Fiskveiðistefna Íslendinga gott fordæmi?

Hannes heldur erindi. Fundarstjóri var Diego Zuluaga.

Á Bretlandseyjum er verulegur áhugi á íslenska kvótakerfinu í sjávarútvegi, enda losna Bretar við útgönguna úr Evrópusambandinu undan hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu, CFP, Common Fisheries Policy, sem hefur reynst mjög illa. Þetta kom fram á ráðstefnu um einkalausnir í opinbera og hálfopinbera geiranum, sem IEA í Lundúnum, Institute of Economic Affairs, og Epicenter, samtök nokkurra evrópskra rannsóknastofnana, hélt í Flórens á Ítalíu 7.–9. september 2016. Þar flutti prófessor Hannes H. Gissurarson erindi um samnýtingarbölið svokallaða (common pool problem), en það felst í því, að við ótakmarkaðan aðgang að takmörkuðum auðlindum eykst sóknin í þær, uns allur hugsanlegur gróði hefur verið þurrkaður upp. Samnýting leiðir til ofnýtingar. Lausnin er oft sú að skilgreina einkaréttindi til nýtingar gæðanna, afgirða almenninga á ýmsa vegu, og lýsti Hannes nokkrum dæmum frá Íslandi: beitarréttindum á almenningum (ítölunni), sem Forn-Íslendingar skilgreindu; veiðiréttindum í laxveiðiám, sem bændur eiga saman; og síðast, en ekki síst, aflaheimildum á Íslandsmiðum. Hannes kvað íslenska kvótakerfið hafa reynst vel, enda væri aðaláhyggjuefni andstæðinga þess, að útgerðarmönnum græddist fé, á meðan sjávarútvegur annars staðar væri víðast rekinn með tapi og háum framlögum úr almannasjóðum.

Á meðal annarra fyrirlesara voru þýski hagfræðingurinn Guido Hülsmann, sem velti fyrir sér eðli og hlutverki seðlabanka, hagfræðingurinn Diogo Costa frá Brasilíu, sem talaði um deilihagkerfið, og efnafræðingurinn Terence Kealey frá Bretlandi, sem leiddi rök að því, að opinberir styrkir til vísindarannsókna næðu ekki yfirlýstum tilgangi sínum, þótt sterkt samband kæmi í ljós milli framlaga úr einkageiranum til vísindarannsókna og framfara í vísindum. Einnig var talsvert rætt um, hvort Evrópusambandið gæti þróast í frjálsræðisátt. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Hannes notaði líka tækifærið í Flórens til að rannsaka ævi og verk Niccòlos Machiavellis, en hann kennir um hann í stjórnmálaheimspeki. Að dvölinni í Flórens lokinni hélt Hannes til Rómar, þar sem hann hitti að máli prófessor Antonio Martino, sem var um árabil utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Ítalíu og um skeið forseti Mont Pèlerin-samtakanna, alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna. Martino, sem var einnig lengi prófessor í peningamálahagfræði, er einn af ráðgjöfum RNH.

Glærur Hannesar í Flórens 8. september 2016

Comments are closed.