hvernig norskir, finnskir og danskir fjáraflamenn hefðu eftir íslenska bankahrunið með fulltingi stjórnvalda í löndum sínum hirt eignir íslenskra banka fyrir smánarverð, Glitnir Bank og Glitnir Securities í Noregi, Glitnir Pankki í Finnlandi og FIH banka í Danmörku. Taldi hann þetta framferði hafa verið siðferðilega óréttlætanlegt á mælikvarða heilags Tómasar. Hannes hefur birt ritgerð á íslensku um þetta efni.

Hagfræðingurinn Gerald O’Driscoll, fyrrv. aðstoðarseðlabankastjóri Seðlabankans í Dallas, var kjörinn nýr forseti APEE. Á meðal annarra stjórnarmanna er Robert Lawson, sem komið hefur til Íslands á vegum RNH og haldið fyrirlestur um vísitölu atvinnufrelsis. Fyrirlestur Hannesar 5. apríl var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur HHG í Las Vegas 5. apríl 2016

Comments are closed.