Frjáls markaður á ferð

Dwight Lee, Federico Fernandez og John Fund (í ræðustól).

Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema undir forystu Ísaks Hallmundssonar, RNH og Austrian Economics Center í Vínarborg, sem dr. Barbara Kolm veitir forstöðu, héldu fjölsótt málþing um frjálsan markað, „Free Market Road Show,“ í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 1. apríl 2017. John Fund frá National Review og Fox News talaði um hina nýju lýðstefnu (populism). Hún væri eins konar útrás óánægðs fólks, sem teldi kjörna fulltrúa sína ganga erinda alþjóðlegrar menntamanna- og skriffinnaklíku frekar en eigin þjóðar. Fund lagði áherslu á hinar öru framfarir, sem orðið hefðu í krafti frjálsra viðskipta. Í umræðum eftir ræðu Funds kvað prófessor Hannes H. Gissurarson íhalds- og frjálshyggjumenn alls ekki mega hverfa frá frjálsum alþjóðaviðskiptum, en beina óánægju alþýðufólks heldur að hinni alþjóðlegu klíku, sem sæti yfir hlut skattgreiðenda og neytenda og tekið hefði sér bólfestu í ábyrgðarlausum báknum, alþjóðastofnunum, háskólum og mörgum  fjölmiðlum.

Álvarez.

Federico Fernandez frá Austrian Economics Center lýsti deilihagkerfinu, þar á meðal airbnb gistingu og Uber akstri. Taldi hann hvort tveggja hagkvæmt og æskilegt. Prófessor Dwight R. Lee frá Georgíu-háskóla í Atlanta minnti á, að ríkisafskipti næðu sjaldnast tilgangi sínum. Einn aðalkosturinn á frjálsum markaði væri, að menn hættu þar mistökum, af því að þeir töpuðu á þeim, en í opinberum stofnunum héldu þeir þeim áfram, af því að þau væru styrkt af almannafé. Gordon Kerr, fjármálaráðgjafi í Lundúnum, gerði að umtalsefni ýmsa veikleika á hinu alþjóðlega peningakerfi. Gloria Álvarez frá Guatemala gagnrýndi lýðstefnu í Rómönsku Ameríku, ekki síst undir forystu Castro-bræðra á Kúbu og Hugos Chávez í Venesúela.

Guðlaugur Þór talar. Álvarez t. v. (hálffalin), Björn Jón og Kerr t. h.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti lokaávarp þingsins. Vísaði hann því á bug, að kjör Trumps forseta og úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um úrsögn úr Evrópusambandinu væri sambærilegt. Trump vildi ekki frjáls alþjóðaviðskipti, en helstu stuðningsmenn úrsagnarinnar úr ESB væru einmitt fylgismenn slíkra viðskipta. Íslendingar ættu að stunda frjáls viðskipti, en ekki ganga í önnur bandalög en þau, sem þeir hefðu hag af, eins og Atlantshafsbandalagið. Engin merki væru um, að Bandaríkjamenn væru að breyta um utanríkisstefnu. Auk Ísaks Hallmundssonar hafði Magnús Örn Gunnarsson veg og vanda af þinginu, en Björn Jón Bragason stjórnaði umræðum, sem voru fjörugar. Bárust ræðumönnum margar spurningar. Sjónvarpið ræddi við John Fund um stjórnmálaviðhorfið í Bandaríkjunum og Viðskiptablaðið við Gloriu Álvarez um ástandið í Rómönsku Ameríku. Um kvöldið hittust ráðstefnugestir, þar á meðal ræðumenn, á Petersen vínstúkunni á efstu hæð Gamla bíós.

Þátttaka RNH í þinginu var liður í samstarfsverkefni þess og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments are closed.