Úr borgarastríði í Gúlag

Hinn 17. júlí 2016 voru 80 ár liðin frá því, að spænska borgarastríðið skall á, þegar þjóðernissinnaðir herforingjar undir forystu Franciscos Francos gerðu uppreisn gegn hinu unga spænska lýðveldi. Af því tilefni gaf Almenna bókafélagið út aftur bókina El Campesino – Bóndann eftir Valentín González og Julián Gorkin. Er hún aðgengileg á Netinu og einnig á prenti. González, El campesino, var foringi í her lýðveldissinna. Hann var tíður gestur á forsíðum Þjóðviljans og kemur fyrir í hinni frægu skáldsögu Ernests Hemingways um spænska borgarastríðið, Hverjum klukkan glymur. Þegar borgarastríðinu lauk með sigri þjóðernissinna á útmánuðum 1939, flýði El campesino til Ráðstjórnarríkjanna. Þar var honum í fyrstu tekið með kostum og kynjum, en brátt kom að því, að hann lenti í vandræðum vegna hreinskilni sinnar og hugrekkis. Eftir nám í herskóla var hann sendur í þrælkunarvinnu í Gúlagi, neti vinnubúða, sem teygði sig um öll Ráðstjórnarríkin. Honum tókst þó fyrir ótrúlega röð tilviljana, meðal annars stóran jarðskjálfta í Ashgabat í Túrkmenístan, að flýja árið 1949 til Írans og þaðan til Parísar. Þar bar hann vitni í réttarhöldum um, hvort þrælkunarbúðir væru reknar í Ráðstjórnarríkjunum, og skrifaði bók sína um stríðið og Gúlagið með aðstoð Juliáns Gorkins, trotskista, sem sætt hafði ofsóknum kommúnista í innbyrðis átökum lýðveldissinna.

Bókin kom fyrst út á íslensku hjá Stuðlabergi 1952 í þýðingu Hersteins Pálssonar ritstjóra. Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor skrifar formála og skýringar aftanmáls. Bendir hann meðal annars á, að fjórir Íslendingar að minnsta kosti gerðust sjálfboðaliðar í spænska borgarastríðinu. Ekki er hins vegar vitað um nema einn Íslending í Gúlaginu, barnunga dóttur Benjamíns Eiríkssonar hagfræðings, sem mun hafa látist þar. Endurútgáfa bókarinnar er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments are closed.