Æviágrip Ólafs Björnssonar prófessors

Hannes H. Gissurarson ræðir við Ólaf Björnsson um frjálshyggju í Ríkisútvarpinu 12. nóvember 1978.

Út er komið í tímaritinu Andvara 2016 æviágrip Ólafs Björnssonar prófessors eftir Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóra RNH. Ágripið er alllangt, 63 blaðsíður. Hannes segir frá ættum Ólafs og æsku og námi hans í Menntaskólanum á Akureyri og Kaupmannahafnarháskóla, en Ólafur var annálaður námsgarpur. Hann lýsir áhuga Ólafs á róttækum stjórnmálahugmyndum á háskólaárunum og starfi hans í Kyndli, félagi róttækra stúdenta í Kaupmannahöfn. Við lestur rita þeirra Ludwigs von Mises og Friedrichs Hayeks gerðist Ólafur þó um það leyti fráhverfur sósíalisma. Sannfærðist hann um, að hagfelldasta skipulag atvinnumála hvíldi á dreifingu valdsins og frjálsum alþjóðaviðskiptum. Við áætlunarbúskap væri þekking og kunnátta einstaklinganna úti í atvinnulífinu ekki fullnýtt.

Þegar Ólafur Björnsson sneri að loknu hagfræðiprófi heim 1938, gerðist hann því einn beinskeyttasti gagnrýnandi haftabúskaparins, sem hér var rekinn af mestu afli 1930–1960. Einnig þýddi hann 1945 útdrátt úr Leiðinni til ánauðar eftir Hayek, og olli það hörðum blaðadeilum. Ólafur kenndi hagfræði í Viðskiptaháskólanum, síðar viðskiptadeild Háskólans, frá útmánuðum 1940 og allt þar til hann lét af starfi sjötugur 1982. Gaf hann út mörg merk fræðirit, þar á meðal stórvirkið Þjóðarbúskap Íslendinga. Hann sat jafnframt á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1956–1971. Árið 1978 kom út eftir hann stjórnmálaritið Frjálshyggja og alræðishyggja, sem hafði mikil áhrif á margt ungt fólk. Ólafur lést 1999 og lét eftir sig eiginkonu og þrjá syni. Ritgerð Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Æviágrip Ólafs Björnssonar.pdf

Comments are closed.