Gjaldeyriseftirlitið: Vald án eftirlits?

Út er komið nýtt þjóðmálarit Almenna bókafélagsins, Gjaldeyriseftirlitið: Vald án eftirlits? eftir Björn Jón Bragason, sagnfræðing og lögfræðing. Þar er sagt frá Gjaldeyriseftirliti Seðlabankans, sem sett var upp til að fylgjast með því, að gjaldeyrishöftin eftir bankahrunið væru ekki brotin. Samkvæmt frásögn Björns Jóns var ráðið í eftirlitið ungt og óreynt fólk, sem hafði óskýra hugmynd um verkefni sín og valdheimildir. Það virtist halda, að það ætti helst að góma kaupsýslumenn og þyrfti við það ekki að fylgja settum lögum og reglum. Björn Jón lýsir þremur málum, þar sem Gjaldeyriseftirlitið beitti fólk hörðu, en reyndist síðan hafa gengið allt of langt: Aserta-málið, þar sem forstöðumaður Gjaldeyriseftirlitsins, Ingibjörg Guðbjartsdóttir, kærði gamla vinnufélaga fyrir að fylgja ráðgjöf hennar sjálfrar, mál Heiðars Guðjónssonar fjárfestis, sem fékk að kenna á óvild Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og undirmanna hans, þegar Heiðar hugðist ásamt öðrum bjóða í Sjóvá, og Samherjamálið, þar sem gerð var að tilefnislausu húsleit hjá einu stærsta og myndarlegasta útgerðarfyrirtæki landsins, jafnframt því sem dómari veitti af vangá heimild til rannsókna á óskyldum erlendum fyrirtækjum.

Björn Jón spyr eins og Rómverjar að fornu: Hver á að hafa eftirlit með eftirlitsmönnunum? Almenna bókafélagið hefur gefið út fjögur þjóðmálarit, þar sem reyndir og ritfærir blaðamenn og sagnfræðingar hafa skrifað um ýmis eftirmál bankahrunsins: Árið 2012 kom út Icesave-samningarnir: Afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson blaðamann; árið 2013 Búsáhaldabyltingin: Sjálfsprottin eða skipulögð? eftir Stefán Gunnar Sveinsson, sagnfræðing og blaðamann; árið 2015 Andersen-skjölin: Rannsóknir eða ofsóknir? eftir Eggert Skúlason, fyrrverandi ritstjóra DV; og nú bók Björns Jóns. RNH er einn af samstarfsaðilum AB.

Comments are closed.