Ný bók: Hrun og endurreisn

Bókarhöfundar, Hersir og Ásgeir. Ljósm. Visir/Vilhelm

Tveir sérfræðingar í fjármálafræðum, dr. Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræðideild Háskóla Íslands, og dr. Hersir Sigurgeirsson, dósent í viðskiptafræðideild skólans, hafa gefið út bók um eftirleik íslenska bankahrunsins 2008, The Icelandic Financial Crisis: A Study Into the World’s Smallest Currency Area, hjá Palgrave Macmillan í New York. Af því tilefni er útgáfuráðstefna í Háskóla Íslands miðvikudaginn 1. mars kl. 16–18 í Hátíðasal, þar sem höfundarnir tveir flytja ávörp, en síðan eru pallborðsumræður, og í þeim taka þátt Jóhannes Karl Sveinsson, lögfræðilegur ráðgjafi stjórnvalda í uppgjöri eftir bankahrunið, Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins, dr. Sigurður Hannesson, stærðfræðingur og ráðgjafi stjórnvalda um losun fjármagnshafta, og Kristrún Heimisdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður utanríkisráðherra. Fundarstjóri er dr. Ólafur Þ. Harðarson prófessor.

RNH vekur sérstaka athygli á útgáfuráðstefnunni og bókinni, sem er hin forvitnilegasta. Þeir Ásgeir og Hersir greina sérstöðu íslenska peningakerfisins í bankahruninu, þar sem seðlabankinn gat ekki leyst lausafjárvanda bankanna með seðlaprentun eins og seðlabankar annarra þjóða, því að vandinn var í erlendum gjaldmiðlum, sem ekki fékkst aðgangur að. Einnig rekja þeir, hvernig stjórnvöld í krafti neyðarréttar settu neyðarlögin 6. október 2008 til að koma í veg fyrir, að áfallið af hruni bankanna lenti af fullum krafti á herðum venjulegra borgara, og hversu harkalega breska Verkamannaflokksstjórnin brást við. Þá lýsa þeir hinni hröðu endurreisn íslenska hagkerfisins síðustu árin, þar á meðal samningum við kröfuhafa. Höfundarnir telja, að margt megi læra af íslenska bankahruninu og endurreisn hagkerfisins.

Comments are closed.