Kænugarður: Fórnarlamba Stalíns minnst

Þátttakendur í ársfundinum. Göran Lindblad, forseti vettvangsins, fyrir miðju. Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, 4. frá hægri í fremri röð. Sitt hvorum megin við Lindblad standa tveir Íslandsfarar, Pawel Ukielski frá Póllandi og Sandra Vokk frá Eistlandi.

Á ársfundi Evrópuvettvangs minningar og samvisku, sem haldinn var í ráðherrasal þinghússins í Kænugarði 24.–26. nóvember 2016, var rætt um, hvernig tákn og merki um kúgun kommúnista eru nú óðum fjarlægð í Úkraínu og annars staðar. Fundarmenn skoðuðu Majdan-torg, Soffíukirkjuna og ýmis söfn, og forystumenn vettvangsins hittu að máli Hanna Hopko, formann utanríkisnefndar þingsins, Mykola Knyazhaytsky, formann menningarmálanefndar þingsins, og Yevhen Nyschuk menntamálaráðherra. Nokkur ný samtök gengu í vettvanginn, Stofnun um lýðræði, fjölmiðla og menningu í Albaníu, Samtökin Minningarþræðir í Tékklandi, Minningarsamtök Slóvakíu, pólska Witold Pilecki-rannsóknarsetrið um alræði og Samtök um varðveislu minningarinnar um Majdan-uppreisnina í Úkraínu. Fulltrúar vettvangsins tóku þátt í minningarathöfn 26. nóvember um hungursneyðina í Úkraínu 1932–1933 í boði forseta Úkraínu, Petro Poroshenko, og kveiktu á kertum af því tilefni.

Á fundinum gerði rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, grein fyrir samstarfsverkefni RNH og ACRE, Samtaka íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu, „Evrópu fórnarlambanna,“ sérstaklega endurútgáfu bóka um alræðisstefnuna. Árið 2015 voru gefin út þrjú slík rit, Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen og Úr álögum eftir Jan Valtin (Richard Krebs). Árið 2016 voru fimm rit gefin út í sömu röð, Leyniræðan um Stalín eftir Níkíta Khrústjov, Bóndinn – El campesino eftir Valentín González og Julián Gorkin, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras, Eistland: Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Andres Küng og Þjónusta, þrælkun, flótti eftir Aatami Kuortti.

Comments are closed.