Kosningaúrslit, stjórnarmyndunartilraunir og forsetakjör

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, fékk dr. Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor til sín á ÍNN miðvikudaginn 2. nóvember til að ræða úrslitin í þingkosningunum 29. október, stjórnarmyndunartilraunir að þeim loknum og forsetakjörið, sem framundan er í Bandaríkjunum. Hannes kvað úrslitin ótvíræð skilaboð um tvennt frá kjósendum: Þeir vildu Bjarna Benediktsson sem forsætisráðherra og gætu ekki hugsað sér vinstri stjórn. Hann kvað eina helstu fréttina af úrslitunum vera, að hið hefðbundna vinstra (sem lengst voru Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur, en gengu líka undir öðrum nöfnum: kommúnistaflokkur til 1938, Sósíalistaflokkur til 1956, Samfylking og Vinstri grænir frá 1998) hefði aldrei verið minna. Það hefði löngum haft fylgi um 30–35% kjósenda, farið upp í 44% 1978 og upp í hvorki meira né minna en rösk 51% 2009, eftir bankahrunið. Nú hefði það hrapað niður í rösk 21%.

Hannes sagði, að Píratar hefðu tapað kosningabaráttunni. Fólki hefði ekki litist á þá. Annars væri það jafnan svo í kosningabaráttu, að menn ofmætu getu ríkisins. Það gæti ekki skapað hagvöxt eða hamingju, heldur aðeins einstaklingarnir sjálfir með framtaki, dugnaði og hagsýni. Segja ætti hið sama við ríkið og Díogenes sagði við Alexander mikla, þegar keisarinn stóð yfir einsetumanninum og spurði, hvort ekki mætti gera eitthvað fyrir hann: „Jú, eitt, að þú færir þig frá sólinni.“ Hannes kvað Hillary Clinton miklu skárri forsetaframbjóðanda en Donald Trump, sem væri andvígur viðskiptafrelsi. Trump vildi reisa múra, en þess í stað þyrfti að smíða brýr. Trump bæri ekki heldur næga virðingu fyrir konum, en Hannes kvaðst vera frjálslyndur jafnréttissinni í anda Johns Stuarts Mills: Konur og karlar ættu að njóta sama réttar fyrir lögunum og jafnrar virðingar sem einstaklingar.

Bj0rnBjarna 02NOV16 from inntv on Vimeo.

Comments are closed.