Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, sótti ráðstefnu um atvinnufrelsi í Manhattanville College í Purchase í New York-ríki 8.–9. apríl og flutti þar fyrirlestur um atvinnufrelsi á Íslandi 930–2016. Hann lýsti meðal annars stofnunum þjóðveldisins, frjálsu vali um goða og beitarréttindum í almenningum (ítölu). Einnig reyndi hann að svara þeirri spurningu, hvers vegna Íslendingar hefðu soltið öldum saman, þótt nægur fiskur spriklaði í sjó. Þá greindi hann íslenska kvótakerfið, en íslenskur sjávarútvegur er nú sjálfbær og arðbær ólíkt því, sem gerist víðast annars staðar. Hannes gaf á síðasta ári út bókina The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable hjá Háskólaútgáfunni. Einnig ræddi Hannes um markaðskapítalismann, sem fylgt var á Íslandi 1991–2004, og klíkukapítalismann og auðræðið, sem tók eftir það við fram að bankahruni 2008, og um eftirleikinn.
Á ráðstefnunni tók Hannes þátt í pallborðsumræðum um peningamál og starfsemi seðlabanka ásamt dr. Warren Coats, sem var lengi yfirmaður deildar sérstakra dráttarréttinda hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, dr. Arthur Gandolfi, sem var aðstoðarforstjóri Citibank, og prófessor James Lothian, Fordham-háskóla. Sagði Hannes þar frá reynslu sinni af því að sitja í bankaráði Seðlabanka Íslands 2001–2009 og hugleiðingum sínum um æskilegustu skipan peningamála í litlum og opnum hagkerfum. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.