Forvitnileg ráðstefna á laugardaginn

Evrópusamtök frjálslyndra stúdenta, European Students for Liberty, halda svæðisþing í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 8. október 2016. Þrír kunnir erlendir fyrirlesarar halda þar erindi. Dr. Tom G. Palmer, forstöðumaður Atlas Network í Washington-borg og fræðimaður í Cato-stofnuninni, talar um rökin fyrir frelsi, en hann gaf nýlega út bókina Self-Control or State-Control: You Decide. Dr. Nigel Ashford, forstöðumaður rannsókna í Institute for Humane Studies, lýsir hinum ólíku tegundum eða skólum frjálshyggju: austurrísku hagfræðingunum, Mises og Hayek, Chicago-hagfræðingunum, Friedman og Becker, almannavalsfræðingum eins og James M. Buchanan, mannréttindasinnum eins og Robert Nozick og Ayn Rand og markaðs-stjórnleysingjum, þ. á m. Murray Rothbard og David Friedman. Dr. Barbara Kolm, forstöðumaður Austurrísku hagfræðistofnunarinnar, ræðir um afstöðu frjálslynds fólks til Evrópusambandsins.

Einnig verða pallborðsumræður, þar sem þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Pawel Bartozsek skiptast á skoðunum um, hvaða stjórnmálaflokkur er frjálslyndastur á Íslandi. Ráðstefnan hefst klukkan 11 með skráningu þátttakenda, en dagskrá hefst kl. 11.30 og lýkur kl. 16. Að ráðstefnunni lokinni er mótttaka í Gamma að Garðastræti 37 k. 18.30–21. Þátttökugjald er 1.000 kr. og greiðist við komu. Innifalið í því er hádegisverður og móttaka. Skráning fer hér fram.

Almenna bókafélagið býður ráðstefnugestum bækur sínar um þjóðmál fram á afsláttarverði: Heimur batnandi fer eftir Matt Ridley; skáldsögurnar Undirstaðan, Uppsprettan og Kíra Argúnóva eftir Ayn Rand, þjóðmálaritin Icesave-samningarnir: Afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson, Búsáhaldabyltingin: sjálfsprottin eða skipulögð? eftir Stefán Gunnar Sveinsson og Andersen-skjölin: Rannsóknir eða ofsóknir? eftir Eggert Skúlason; endurprentanir sígildra rita gegn alræðisstefnunni: Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen, Úr álögum eftir Jan Valtin (réttu nafni Richard Krebs), Leyniræðan um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Andres Küng. Þátttaka RNH í ráðstefnunni er liður í samstarfsverkefni við AECR, Alliance of European Conservatives and Reformists.

Comments are closed.